0 C
Selfoss

Í tilefni af baráttudeginum 1. maí

Vinsælast

Til hamingju með baráttudaginn okkar 1. maí. Annað árið í röð falla niður hátíðarhöldin og kröfugöngur sem hefur verið ómissandi þáttur 1. maí með hestamönnum og lúðraþyt. Koma tímar og koma ráð við tökum bara stór skerf á næsta ári.

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) sem er stærsta samband launafólks á Íslandi með 135 þúsund félagsmenn hefur staðið vaktina í þau 105 ár sem eru frá stofnun ASÍ. Fingraför verkalýðshreyfingarinnar eru á flestum þeim velferðarmálum og réttindum sem við njótum  í dag og flestum þykir sjálfsögð. Í þessu sérkennilega covid ástandi sem við búum við í dag hefur hreyfingin undir forystu Drífu Snædal forseta ASÍ verið með skíra sýn að gæta hagsmuna okkar félagsmanna og eru mörg þau úrræði sem eru til boða vegna baráttu hreyfingarinnar fyrir bættum lífskjörum. Betur má ef duga skal, það þarf alltaf að skoða stöðuna hugsa upp á nýtt sem leiða til nýrra áskoranna, nýrra leiða og lausna með jöfnuð og jafnrétti að leiðarljósi.

Varða rannsóknarstofa vinnumarkaðarins sem stofnað var  2020 af ASÍ og BSRB hefur það að markmiði að efla rannsóknir og auka fræðilega þekkingu á högum og lífsskilyrðum launafólks. Fyrsta stóra rannsóknarverkefnið var  könnun um stöðu launafólks á Íslandi. Markmið könnunarinnar var að veita upplýsingar um stöðu:

      1. Launafólks úr frá fjárhagsstöðu og heilsu.
      2. Atvinnulausra út frá fjárhagsstöðu, heilsu og atvinnuleit.
      3. Innflytjenda út frá fjárhagsstöðu, heilsu og stöðu á vinnumarkaði.
      4. Ungs fólks út frá fjárhagsstöðu, heilsu og stöðu á vinnumarkaði.

Sérstaklega var hægt að óska eftir niðurstöðum úr hverju félagi fyrir sig. Báran, stéttarfélag er stærsta einstaka stéttarfélagið á Suðurlandi með allt að 4.000 félagsmenn. Félagssvæðið er Árnessýsla utan Ölfuss.  Félagsmenn starfa innan margra mismunandi starfsgreina. Úrtakið var marktækt og niðurstöðurnar endurspegla því stöðu þessa hóps á Suðurlandi. Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að  hér á Suðurlandi er hærra hlutfall ungs fólks almennt en annarra félaga innan ASÍ og BSRB á öðrum landsvæðum. Hærra hlutfall er með menntun á grunnskólastigi og lægra hlutfall með menntun á framhaldsskólastigi. Svipað hlutfall með menntun á háskólastigi. Hlutfall innflytjenda er hærra og marktækur munur er á hjúskaparstöðu. Það er töluvert meira atvinnuleysi hjá félagsmönnum Bárunnar (20%) og hafa efnahagsþrengingar bitnað hart á þeim. Stór hluti eða 34,8% félagsmanna eiga frekar erfitt með að ná endum saman á meðan það eru 27,2% í öðrum félögum á öðrum svæðum. Almennt er fjárhagsstaða Bárukarla verri en almennt meðal annara aðildarfélaga, en staða kvenna jafnslæm. Hlutfallslega færra félagsfólk Bárunnar, býr í eigin húsnæði (56,2% á móti 72,3%). Andlegt heilsufar Bárukvenna er betra en karla og kemur fram að félagsmenn hafa neitað sér um heilbrigðisþjónustu. Það er samhengi á milli bágrar fjárhagsstöðu og andlegrar heilsu. Áhyggjur af afkomu valda kvíða, þunglyndi og vonleysi.

Þegar fasteignir seljast eins og heitar lummur á yfirverði og allt virðist í þokkalegum málum eru þetta sláandi niðurstöður. Svo virðist sem Suðurlandi skeri sig aðeins úr. Hvers vegna og hvað veldur þessum niðurstöðum á þessu svæði. Í ferðaþjónustu hefur starfað stór hópur félagsmanna og hlutfallið fór vaxandi með árunum og var orðið 40% fyrir covid.  Nú hefur orðið verulegur viðsnúningur í þeirra atvinnugrein sem flýtur meðan ekki sekkur. Byggingariðnaður hefur komið sterkt inn á móti en hann þurrkaðist nánast út í kreppunni 2008. Svæðið hefur í gegnum tíðan oftast verið í lægri kanti meðallauna, þar sem ákveðin láglaunastefna hefur verið rekin meðal ákveðinna fyrirtækja á svæðinu. Kauptaxtar eru lágmarkstrygging en ekkert lögmál. Þegar svo kemur að tekjutengdum atvinnuleysisbótum í nokkra mánuði og svo lágmarksbætur fer staðan að versna verulega hjá fólki. Umræðan sem hefur verið nokkuð hávær undanfarið um að laun séu allt of há eiga svo sannarlega ekki við hér á Suðurlandi né neins staðar annars staðar nema þeirra sem geta skammtað sér launin. Það eru einmitt þeir sem skammta sér launin sem hafa hæst. Það virðist vera eitthvað lögmál að hámarka hagnað fyrirtækja og laun mega ekki vera nema eitthvert ákveðið prósent af heildarveltu. Hver ákvað það, hvaða regla er það? Eru það þeir sem skammta sér launin sem búa til reglurnar um það?

Hvað er til ráða, það er áskorun að horfa til framtíðar og velta fyrir okkur hvaða áherslur við viljum sjá. Vinnumarkaðurinn breytist hratt og hefðbundin ráðningarsambönd eiga undir högg að sækja. Vinnuafl er flutt inn á lágmarkskjörum og oft við lélegan aðbúnað meðan atvinnuleysi á Íslandi eykst jafnt og þétt. Þessi tilhneiging til þess að taka lægsta tilboði í ákveðin verk án þess að meta heildaráhrif meðal annars á hag þeirra sem verkin vinna. Á meðan ríkið er að búa til 7000 ný störf vegna covid skera þeir niður störfin í hinn endann. Bjóða út verkin og segja upp fólki á félagssvæði Bárunnar og annars staðar. Endalaus krafa um  hagræðingu sem skilar sér í atvinnuleysi meðal traustra starfsmanna til margra ára á ríkisstofnunum.

Verulega þarf að bæta í endur og símenntun, þar sem hið formlega skólakerfi hefur ekki hentað öllum og tryggja til þess fjármagn. Ný störf eru að leysa önnur störf af hólmi, hvatning, aðgengi og aðstaða þarf að vera til staðar óháð búsetu.

Tryggja þarf öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum, þannig að hægt sé að lifa, leika sér og skapa svigrúm til mannsæmandi lífskjara.

Hver eru hin raunverulegu verðmæti?

Það þarf nýja hugsun, ný störf, sanngjarna skiptingu verðmæta sem tryggir fólki og heimilum örugga afkomu til framtíðar.

Þingmenn, framtíðarþingmenn þið hafið verk að vinna og skorum við á ykkur að bretta upp ermar og skapa réttlátt samfélag með jafnrétti og jöfnuð að leiðarljósi.

Það er nóg til handa öllum.

Halldóra Sigr. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags.

 

Nýjar fréttir