2.8 C
Selfoss

Hveragerðisbær kaupir Öxnalækjarland

Vinsælast

Á fundi bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar var lagt fram minnisblað vegna kaupa bæjarins á Öxnarlækjarlandi. Alls er verið að kaupa 96,6 ha auk þess um það bil 12% eignahlut í félagi sem á landspildur neðan við þjóðveg, samtals 13,3 ha. Fram hefur komið að því landi fylgi bæði veiði og jarðhitaréttindi semog dæluhús. Alls er kaupverðið 84 m.kr. fyrir landið, hlutinn í félaginu og öllum þeim réttindum sem fylgja. Lögmönnum bæjarins hefur verið falið að ganga frá kaupunum.

Verðmæti falin í landinu fyrir Hveragerðisbæ

Í umsögn sinni segir bæjarstjórn: „Með kaupum á þessu svæði mun Hvergerðisbær einfalda allt utanumhald skipulagsmála en flókið eignarhald á reitum innan bæjarmarka hefur torveldað mjög skipulagningu á þessum hluta bæjarfélagsins. Augljóst er að til framtíðar eru í landinu falin mikil verðmæti fyrir Hveragerðisbæ, bæði hvað varðar uppbyggingu og útivist eins og farið er yfir í minnisblaði bæjarstjóra.

Hugsum til langrar framtíðar

Í samtali við Aldísi Hafteinsdóttur kemur fram að það sé afar jákvætt að bæjarfélagið fari með eignarhald á þessu svæði ekki síst til þess að geta af krafti framfylgt þeirri stefnumörkun sem mörkuð hefur verið í aðalskipulagi og framtíðarsýn bæjarstjórnar um uppbyggingu þar. „Bæjarstjórn vill hugsa til langrar framtíðar en ekki tjalda til einnar nætur.  Á efra svæðinu er bæði vatnsverndarsvæði og skógrækt og ríkir möguleikar til útivistar sem tengjast uppbyggingu ferðaþjónustu í dalnum ofan við Hveragerði sem mikilvægt er að bæjarfélagið geti stýrt milliliðalaust. Með kaupum á hlut í landspildum neðan þjóðvegar standa vonir til að hægt verði að liðka fyrir uppbyggingu á því svæði en þar eru ríkir möguleikar til stækkunar á byggingarsvæðum þar sem uppbygging er nú þegar í gangi. Þar eru einnig hagsmunir vegna vatnsverndar sem mikilvægt er að haldið sé utan um af festu. Með því að eignast hlut í því félagi sem þarna á stóra spildu verður mögulegt að hafa áhrif á nýtingu hennar til framtíðar.  Slíkt mun vonandi auðvelda framtíðar uppbyggingu á svæðinu,“ segir Aldís.

Random Image

Nýjar fréttir