7.3 C
Selfoss

Nýr rekstraraðili tekur við Tryggvaskála

Vinsælast

Tómas Þóroddsson, Ívar Þór Elíasson og Margrét Rún Guðjónsdóttir hafa tekið við rekstri Tryggvaskála á Selfossi en samningur þess efnis var undirritaður í dag, föstudaginn 30.apríl.

Fyrirtæki þeirra Tryggvaskáli ehf. mun áfram halda úti veitingarekstri í húsnæðinu og munu þau kynna helstu áherslur síðar en stefnt er á opnun staðarins eftir miðjan maí. Leigusamningurinn er til 5 ára með möguleika á framlengingu og hefur Tryggvaskáli ehf. nú tekið formlega við húsnæðinu.

Aðspurð um við hverju fólk megi búast segja þau: Það verða breytingar, reyndar ekki mikið hér inni. Andrúmsloftið verður hlýtt, en við komum þó til með að létta stemninguna töluvert. Maturinn verður allt öðruvísi og meira lagt upp úr að hægt sé að koma og fá sér drykk og eitthvað létt að borða. Tómas skýtur inn að matseðillinn verði stilltur af í verði og hægt að koma og fá sér að borða oftar en þegar fólk á afmæli. Svolítið hugsað að vera með minni rétti og hægt verði að deila matnum með borðinu. Steikurnar og fiskurinn eru ekkert að hverfa, en þetta verður fjölbreytt.

Sumarið leggst vel í þau og vertarnir sjá fyrir sér stemningu í húsinu og úti á stétt í sumar þar sem fólk nýtur matar og drykkjar og kannski fyrst og fremst samveru og félagslífs. Það verður líf og fjör hér í sumar, segja þau að lokum.

Á myndinni eru þau Margrét Rún Guðjónsdóttir, Ívar Þór Elíasson, Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri og Tómas Þóroddsson við undirritunina í Tryggvaskála.

 

Nýjar fréttir