0 C
Selfoss

Reisuferð á æskuslóðir með Halldóri Blöndal

Vinsælast

Það var tilhlökkun sem fylgdi því að halda í austurátt úr Reykjavík með Halldór Blöndal fyrrverandi ráðherra og forseta Alþingis sem ferðafélaga. Ferðinni var heitið á Selfoss, til að hitta kappana Guðmund og Sigfús Kristinssyni sem eru jafnaldrar byggðarinnar við Ölfusárbrú eins og sagt var lengi. Þessir bræður eru á aldur við Mjólkurbú Flóa­manna og Kaupfélag Árnes­inga, synir staðarsmiðs Sel­foss, Kristins Vigfússonar, sem var einkavinur Egils Thoraren­sen kaupfélagsstjóra sem sam­vinnu­menn trúðu að hefði tekið við sköpunarverkinu þar sem guð almáttugur hætti. Þessir öldnu bræður kunna sögu Selfoss betur en aðrir og muna hana alla. Enda skrifaði Guðmundur sögu Selfoss frá örófi til 1960 og hygg ég að það hefði ekki verið betur gert af nokkrum manni.
Sigfús hefur hlotið riddara­kross Fálkaorðunnar fyrir afrek sín í heimabyggð. Í áttatíu ár hefur hann haldið á hamri og enn vinnur hann afrek, um það ber merki nýr torfbær í hlaðinu á Árnesi, æskuheimili þeirra bræðra. En fjórða kynslóðin, Benedikt dóttursonur Sigfúsar og verkfræðinemi hefur tekið á með afa sínum og fylgt honum frá barnsaldri eins og sólargeisli. Halldór Blöndal naut þess að hafa í æsku verið vinnumaður í Litlu-Sandvík hjá Aldísi og Lýð Guðmundssyni, uppeldisbróður Páls Lýðssonar. Við Halldór gengum í torfbæinn og skoðuðum hann með Sigfúsi og komum að brunni staðarsmiðsins, föður hans, sem Sigfús hefur varðveitt. Aldís Sigfús­dóttir gaf okkur bleikju að borða og voru karlarnir kátir þegar þeir rifjuðu upp æskuárin í Litlu-Sandvík. Halldór þuldi öll nöfn á reiðingshrossunum og mjólkurkúnum. Þeir deildu nú um pólitík, Guðmundur og Halldór, þó allri umræðu lyki í bræðralagi.
Að lokum héldum við Halldór ásamt Sigfúsi að flóðgáttinni á Brúnastaðaflötum sem er eitt merkilegasta mannvirkið sem Kristinn staðarsmiður smíðaði á sinni tíð, og opnuð var 1927 þegar Hvítá var veitt á engjar Flóamanna. Páfinn í Róm ræddi ekkert um kristna trú við Guðbrand Jónsson föður Jóns dýralæknis þegar hann heimsótti páfann, heldur Flóa­áveituna. Og mannvirkið er annað mannvirkið sem sést frá tunglinu hitt er Kínamúrinn, sagði Þór sonur Hallærisfúsa, en það viðurnefni bar Vigfús faðir Þórs bílstjóri Dúfunnar því hann notaði aldrei stærra lýsingarorð kæmi eitthvað fyrir ,,en ansans hallæri.” Það var það eina sem hann sagði í Kömbum forðum þegar hann velti Dúfunni og faðir minn varð undir bílnum, fékk hann á bringuna og þótti kraftaverk að hann lifði af. Og Grímur á Syðri-Reykjum bjargaði honum með brennivínssopa að hann sagði, sem hann hellti ofan í Ágúst og hann tók að hósta. En flöskuna hafði Grímur keypt um morguninn á svörtum af kaupmanninum Agli Thorarensen, svona lágu kraftaverk Egils víða.
Að lokum fórum við að Brúna­stöðum í eldhús Þórunnar og þáðum veitingar. Þann dag var Jón Bjarnason rúningsmaður frá Skipholti að rýja fé, fjár­ræktarmannsins Ágústs Inga. Nú skipaði Ketill bóndi svo fyrir að Jón skildi settur á milli tveggja elda, mín og Halldórs. Þótt Jón sé af þeirri mögnuðu framsóknarætt frá Seglbúðum þá er hann sjálfstæðismaður. Jón hélt striki sínu og hallaðist til hægri og veitti Halldóri allan sinn stuðning. Nú fékk Halldór og Sigfús átta og hálfan dropa af gullnu víni hjá Katli bónda. Í hvert sinn sem Halldór rifjaði upp verk sín sem landbúnaðarráðherra sagði hann gjarnan ,,þegar við Sigurgeir,” gerðum þetta eða hitt. En Sigurgeir Þor­geirs­son hrúta­dómari var aðstoðar­maður hans, afburða­maður. Halldór upplýsti að hann hefði setið þingflokks-fundi í Sjálfstæðisflokknum eftir hverjar kosningar frá vorkosningum 1959 til dagsins í dag eða yfir 60 ár. Hann mundi marga þingskörunga þessa tímabils og minntist Ágústs á Brúnastöðum fyrir sterkan málróm og að hlátur hans heyrðist um þinghúsið. Þegar við Halldór stóðum upp frá borðum Þórunnar eftir snarpar umræður vorum við sammála um að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af þingmanni framtíðarinnar fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Suður­landi. Þegar út á hlaðið kom á Brúnastöðum og Halldór horfði á Hestfjall og Hvítá í klakaböndum, hnykkti hann til höfðinu og mælti fram eftir­farandi: ,,Fallegt þó mér þyki á Brúnastöðum, hvarflar alltaf hugurinn heim að Sandvík, Guðni minn.”
Guðni Ágústsson

Nýjar fréttir