-2.8 C
Selfoss

Vöxtur Selfoss eða uppbygging Árborgar

Vinsælast

Það er eðlilega forsíðufrétt að nærri 9 þúsund aðilar sæki um 52 lóðir á Selfossi.  Í fréttinni segir að gert sé ráð fyrir að íbúum fjölgi um 7% á þessu ári og að áfram verði vöxtur.  Þúsundir nýrra íbúa munu flytja á Selfoss á næstunni. Nýr skóli verður opnaður í haust í Bjarkarlandi í bráðabirgðahúsnæði og uppbygging hefst á næsta ári á varanlegu húsnæði skólans.  Strax þarf að huga að næsta skóla á eftir, en hann þarf að vera tilbúinn eftir fjögur ár segir í sömu frétt.

Þéttbýlið á Selfossi hefur fjölda tækifæra til vaxtar og aukinnar velsældar á komandi misserum og því ber að fagna.

Sveitarfélagið Árborg samanstendur af þéttbýliskjörnunum Selfossi, Eyrarbakka og Stokkseyri.  Auk þess er aukin byggð og búseta í svokallaðri Búgarðabyggð í hinum gamla Sandvíkurhrepp sem í raun má telja sem fjórða þéttbýlið í Árborg.

Bæjarstjórn Árborgar hefur afgerandi áhrif á með hvað hætti búseta þróast innan sveitarfélagsins, auk atvinnutækifæra og almennt með þau lífsgæði sem íbúar njóta á þeim stað sem þeir kjósa að búa.

Eyrarbakki, Stokkseyri og Sandvíkurhreppur eru langt frá því að vera síðri búsetukostur en Selfoss og fyrir marga eru þessi staðir betri búsetukostur, en þéttbýlið á Selfossi.

Það er mjög margt sem forsvarsmenn sveitarfélagsins geta gert til að leggja áherslu á að Árborg er fjölbreyttur og ákjósanlegur búsetukostur.

Vinna forsvarsmanna Árborgar er varðar ljósleiðaratengingu á Eyrarbakka og Stokkseyri er mikilvægur þáttur og þegar að það hefur verið klárað mun það skapa tækifæri fyrir íbúa og atvinnurekendur á þeim stöðum.

Skólamál á Eyrarbakka og Stokkseyri eru óklárað verkefni.  Aðstaða yngra stigs sem er á Stokkseyri er til mikillar fyrirmyndar.  Skólahúsnæði eldra stigs sem er á Eyrarbakka er vart boðleg, hvorki fyrir nemendur, né starfsfólk.  Bygging skólahúsnæðis fyrir eldri nemendur er einfaldlega verkefni sem verður að setja á dagskrá og að klára fljótt og vel.

Sandvíkurhreppur hinn forni hefur að mörgu leiti horfið síðustu ár fyrir utan uppbyggingu í Búgarðabyggð.  Er kominn tími til að spyrja; Hvað getur sveitarfélagið gert til þess að gera búsetu á þessu svæði sem besta og sem eftirsóknarverðasta?

Framboð af lóðum t.d. á Eyrarbakka er í dag nánast ekkert.  Til stendur að lengja götu á Eyrarbakka og þannig fá fram nokkrar lóðir til úthlutunar, það er redding en ekki framtíðarsýn.

Atvinnuuppbygging er mikilvæg og ekki er það síður mikilvægt að störf verði til sem víðast í sveitarfélaginu.  Horft er á ríkið með störf án staðsetningar og þar eru mikilvæg tækifæri fyrir íbúa sveitarfélagsins.

Hver er stefna sveitarfélagsins Árbogar er varðar störf án staðsetningar fyrir sína eigin starfsmenn sem eru tæplega 1.000?  Getur sveitarfélagið sjálft rutt brautina, aukið frelsi og sveigjanleika og á sama tíma skapað ný tækifæri í Árborg.

Styrkur Árborgar mun ávallt liggja í því að hlúa að sveitarfélaginu öllu, þar sem sérkenni og mismunandi styrkleikar allra þéttbýliskjarna geta notið sín og hver staður stutt við annan íbúum öllum og samfélaginu til heilla.

 

 

Nýjar fréttir