10 C
Selfoss

Afkoma bænda er hluti af fullveldi þjóðarinnar

Vinsælast

Fæðuöryggi Íslendinga er háð nokkrum forsendum. Fyrir það fyrsta að auðlindir til framleiðslunnar séu til staðar, s.s. fiskistofnar og land til ræktunar. Að þekking á framleiðslu og tæki til framleiðslu séu til staðar og aðgengi að aðföngum sé tryggt.

Íslensk matvælaframleiðsla er mjög háð innfluttum aðföngum – sérstaklega eldsneyti og áburði, en einnig fóðri og sáðvöru, tólum og tækjum.

Íslenskur landbúnaður þarf því á sterkri sýn að halda, stuðningi landsmanna og stjórnvalda sem láta verkin tala og styðja landbúnaðinn með regluverki sem tekur mið af fámennri þjóð sem vill búa við eigið fæðuöryggi. Ef við lítum til frænda okkar í Noregi gætum við lært margt til að bæta umgjörð og kjör bænda á Íslandi. Afkoma bænda er mikilvægur liður í fæðuöryggi Íslendinga og fullveldi landsins.

Norskir bændur og Stórþingið setja sér skýr meginmarkmið í landbúnaðarstefnu sinni.

  • Fæðuöryggi
  • Landbúnað um land allt
  • Aukna verðmætasköpun
  • Sjálfbæran landbúnað með minni losun gróðurhúsalofttegunda.

Lykilþættir í fæðuöryggi Norðmanna er  að tryggja innlenda framleiðslu í landinu og standa vörð um grundvöll framleiðslunnar og sterkari samkeppnisstöðu landbúnaðarins. Norðmenn setja sér það markmið að tvöfalda verðmætasköpun í landbúnaði á næstu  5 árum með auknu samstarfi afurðastöðva og samkeppnislöggjöf sem styrkir greinina í samkeppni við innfluttar landbúnaðarvörur.

Það er klárlega mín skoðun að við verðum að standa með íslenskum bændum ef við ætlum að viðhalda og efla stöðu þeirra á matvælamarkaðnum og bæta afkomu þeirra til jafns við aðrar stéttir í þjóðfélaginu. Fæðuöryggi þjóðarinnar mun haldast í takt við afkomu bænda. Þess vegna verða samkeppnisyfirvöld að opna augun og búa landbúnaðinum sömu starfsskilyrði og Norskum bændum er búin í samkeppni sinni við innflutt matvæli.

Það er margt mótdrægt bændum á Íslandi þegar kemur að aðföngum, landnæði  og veðurfari. En kostirnir eru líka í heilnæmu vatni, landrými, hreinu umhverfi og sjálfbærri orku til framleiðslunnar. Það verður aldrei auðvelt eða ódýrt að vera matvælaframleiðandi á Íslandi þar sem kaupmáttur og laun eru með því hæsta sem þekkist í heiminum. Þess vegna þarf hugarfarsbreytingu þjóðarinnar um að standa með bændum og velja fæðuöryggi þjóðarinnar með því að velja og styðja Íslenskt.

 

Ásmundur Friðriksson alþingismaður.

 

Nýjar fréttir