4.4 C
Selfoss

1. febrúar – Dagur kvenfélagskonunnar

Vinsælast

Árlega halda kvenfélagskonur um land allt hátíðlegan 1. febrúar og kveðjur til þeirra heyrast á öldum ljósvakans frá mörgum sveitarfélögunum, sem þakka þeim velunnin störf. Hvers vegna þessi dagur, spyrja margir. Því er til að svara, að þennan dag árið 1930 var Kvenfélagasamband Íslands stofnað til að verða samstarfsvettvangur allra kvenfélaga á Íslandi. Þau voru þá þegar orðin fjölmörg en fyrsta kvenfélagið, Kvenfélag Rípurhrepps, var stofnað árið 1869. Sunnlenskar konur voru engir eftirbátar og stofnuðu kvenfélag á Eyrarbakka árið 1888 og síðan áfram eitt af öðru. Kvenfélagskonurnar stofnuðu  síðan Samband sunnlenskra kvenna árið 1928 og innan þess starfa nú 25 kvenfélög í Árnes- og Rangárvallasýslu með rúmlega 900 félagskonur.

Kvenfélagasamband Íslands er sameiningar og samstarfsvettvangur allra kvenfélaga á landinu. Innan þess eru 17 héraðsambönd með um 4000 félaga. Það gefur út tímaritið Húsfreyjuna og rekur einnig Leiðbeiningarstöð heimilanna, sem veitir fría ráðgjöf og upplýsingaöflun að öllu er varðar heimilisrekstur.

Kvenfélögin á Íslandi hafa alltaf látið sig varða ýmis málefni bæði í sínum nærsamfélögum og á landsvísu. Samkvæmt ársskýrslum ársins 2019 námu gjafir allra kvenfélaga á Íslandi rúmum 62 milljónum króna sem runnu til líknar-, menningar-, mennta- og umhverfismála.

Þann 1. febrúar á síðasta ári fagnaði Kvenfélagasamband Íslands 90 ára afmæli sínu með því að ýta formlega úr vör landssöfnun undir heitinu „Gjöf til allra kvenna á Íslandi‟. Þessi söfnun hefur staðið yfir síðan þá. Áætlað er að henni ljúki formlega núna 1. febrúar en hægt verður að leggja framlög inn á söfnunarreikninginn til 15. febrúar. Því miður hefur Covid-19 sett stórt strik í söfnunina en upphafsáætlunin var að ná 36 milljónum en þegar þetta er skrifað hafa safnast um 66% þeirrar fjárhæðar. Oft er þörf en nú er nauðsyn á að allir landsmenn standi saman.

Söfnunarreikningurinn er 513-26-200000  kt: 710169-6759 

Heimasíða söfnunarinnar er: www.gjoftilallrakvenna.is

Kvenfélögin innan SSK hafa öll verið dugleg að leggja framlög inn á söfnunarreikninginn þegar haft er í huga að fjáröflunarmöguleikar þeirra voru mjög takmarkaðir á nýliðnu ári. Þó tókst Kvenfélagi Biskupstungna að efna til samkomu í Aratungu þann 1. febrúar á Degi kvenfélagskonunnar, sem nefnd var „Gyllum tilveruna‟. Þangað mættu kvenfélagskonur úr báðum sýslum en ákveðið var að allur ágóði hennar rynni til söfnunarinnar. Jafnframt hafa mörg félögin verið dugleg að bjóða til kaups söluvörur söfnunarinnar, armbönd og súkkulaði. Þessar vörur eru enn til sölu og er hægt að nálgast þær enn hjá nokkrum kvenfélögunum og á skrifstofu K.Í.

Söfnunin „Gjöf til allra kvenna á Íslandi‟ snýst um tæki og tækni sem nefnast Milou og Astria. Þau tengjast fósturritum og ómskoðunartækjum sem notuð eru við mæðravernd, fæðingar og skoðanir á kvenlíffærum. Möguleiki þessarar tækni kemur sér afar vel fyrir heilbrigðsstofnanir á landsbyggðinni sem sinna þessari þjónustu við konur. Þetta snýst um rafræna vistun á gögnum og möguleika á rafrænni tengingu við sérfræðinga á Kvennadeild LSH þegar einhver vafaatriði koma upp. Það er hreint ótrúlegt að árið 2021 geta heilsustofnanir landsins hvorki vistað né sent rafræn gögn á milli staða þegar kemur að heilsuöryggi kvenna. Afar brýn þörf er fyrir þessi tæki og tækni á öllu Íslandi, líka hér á Suðurlandi.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands er og hefur alltaf verið óskabarn SSK. Framlög til tækjakaupa þangað hafa verið tekin úr Sjúkrahússjóði SSK, sem stofnaður var árið 1952. Undanfarin ár hefur fjármögnunarleiðin verið sala kvenfélaganna á kærleiksenglum og jólakortum. Sú sala varð frekar dræm fyrir síðustu jól. Í haust kom beiðni frá HSU um kaup á súrefnismettunarmælum vegna Covid-19. Ánægjulegt var að geta reitt af hendi 1,5 milljón króna úr sjóðnum til þess verkefnis. Kvenfélagskonur á sambandssvæðinu hafa einnig frá árinu 2010 prjónað og heklað gjafir fyrir nýbura á Suðurlandi. Ljósmæður á HSU hafa séð um dreifingu þeirra. Það eru því vonandi margir litlir Sunnlendingar sem hafa fundið yl af lítilli húfu, vettlingum, sokkum o.fl. sem unnið hefur verið af kærleiksríkum kvenfélagshöndum.

Konur eru hvattar til að kynna sér störf kvenfélaganna í sínu byggðalagi og leggja þeim lið. Kvenfélagskonur eru á öllum aldri og þær vita að sjálfboðin störf þeirra eru mjög mikilvæg samfélaginu á hverjum stað. Þær finna ætíð fyrir gleði og hamingju þegar þeim hefur tekist að safna nægum fjármunum til að geta gefið þangað sem þörfin er brýnust hverju sinni. Góð kvenfélagskona, gulli betri!

Elinborg Sigurðardóttir

formaður SSK

 

Nýjar fréttir