8.9 C
Selfoss

Tækifærin í Árborg felast í friðsæld og mannvænu umhverfi

Vinsælast

Í umræðunni undanfarið hefur verið fjöldi umsókna um lóðir á Selfossi og áhugi fólks að flytja austur. Þá hefur verið rætt um og á það bent að þéttbýlið á Selfossi hafi rífleg tækifæri til velsældar og vaxtar á komandi misserum. Minna hefur farið fyrir umræðu um hina þéttbýliskjarna sveitarfélagsins og stefnu þess varðandi byggðina þar. Í framhaldi af fyrirspurn blaðsins til Gísla Halldórs Halldórssonar um uppbyggingu og framtíðarplön á Selfossi ræðum við nú framtíð og uppbyggingu hinna þéttbýliskjarna Sveitarfélagsins Árborgar sem stundum falla í skuggann í umræðunni.

Hver er sérstaða og styrkur strandarinnar/búgarðabyggðar varðandi framtíðaruppbyggingu?

Að flestu leyti eru styrkleikar Árborgar sem búsetusvæðis þeir sömu allt frá Laugardælum og niður að sjó. Gæðin sem fylgja grænum svæðum og návígi við náttúruna ná yfir alla Árborg og eru jafnvel ríkari í Tjarnarbyggð, á Stokkseyri og á Eyrarbakka en uppi á Selfossi. Það sama gildir um þá friðsæld sem við upplifum hér, umfram mesta þéttbýlið í höfuðborginni, sú friðsæld er meiri ef eitthvað er niður við sjóinn og í Tjarnarbyggð.

Það sem Selfoss hefur kannski fram yfir er meira návígi við þá miklu þjónustu sem þar er í boði – og það er þessi úrvals þjónusta sem gerir Árborg að sérstaklega áhugaverðum búsetukosti þegar fólk íhugar að flytja frá höfuðborginni. Mikið úrval í verslun og þjónustu af öllu tagi uppi við brú er ótrúlegt og var hálfgert kúltúrsjokk fyrir mig þegar ég flutti í sveitarfélagið 2018. Þar að auki er óviðjafnanlega fjölbreytt og góð aðstaða til íþróttaiðkunar á Selfossi.

Þorpin við ströndina eru ekki í færum með að skila sömu þjónustu og Selfoss á öllum sviðum, en íbúarnir búa við þá velsæld að geta nýtt þjónustuna á Selfossi með lítilli fyrirhöfn, enda örstutt að fara. Hinsvegar eru Stokkseyri og Eyrarbakki í góðri stöðu til að bæta við þá miklu flóru sem er á Selfossi og má þar t.d. benda á frábæran árangur í Kayak ferðum á Stokkseyri, þar sem veitt er toppþjónusta og stórkostleg upplifun.

Tækifærin í Árborg felast í friðsæld og mannvænu umhverfi náttúrunnar. Þar að auki felst styrkur byggðar við ströndina í alveg sérstakri nálægð við náttúruna, þar sem bæði Flóinn og sjórinn eru einstakur vettvangur. Það var tilviljun sem réð því að við hjónin leigðum okkur húsnæði á Eyrarbakka fyrsta árið okkar í Árborg, en það var engin tilviljun að við keyptum okkur í framhaldinu hús í þorpinu og höfum gert að heimili okkar.

Hvernig sér sveitarfélagið fyrir sér að þróunin verði með lóðir, úthlutanir og fleira á þessum svæðum?

Nýtt endurskoðað aðalskipulag Árborgar er nú á lokametrunum, ætti að fara í kynningu í sumar og fá samþykki næsta vetur. Þar með ætti að verða kominn góður grunnur til að þróa áfram byggð á Stokkseyri og Eyrarbakka. Mikilvægt er að sú þróun styðji áfram við friðsælt og fallegt umhverfi sem er einkennandi fyrir íslensk sjávarþorp. Líklegt er að byggðin þróist með tímanum í þá átt að vaxa saman. Ég held við þurfum frekar að hafa varann á okkur með hvað við viljum að þorpin vaxi hratt, heldur en áhyggjur af að þar byggist ekki upp.

Í Tjarnarbyggð eru aðstæður með talsvert ólíkum hætti. Þar eru skipulagðar lóðir fyrir um 300 heimili til viðbótar við það sem nú er og mér finnst líklegt að þar byggist upp með hægt vaxandi hraða á næstu tveimur áratugum. Þetta verður gróið og fallegt svæði og sveitarfélagið þarf að leggja áherslu á að tryggja góða umgengni og snyrtilegt umhverfi á meðan þessi uppbyggingarfasi varir.

