-1.6 C
Selfoss

Hjólandi frambjóðandi fann meðbyr

Vinsælast

„Þetta var ákveðin hugdetta og ég átti auðvelt að fá fólk í þetta með mér,“ segir Björgvin Jóhannesson á Selfossi sem ákvað að hjóla um Suðurkjördæmi til að vekja athygli á framboði sínu í prófkjöri sjálfstæðismanna með þessum sérstaka hætti. „Þetta var að hluta til vinahópur frá menntaskólaárunum á Laugarvatni og úr félags- og íþróttastarfi í gegnum tíðina sem lét til leiðast og hjólaði með mér,“ bætir hann við.

Björgvin og stuðningshópur hans hóf ferðina í blíðviðri Sandgerði og hjólaði þaðan í Garð, og lét hópurinn sérstaklega vel af þeirri leið að sögn Björgvins. Þaðan var farið í Reykjanesbæ, rennt í Vogana og svo sem leið lá yfir til Grindavíkur. Þá tók við Suðurstrandarvegurinn til Þorlákshafnar, og farið beggja vegna Ölfusáróssins, annars vegar upp Ölfusið til Hveragerðis og hinsvegar um Eyrarbakkann og Stokkseyri og þaðan á Selfoss. „Þetta tókst óskaplega vel og var vel tekið á móti hópnum allsstaðar,“ segir Björgvin.

Seinni dag ferðarinnar, Uppstigningardag, hófst ferðin í slyddu sem stóð yfir lungann úr morgninum en það hafði lítil áhrif á hjólahópinn að sögn Björgvins. Að þessu sinni var farið upp Grímsnesið, um Laugardalinn, stoppað í Efstadal þar sem frambjóðandinn og fjölskylda hans eldaði ofan í mannskapinn. Þaðan var hjólað í  Reykholt og svo á Flúðir og þaðan á Hellu og síðar Hvolsvöll. Þegar þarna var komið ákvað hópurinn að halda áfram niður í Landeyjahöfn og fara til Vestmannaeyja, sem var loka áfangastaður seinni hjóladagsins að þessu sinni og að baki voru á fjórða hundruð kílómetrar. Til stendur að hjóla í Skaftafellssýslurnar um hvítasunnuna og segist Björgvin ekki síður eiga von á skemmtilegum hópi fólks með sér í það ferðalag.

 

Nýjar fréttir