0.6 C
Selfoss

Tannhjól

Vinsælast

Hannes Lárusson.

Að baki sérhverjum gerningi, góðverkum jafnt sem hryðjuverkum, er að finna einstaklinga sem bera nöfn og hafa þekkjanleg andlit.
Í þessum orðum er tekin saman í hnotskurn meginhugsunin í einu helsta heimspekiriti síðustu aldar. Í þessu verki er reynt að varpa ljósi á hverning kaldhömruð hugmyndafræði getur komið grandalausum einstaklingum á yfirsnúning og hvernig þeir í oflæti samtakamáttarins breytast í sviplaus og búraleg tannhjól í myrku kerfi.

Páll, Hákon og Haukur; Alviðrumálið

Geirfinnsmálið kom upp árið 1974 og kraumaði í íslensku samfélagi áratugum saman. Á sama tíma kom upp annað stórt mál sem rataði líka á síður dagblaðanna og velktist lengi í dómskerfinu. Hér er um að ræða hið svokallaða Alviðrumál.
Upphaf þessa máls er það að Páll Hallgrímsson sýslumaður á Suðurlandi fór skyndilega í byrjun áttunda áratugarins að venja komur sínar að Alviðru í Ölfushreppi og heimsækja þar rúmlega áttræðan einsetumann, Magnús Jóhannesson að nafni. Páll hafði fram að því varla þekkt þennan mann í sjón og enn síður talið ástæðu til að yrða á að fyrra bragði. Þegar þarna var komið sögu var eignkona Magnúsar látin fyrir nokkru. Þeim varð ekki barna auðið og Magnús sat nú einn á mörg hundruð hektara jörð og átti auk þess um hundrað og fímmtíu hektara hinumegin við ánna í landi Öndverðarness 2 í Grímsneshreppi. Smám saman fer Páll að ýja að því hvort Magnús vilji ekki láta eitthvað af þessu landi af hendi og íhuga alvarlega að gefa Árnessýslu þessar jarðir.
Loks birtist svo Páll með drög að gjafabréf sem hann hafði skrifað, en nú var komið nýtt útspil því þegar til kom átti Magnús gamli ekki bara að láta allar sínar eignir af hendi til sýslunnar undir formerkjum gjafabréfs heldur hafði Páll nú bætt inn í nýstofnuðum samtökum að nafni Landvernd sem gjafþega og með í púkkinu fylgdi öflugur bandamaður og vinur Páls, Hákon Guðmundsson fyrrverandi yfirborgardómari sem þá hafði tekið við formennnsku í þessum samtökum. Magnús hafði aldrei heyrt á Hákon minnst né þennan félgskap og vildi alls ekki að þau kæmu nálægt umsýslu eigna sinna. Ekki spöruðu þeir Páll og Hákon fagurgala og góð fyrirheit og þóttust ætla að standa við öll ákvæði sem skrifuð höfðu verið í gjafabréfið og ýmsa munnlega samninga og heiðursmannasamkomulög að auki. Meginákvæði þessa gjafabréfs og samninga var að gjafþegar myndu tryggja viðhald húseigna að Alviðru og halda áfram myndarlegum búrekstri á jörðinni. Ekki þótti Magnúsi að skrifstofumennirnir tveir væru líklegir til að geta staðið við nein loforð sem búskaparkúnstir eða viðhald húsa varðaði. Juku þeir kumpánar þá enn þrýsting á Magnús svo hann léti eignir sínar af hendi án verulegra tafa og kynntu nú til leiks fyrirmyndar bónda og varaþingmann að norðan, Hauk Hafstað, sem Hákon réð nú sem framkvæmdarstjóra Landverndar. Að sögn þeirra væri Haukur mikill búhöldur og undir hans stjórn myndi Alviðrujörð og húsakostur stórlega batna. Nú fór Magnús smám saman að trúa yfirborgardómaranum, sýslumanninum og stórbóndanum sem virtust ekki ætla að láta af heimsóknum og skoðurnarferðurm fyrr en hann léti af hendi í þeirra umsjá allar sínar eignir.
Í byrjun árs 1973 kemur svo í blöðum frétt þess efnis að Magnús bóndi í Alviðru hafi gefið Árnessýslu og Landvernd jarðirnar Alviðru í Ölfushreppi og Öndverðarnes 2 í Grímsneshreppi og var þessari gjöf lýst sem einni stærstu gjöf frá því land byggðist. Á myndum í blöðum sáust þeir Hákon og Páll brattir með gamla manninn á milli sín sem hafði afhent þeim til umráða mörg hundruð hektara af landi á einum verðmætasta stað landsins.
Í samræmi við samkomulagið við Magnús og ákvæði gjafabréfsins fluttu fljótlega ung hjón að Alviðru og hófu þar búrekstur. En nú fer gamanið að kárna. Í ljós kemur að þremenningarnir ætluðu sér aldrei að standa við ákvæði gjafabréfsins nema eftir eigin geðþótta og öll handsöluð heiðursmannasamkomulög yrðu að engu höfð. Fagurgali og smjaður breyttist nú í yfirlæti og dónaskap í garð gamla mannsins, og varla höfðu ungu hjónin komið sér fyrir á jörðinni fyrr en þremenningarnir byrja að ganga í skrokk á þeim og undirstrika að ekki yrði staðið við neina samninga.
