2.3 C
Selfoss

Bleiki fíllinn í herberginu

Vinsælast

Í ágúst árið 2005 gekk ég harkalega á vegg. Ég er ekki að tala um í orðsins fyllstu merkingu heldur gekk ég á vegg andlega. Ég hafði alla mína tíð verið snillingur í að greina hvernig fólki í kringum mig leið og tiplaði því á tánum í kringum þá sem ég umgekkst til að  reyna  að halda friðinn. Ég vissi alltaf hvernig aðrir í kringum mig höfðu það. Hvað það þurfti á að halda, hvað það vildi og svo mætti áfram  telja. Í dag er þetta skilgreint sem meðvirkni.

Í eftirfarandi texta sem finna má á  heimasíðu Lausnarinnar, fjölskyldumiðstöðvar segir:

Meðvirkni er sjúkleiki sem tærir upp sál okkar. Hann hefur áhrif á allt okkar líf, fjölskyldur okkar, börn, vini, skyldmenni; fyrirtæki okkar og frama; heilsu og andlegan þroska.  Hann er hamlandi og ómeðhöndlaður hefur hann eyðileggjandi áhrif á okkur sjálf og aðra enn frekar. Mörg okkar enda í þeirri aðstöðu að þurfa að leita til annarra eftir hjálp.

Ég var komin á þann stað að ég þurfti að leita eftir hjálp. Ég man þennan dag eins og hann hafi gerst í gær. Ég vaknaði upp um miðja nótt af vondum draumi.  Hjartað sló ört og ég vissi að það var eitthvað að. Ég vissi samt ekki af hverju mér liði svona. Ég vissi bara að það var í gangi ólga innra með mér sem gerði það að verkum að mér leið mjög illa.

Það sem ég vissi ekki þá en veit í dag að ég var meðvirk. Það að vera meðvirkur er hægt að skilgreina á einfaldan hátt. Það þýðir það að vera virkari fyrir aðra en sjálfan sig. Meðvirkt fólk verður til í óvirkum fjölskyldum. Einstaklingur sem er meðvirkur er því meðvirkur með öðru fólki, jafnvel innan fjölskyldunnar en óvirkt fyrir sjálfan sig. Þetta er orð er oft misskilið og því mikilvægt að greina á milli þess að vera meðvirkur eða gefandi og kærleiksríkur.

Þessa ágústnótt vissi ég að ég varð að takast á við meðvirknina í lífi mínu áður en þetta  endaði illa. Það var ástæða fyrir því að ég elskaði að horfa á teiknimyndirnar Mighty mouse þegar ég var barn. Uppáhalds setning þessarar músar var “Here I come to safe the day”. Ég var alltaf að reyna að bjarga. Ég hafði verið í því hlutverki frá þvi að ég var barn og kunni ekkert annað. Það kemur hinsvegar alltaf að því að þú getur ekki endalaust gefið. Þú verður að kunna að þiggja líka og þennan dag vissi ég að ég þyrfti hjálp.  Ég varð að leggja ofurkonu búninginn minn til hliðar og vera bara ég.

Meðvirkni byrjar sem eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum og hún þróast yfirleitt alltaf við langvarandi erfiðar aðstæður. Því má álykta sem svo að uppruna meðvirkni sé ávallt hægt að finna í æsku. Þannig var það í mínu tilfelli og þannig er það kannski í þínu?

Meðvirkni kemur fram með ólíkum hætti en hér eru nokkur algeng einkenni.

  • Neikvæð stjórnun
  • Gremja/reiði
  • Erfiðleikar með að mynda traust.
  • Skapgerðarbrestir
  • Fíkn
  • Líkamleg einkenni
  • Efiðleikar með nánd

Ég upplifði sum þessara einkenna en þau voru svo “venjuleg” fyrir mig að ég gerði mér ekki grein fyrir því að þau væru vandamál. Í dag horfi ég ekki á þennan dag sem versta dag lífs míns heldur dag sem markaði nýtt upphaf og vegferð mína í átt að andlegu og líkamlegu heilbrigði. Á þeim 15 árum sem liðin eru hef horfst í augu við ótta, lært að fyrirgefa, tekist á við kvíða, fundið gleðina, upplifað meira þakklæti, lært að lifa í núinu og orðið hamingjusamari en nokkru sinni fyrr.

Þetta hefur ekki alltaf verið auðveld vegferð en hún hefur gert mig sterkari og hugarakkari. Á þessum 15 árum hef ég fengið að vinna með fjölda fólks sem var á sama stað og ég. Hjarta mitt fagnar og gleðst í hvert skipti sem þessir einstaklingar hafa lagt grímurnar til hliðar, farið úr ofurhetju búningnum og fundið sjálfan sig.

Hvað er þá til ráða ?

  • Taka ábyrð á eigin lífi
  • Taka ábyrgð á eigin viðhorfum
  • Taka ábyrgð á eigin líðan.
  • Finna leiðir til að tala um tilfinningar sínar
  • Læra að þekkja þær og ná stjórn á þeim.
  • Taka nýjar áhættur í félagslegu samhengi

Þetta getur þú gert fyrst og fremst með því að horfast í augu við það að það er bleikur fíll í stofunni sem er kallaður meðvirkni. Því næst er gott að leita þér aðstoðar hjá fagaðila og/eða sjálfshjálparhópum sem vinna með meðvirkni.

 

Gangi þér mikið vel

Kærleikskveðja,

Gunna Stella.

Heimasíða: www.gunnastella.is

Hlaðvarp: Einfaldara líf

 

Nýjar fréttir