9.5 C
Selfoss

Þetta er að frétta eða er þetta Óráð í Árborg

Vinsælast

Ársreikningur Sveitarfélagsins Árborgar var samþykktur á bæjarstjórnarfundi 12. maí 2021. Við það tækifæri færðu bæjarfulltrúar D-lista starfsfólki Sveitarfélagsins Árborgar þakkir fyrir vel unnin störf á árinu 2020 við krefjandi aðstæður í miðjum heimsfaraldri.

Þrátt fyrir breytt atvinnuástand vegna heimsfaraldurs hafa tekjur sveitarfélagsins aukist frá árinu 2019 um 638 millj.kr. Það er því dapurlegt að upplifa þá stöðu að Sveitarfélagið Árborg sé rekið með 949,4 millj.kr. tapi árið 2020, sem gerir 2,6 millj.kr. tap á dag.

Ársreikningurinn endurspeglar þann alvarleika sem bæjarfulltrúar D-lista hafa bent á, sem felst í því að aðhalds er ekki gætt í rekstri og að um verulega offjárfestingu er að ræða, þar sem forgangsröðun er ekki í samræmi við skyldur sveitarfélagsins. Aukast því skuldir umtalsvert á sama tíma og hægt og illa gengur að byggja nauðsynlega innviði fyrir lögbundna starfsemi.

Árið 2018 voru skuldir sveitarfélagsins 11.843 millj.kr., en 2020 voru skuldirnar orðnar 15.137 millj.kr. Líklega telst það vera Íslandsmet í skuldsetningu á einungis tveimur árum sem núverandi meirihluti hefur verið við stjórn.  Skuldaviðmið sveitarfélagsins fer því hækkandi, þrátt fyrir að breytingar hafi verið gerðar á útreikningi þess og að skuldir Leigubústaða Árborgar teljist ekki lengur með í útreikningum.

Frá árinu 2018 þegar núverandi meirihluti tók við stjórn sveitarfélagsins hafa tekjur A-hluta bæjarsjóðs hækkað um 1.667 millj.kr., en gjöld hækkað um 2.361 millj.kr. Tekjur dugðu ekki fyrir rekstri á árinu 2020 og versnaði afkoma sveitarfélagsins um 900 millj.kr. frá árinu 2018. Yfirlýst markmið nýs meirihluta var að „stoppa lekann“, meintan útgjaldaleka úr bæjarsjóði. Ljóst er að lekabyttan lekur all hressilega.

Sveitarfélagið Árborg getur ekki talist rekstrarhæft þar sem það þarf að taka lán fyrir rekstrinum. Sú staða er afar dapurleg þó ekki meiri sé sagt, en þrátt fyrir það fagnar bæjarstjóri því í greinargerð sinni að sveitarfélagið sé á leið í skuldabréfaútboð, sem verulegar líkur eru á að skili hærri vöxtum en Lánasjóður sveitarfélaga getur boðið þeim sveitarfélögum sem uppfylla skilyrði til að vera þar í viðskiptum. Staðan er alvarleg og er ekki útlit fyrir að hún batni á yfirstandandi ári.

Útskýringar bæjarstjóra og meirihluta bæjarstjórnar þar sem COVID-19 faraldrinum er kennt um bága stöðu standast ekki, en eru til þess fallnar að rugla íbúa . Til samanburðar má skoða nágrannasveitarfélagið Ölfus, þar sem búa 2.400 manns og fjölgunin nam 7,2% á síðasta ári, samanborið við 4% í Árborg. A hluti bæjarsjóðs í Ölfusi skilaði 94 millj.kr. afgangi. Afgangurinn í Ölfusi er því 40.000 kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Til að árangurinn væri sá sami í Árborg á þessum sömu COVID tímum hefði þar þurft að vera afgangur upp á 392 millj.kr. en ekki halli upp á 949 millj.kr. Sveiflan er því upp á 1.338 millj.kr. Þetta sýnir að meirihluti bæjarstjórnar í Árborg ræður ekki við verkefnið sem honum var treyst fyrir sem vörslumönnum fjármuna sveitarfélagsins, þ.e. að fara vel með fé og gæta hagsmuna sveitarfélagsins og íbúa þess.

Bæjarfulltrúar D lista í Árborg

Gunnar Egilsson, Brynhildur Jónsdóttir,

Kjartan Björnsson, Ari Björn Thorarensen

Nýjar fréttir