Hvað með atvinnuuppbyggingu og möguleika á fjarvinnu?

Atvinnuhættir eru að taka stórkostlegum breytingum í nútímanum og það er fagnaðarefni fyrir landsbyggðina, því að búseta um allt land mun þar með bjóða aukna fjölbreytni í atvinnumöguleikum. Undanfarin ár hefur verið bent á að allt að 60-70% af þeim störfum sem börnin okkar munu starfa við í framtíðinni verði allt önnur en þau sem við þekkjum í dag. Covid-19 hefur síðan gefið okkur smjörþefinn af því hvað koma skal. Störf framtíðarinnar munu ekki verða í álverum eða gosdrykkjarverksmiðjum, því að þar munu vélar sjá um flest. Hið sama gildir um fiskvinnslu og aðrar verksmiðjur.

Þau störf sem fólk mun sinna, í nálægri framtíð, munu fyrst og fremst byggjast á samskiptum og þjónustu við fólk – og svo auðvitað sköpun, sem er tilgangur heimsins. Það er því mikilvægast að tryggja að tækifæri og vettvangur verði til slíkra samskipta. Í þeim efnum held ég að farsælast af öllu sé fyrir hverja byggð að þar sé einhvers konar samfélagsmiðstöð. Vel heppnaða tilraun í þá veru má t.d. finna í Blábankanum á Þingeyri. Miðstöð þar sem fólkið í þorpinu hittist, af því það á þangað erindi.

Hjartað í þorpinu, samfélagsmiðstöðin, gæti verið vettvangur fyrir ýmsa grunnþjónustu, t.d. afhendingarstaður fyrir póstböggla og vörur sem fólk pantar á netinu, sér í lagi kæli- og frystivörur. Þar gæti verið starfsfólk sem t.d. veitti íbúum aðstoð og ráðgjöf þegar fólk þarf að eiga samskipti við ríki, sveitarfélög eða fyrirtæki í gegnum vefþjónustur eða sambærilegt. Ekki væri verra að nokkur skrifstofurými væru á staðnum og aðstaða til að sinna skapandi verkefnum.

Það er með samfundum fólks sem framþróun verður og samfundir fólks eru einmitt líka það sem heldur geðheilsunni í lagi. Í dag er fólk að verða brjálað á einmanalegum samskiptum sínum við snjallsíma og oft í talsverðri einangrun frá mannlegri nánd.

Að  þessu sögðu þá er það auðvitað grunnforsenda í nútíð og framtíð að öflug gagnaveita sé til staðar út um allt. Ljósleiðarinn er lykilatriði í dag og sjálfsagt mun þráðlaus gagnaþjónusta leysa hann af hólmi með tímanum, þegar þráðlausar lausnir hafa náð meiri framþróun.

Hefur Árborg mótað sér stefnu varðandi störf án staðsetningar sinna eigin starfsmanna, jafnvel innan sveitarfélagsins?

Það má segja að sú stefna sé hjá sveitarfélaginu að ef starf þitt er þess eðlis að þú getir sinnt því annarsstaðar frá þá er það bara sjálfsagt mál. Við þurftum talsvert að biðja starfsfólk um að vinna heima vegna Covid og það gekk ágætlega. Hinsvegar er takmörk fyrir því hvað fólk nennir að vera lengi í einsemd við vinnu sína. Þess vegna er svo mikilvægt að koma upp miðstöðvum þar sem fólk í ólíkum störfum getur verið í nálægð hvers annars, t.d. deilt kaffiaðstöðu og átt skapandi spjall saman.

Nú stendur fyrir dyrum að nýir eigendur Landsbankahússins á Selfossi opni þar almenna skrifstofuaðstöðu, skrifstofuhótel, og ég bind vonir við að það verði bylting fyrir allan þann fjölda íbúa Árborgar sem í sækir störf á höfuðborgarsvæðinu, en lauslega áætlum við að það sé um 15-20% af vinnuaflinu í Árborg. Þetta auðveldar einnig ríkisstofnunum að sinna sínu hlutverki á Suðurlandi auk þess að vera líklegt til að stuðla að ýmsu samstarfi, klasaþróun og nýsköpun. Gaman væri að geta komið ámóta aðstöðu upp í hinum byggðunum, t.d. í tengslum við fyrrnefndar samfélagsmiðstöðvar.

Oft hef ég heyrt því fleygt að fólki finnist sem aðrir þéttbýliskjarnar í Árborg falli dálítið í skuggann af umræðunni um Selfoss, þar sem hringiðan er. Hvert er þitt mat á því og er tilefni til að vinna að því að efla þessa kjarna?

