7.3 C
Selfoss

Ósýnilegt ofbeldi? Hvar eru börnin okkar og hvað eru þau að gera?

Vinsælast

Forvarnarvinna lögreglu og barnaverndar;    

Foreldraeftirlit er orðið mun flóknara í dag heldur en hér áður. Árum áður var hefðbundið foreldrarölt skipulagt til að fylgjast með börnunum en í dag er eftirlitið margbreytilegra. Börnin okkar eru mörg með snjallsíma í höndunum og hafa þar aðgengi að alls konar fólki hvaðan af í heiminum og eru einum smelli frá skuggalegum hliðum samfélagsins sem margir fullorðnir vita ekki um. Börn með snjallsíma hafa mörg hver aðgengi að hinum ýmsum samfélagsmiðlum sem erfitt er hafa eftirlit með. Sem dæmi um samfélagsmiðla eru: Snapchat, Instagram, Facebook, Yolo, Twitter, Linkedin, Tiktok, Whatsapp, Telegram, Onlyfans og fleiri. Upptöldu samfélagsmiðlar hafa hina ýmsu eiginleika en innihalda allir í sér samskipti við fólk sem geta verið órekjanleg.

Tilkynningum til barnaverndar hefur fjölgað umtalsvert síðustu ár sem er áhyggjuefni, þar af tilkynningum er varðar stafrænt ofbeldi og stafrænt kynferðisofbeldi. Stafrænt ofbeldi felur í sér áreiti, niðurlægingu og ógnun á stafrænu formi. Að auki við stafrænt ofbeldi er einnig til stafrænt kynferðisofbeldi, það felur í sér myndbirtingu og/eða dreifingu á kynferðislegu efni sem getur verið hreyfimynd, ljósmynd eða hljóðbrot. Þegar upp kemur mál er varðar stafrænt kynferðisofbeldi  gegn barni fer af stað samvinna  milli barnaverndar og lögreglu. Þessum málum er tekið mjög alvarlega og í samvinnu er farið í vinnu að reyna að uppræta efnið, hlúa að þolenda og vinna með hegðun gerenda. Svona mál geta verið afar erfið í vinnslu en þolendur geta upplifað mikinn vanlíðan í kjölfarið og birtingarmyndirnar ýmislegar. Til að mynda geta afleiðingar verið lítið sjálfstraust, markaleysi, félagsfælni, hegðunarvandamál, maga/höfuðverkir, áhættuhegðun og sjálfsskaði.

Myndefni sem er komið á veraldarvefinn er erfitt að ná til baka og getur haft áhrif á nútíð og framtíð barns. Barn hefur ekki forsendur til að gera sér grein fyrir langatímaafleiðingum þess og því mikilvægt að fræða börnin. Að svo sögðu er gott að hafa í huga að sakhæfisaldur samkvæmt lögum er 15 ára og því geta börn gerst brotleg á  almennum hegningarlögum þrátt fyrir að vera ekki lagalega séð fullorðin.

Í ljósi aukningar á málum af þessum toga fór barnavernd Árborgar og lögregla nýverið í 7, 8 og 10 bekk í öllum grunnskólum í Árborg og ræddi um ofbeldi, birtingarmyndir og afleiðingar en sérstök áhersla var lögð á stafrænt kynferðisofbeldi. Forvarnarfyrirlesturinn gekk vel fyrir sig og ungmennin í samfélaginu okkar voru afar fróðleiksfús og góð umræða myndaðist. Stefnt er að því að ljúka við verkefnið og fara með forvarnarerindið á forvarnardegi 9. bekkjar í vor.

Ungmennin í Árborg voru öll til fyrirmyndar á fyrrgreindum fyrirlestrum og þið foreldrar getið verið stolt af þeim. Lögreglan og barnavernd biðlar til ykkar foreldra í Árborg að halda umræðunni á lofti heima fyrir og fylgjast með hvað börnin ykkar eru að gera í snjallsímum sínum þannig erum við öll forvarnir!

Fyrir hönd barnavernd Árborgar,

Sigþrúður Birta Jónsdóttir, félagsráðgjafi

Nýjar fréttir