11.1 C
Selfoss

Kristófer ráðinn sviðsstjóri í Bláskógabyggð

Vinsælast

Sjö umsóknir bárust í starf sviðsstjóra framkvæmda- og veitusviðs Bláskógabygðar. Það voru þau Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri og Helgi Kjartansson, oddviti sem stýrðu ráðningarferlinu. Alls voru þrír umsækjendur sem best þóttu standast þær hæfnikröfur sem settar voru fram í auglýsingu og voru boðaðir í viðtal. Á fundi sveitarstjórnar fór Ásta yfir ráðningarferlið og lagði fram greinargerð og mat á þeim þremur umsækjendum sem komu í viðtal. Í mati sveitarstjórnar Bláskógabyggðar segir að í ljósi umsókna, gagna og greinargerða sem lögð hafi verið fyrir sveitarstjórnina telji sveitarstjórn að Kristófer Arnfjörð Tómasson sé hæfastur umsækjenda til að gegna starfi sviðsstjóra framkvæmda- og veitusviðs. Þá þakkar sveitarstjórn góðar umsóknir og áhuga á starfinu. Í samtali við Kristófer kemur fram að starfið leggi mjög vel í hann. „Verksviðið er býsna víðtækt og mér sýnist liggja fyrir mörg spennandi verkefni. Gamli Tungnamaðurinn þekkir starfssvæðið býsna vel og fagnar því að vera kominn aftur á heimaslóðir.“

„Við erum mjög ánægð með að fá Kristófer til starfa hjá okkur í Bláskógabyggð. Við stöndum í miklum framkvæmdum og á næstu árum eru fyrirhugaðar enn meiri nýframkvæmdir og því var mikilvægt að fá einstakling í þetta starf með víðtæka og góða reynslu á verkefnum sveitarfélaga. Menntun og starfsreynsla Kristófers mun nýtast okkur vel, eins er hann vel kunnugur staðháttum, allt skiptir þetta máli,“ segir Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar þegar Dagskráin náði tali af honum.

 

Nýjar fréttir