Það er eðlilegt að í allri umræðu beri Selfoss höfuð og herðar yfir aðra hluta bæjarins í ljósi þess að 90% íbúanna búa þar. Þar eru einnig flestar framkvæmdirnar og langstærstur hluti verslunar og þjónustu. Mér finnst það ekki áhyggjuefni og tel að aðrir þéttbýliskjarnar í Árborg eigi að geta notið góðs af allri jákvæðri umræðu sem Selfoss fær.

Það eru hinsvegar mikil tækifæri til að auka enn frekar gæði búsetu á Eyrarbakka, Stokkseyri og í Tjarnarbyggð, þó svo að margt hafi verið gert til að fegra þorpin og verði auðvitað gert áfram. Fyrst er auðvitað að telja ljósleiðarann, sem ætti ekki að þurfa að nefna, en er samt enn óleyst verkefni og komið langt fram yfir gjalddaga. Við höfum átt í talsverðum samskiptum við Gagnaveituna og Mílu á undanförnum árum, meðal annars á grunni viljayfirlýsingar milli Árborgar og Gagnaveitunnar frá 2018. Núna trúi ég ekki öðru en að þetta mál verði klárað, í síðasta lagi á næsta ári ef það tekst ekki á yfirstandandi ári. Þannig skil ég að minnsta kosti svör Gagnaveitunnar, sem ég reikna með að muni eiga samstarf við Mílu um þessi mál.

Það sem ég tel hinsvegar mikilvægast er uppbygging þeirra samfélagsmiðstöðva sem ég nefndi hér áðan. Þær gætu orðið hjartað í þorpinu, púlsinn og lífæðin. Maður er manns gaman. Á Eyrarbakka mætti t.d. byggja upp slíka miðstöð í skólahúsinu, gefa því andlitslyftingu og sýna húsinu þann sóma sem það á skilið.

Að mínu mati er einnig mjög mikilvægt að styrkja skólastarfið enn frekar með því að sameina alla árgangana á Stokkseyri. Góður skóli er það sem fólk horfir til þegar það velur sér búsetu og núverandi fyrirkomulag með starfið á tveimur stöðum er satt best að segja ekki sannfærandi fyrir aðkomumann. Ég hef átt fjölmörg samtöl um það við starfsfólk í skólanum og skólaþjónustunni og er ekki í nokkrum vafa um að sú ráðstöfun að hafa starfið á einum stað yrði til að styrkja verulega skólastarfið í þágu barna bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri. Núverandi fyrirkomulag hefur ýmsa vankanta, auk þess að vera kostnaðarlega óhagkvæmt sem nemur um 80-100 milljónum króna á ári. Fyrir það fé væri t.d. hægt að starfrækja samfélagsmiðstöð bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri – eða gera eitthvað annað sem gagnlegt þætti.

Það verða áreiðanlega ekki mörg ár þangað til fjölgun á svæðinu leiðir til þess að nýr fullbúinn skóli þarf að rísa á Eyrarbakka. Sá skóli mun þá þjóna Eyrbekkingum fyrir alla aldurshópa í grunnskóla og skólinn á Stokkseyri þjóna íbúum þar.

Hvert er hlutverk þessara svæða í heildarmynd Árborgar sem sveitarfélags til framtíðar?

Hlutverk Eyrarbakka, Stokkseyrar, Tjarnarbyggðar og Selfoss verður fyrst og fremst það sama – að vera góður staður til að búa á og sinna leik og starfi. Að mínu mati verður það lykilatriði fyrir alla þessa staði, samspil þeirra og lífsgæði í Árborg, að okkur takist að byggja upp frábærar almenningssamgöngur, sem þurfa að vera tíðar og ódýrar í notkun. Þetta skiptir miklu máli þannig að leggja megi áherslu á og auka það frelsi sem einkennir smábæjarlífið, en gefa um leið þennan stórborgarbrag þar sem auðvelt er að hitta fólk og nálgast fjölbreytt úrval af vörum og þjónustu.

Árborgarstrætó er í dag ókeypis fyrir alla og mikilvægt að íbúar sýni okkur að þörfin er til staðar með því að nota hann mikið. Það er auðvelt að sjá fyrir sér í framtíðinni hringferð strætós um Selfoss með mikilli ferðatíðni og tengingu niður Eyrarbakkaveginn, á Stokkseyri og Eyrarbakka, sömuleiðis með tíðum ferðum. Á Selfossi myndum við svo hafa góða samgöngumiðstöð rétt við hringveginn. Þetta getur skapað okkur mikið frelsi og lífsgæði og væri jafnframt gott innlegg til sjálfbærni og loftlagsmála.

 

Nýjar fréttir