6.1 C
Selfoss

Geysir og Kerlingarfjöll friðlýst gegn orkuvinnslu

Vinsælast

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag friðlýsingu Geysis og Kerlingarfjalla gegn orkuvinnslu í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun). Um er að ræða tvær friðlýsingar háhitasvæða í verndarflokki rammaáætlunar. Innan þeirra eru fimm orkukostir sem Alþingi ákvað árið 2013 að myndu fara í verndarflokk.

Tilgangur og markmið friðlýsinganna er að vernda háhitasvæði Geysis og Kerlingarfjalla gegn orkuvinnslu yfir 50MW í varmaafli og uppsettu rafafli yfir 10MW. Friðlýsing svæðanna nú nær ekki til annarra þátta en orkuvinnslu. Bæði svæðin voru þó friðlýst sl. sumar á grundvelli annara greina náttúruverndarlaga; Geysir í Haukadal sem náttúruvætti en Kerlingarfjöll sem landslagsverndarsvæði.

Í rökstuðningi verkefnisstjórnar rammaáætlunar fyrir flokkun Geysis í verndarflokk og friðlýsingu þess, kemur fram að á svæðinu séu heimsþekktar náttúruminjar og að svæðið sé mikilvægt ferðamannasvæði. Svæðið er eitt þekktasta goshverasvæði jarðar, einstakt á heimsvísu og einn mest sótti ferðamannastaðurinn á Íslandi.

Í rökstuðningi fyrir verndun háhitasvæðis Kerlingarfjalla í rammaáætlun kemur fram að á svæðinu sé sérstætt og verðmætt landslag og að þar séu lítt röskuð víðerni. Kerlingarfjöll eru fjallabálkur skammt suðvestur af Hofsjökli. Svæðið er að hluta óbyggt víðerni sem einkennist af stórbrotnu og litríku landslagi. Mikil líparítfjöll einkenna svæðið, meðal annars svonefndir líparítstapar, sem eru fágætir á heimsvísu. Í Kerlingarfjölum er allmikið háhitasvæði og skiptist það í þrjú meginsvæði; Hverabotn, Hveradali og Efri-Hveradali og þrífst sérstætt lífríki örvera í hverunum. Þá hefur í Hverabotni mælst hæsta skráða hitamæling í hver á Íslandi, á bilinu 145 til 150°C.

„Friðlýsing háhitasvæða Geysis og Kerlingarfjalla gegn orkuvinnslu er hluti af friðlýsingaátaki sem ég ýtti úr vör árið 2018. Friðlýsingarnar tvær eru mikilvægur áfangi í að vernda íslenska náttúru enda Geysir og Kerlingarfjöll meðal okkar helstu náttúruperla. Áður hafa Jökulsá á Fjöllum, Gjástykki og Brennisteinsfjöll verið friðlýst gegn orkuvinnslu en lög um rammaáætlun kveða á um að svo sé gert þegar Alþingi hefur ákveðið hvaða orkukostir fari í verndarflokk,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

 

Myndir:

(Kerlingarfjoll)

Nýjar fréttir