Þegar líða fer á árið 1976 fara þeir Hákon, Haukur og Páll að herða aðgerðir gegn ungu hjónunum sem þá voru komin með tvö ung börn og krefjast þess að þau verði borin út af jörðinni. Páll Hallgrímsson sem var fulltrúi eigenda fór nú fram á það við sýslumanninn á Suðurlandi að hann hlutaðist til um að reka unga fólkið af jörðinni með lögregluvaldi. Nokkrum dögum seinna mætti svo Páll sýslumaður sjálfur til að fygja eftir þessari kröfu sem hann hafði sjálfur sent sjálfum sér. Eftir töluvert stapp féllst Páll þó á að sá Páll sem sat í hinni svokölluðu Alviðrunefnd sem fulltrúi hinna nýju eigenda og gjafþega væri að öllum líkindum sami maður og sá sem um þessar mundir gegndi embætti sem sýslumaður Suðulands. Í framhaldi af því féllust hinir nýju eigendur á að skipaður yrði utanaðkomandi setudómari í þessu útburðarmáli.
Ekkert hik varð þó á aðgerðum þeirra félaga og gekk á með hótunum og létu þeir svo verkin tala; fyrst hlutuðust þeir til um að allur vélakostur þeirra hjóna til búrekstursins yrði af þeim tekin, nokkru síðar var aftur komið á svæðið og bústofninn tekinn og hestarnir settir í fangelsi inn á Selfossi. Þá var húsið sjálft dæmt óíbúðarhæft á þeim grundvelli að rotþró væri stífluð og í húsinu hefðu „húðkrabbar og kakkalakkar“ tekið sér bólfestu. Með harðfylgi tókst þeim Hauki, Hákoni og Páli að flæma ábúendurna burt með tvo ung börn sín. Þegar þarna var komið sögu var endanlega ljóst að ekki stæði til að standa við eitt né neitt í samkomulagi um meðferð þessara miklu eigna sem rýrnuðu nú hratt ár frá ári.
Í byrjun árs 1977 fær Magnús upp í kok á þessu háttalagi og óheilindum og vill nú rifta gjafabréfinu frá 1973. Sérstaklega er Magnúsi illa við aðild og framgöngu fulltrúa Landverndar í þessu máli. Enn einu sinni reynir Magnús í bestu trú að komast að samkomulagi við þá Pál, Hauk og Hákon þess efnis að aðild Landverndar að gjöfinni verði felld niður og nýtt gjafabréf verði útbúið. Gert var um þetta enn eitt heiðursmannasamkomulagið milli þessara fjögurra aðila; sem samkvæmt vinnureglu var nær samstundis svikið. Í framhaldi af þessu höfðaði Magnús dómsmál gegn gjafþegunum til að freista þess að ógilda gjafabréfið vegna vanefnda.
Eins og við var að búast féll dómur yfiborgardómaranum, stórbóndanum og sýslumanninum í vil árið eftir. Málinu er nú skotið til hæstaréttar og Magnús þá kominn hátt í nírætt og því ljóst að málið myndi leysast af sjálfu sér þegar hann yrði allur. Það gekk eftir og Sýslunefnd Árnessýslu og Landvernd héldu feng sínum og var málinu endanlega vísað frá hæstarétti 1982. Nokkru fyrr hafði Magnús hljóðlega kvatt þennan heim og uppskar ekki einu sinni stutta minningargrein þrátt fyrir þessa miklu gjöf sem hann hafði verið knúinn til að láta af hendi.
Það er skemmst frá því að segja að enn þann dag í dag hafa litlar efndir verið á gjafbréfi því sem Páll lagði grunninn að, né að nokkur fulltrúi gjafþega teli sig bundinn af því sem þeir túlka sem marklausa skriflega eða munnlega samninga. Húsakostur Alviðru hefur frá því Landvernd og Árnessýsla tók við „gjöfinni“ verið í algjörri niðurníðslu; ræktarlönd öll í órækt, girðingar í lamasessi, ruslatunnur á hliðinni, póstkassi brotinn af staur, ryðgað útigrill, matarleifar og brunnin kol á víð og dreif á hlaðinu, njólabreiður og illgresi undir veggjum á mannlausu húsi sem er óíbúðarhæft nema fyrir húsamýs, húðkrabba og kakkalakka. – Ólíkt Geirfinnsmálinu má því segja að Alviðrumálið sé óleyst enn þann dag í dag.

Snorri, Tryggvi, Auður og Árni; Laxabakkamálið

Lönd þau sem Magnús lét af hendi eins og að ofan greinir náðu þó ekki yfir þrjár litlar lóðir í landi Öndverðarnes II sem þegar hafði verið ráðstafað. Eins hektara lóð úr landi Öndverðarness II var girt af 1942 eftir að Ósvaldur Knúdsen hafði handsalað samning um eignarhald við tengdaföður Magnúsar, Árna í Alviðru.
Á þessu litla landi byggði Ósvaldur ásamt vini sínum Nikulási Halldórsssyni trésmið hús sem hann kallaði Laxabakka. Hönnun og útfærsla náði jafnt til allra innanstokksmuna sem aðlögunar að landinu. Smám saman kom í ljós að hér var um að ræða eitt merkasta mannvirki landsins frá fyrri hluta síðustu aldar, stundum réttilega kallað fallegasta hús á Íslandi. Það kom því engum sem til þekkja á óvart að vorið 2020 skyldi Laxabakki verða friðlýstur af Menntamálaráðherra.
Laxabakki var í mikilli notkun og naut alla tíð mikillar umhyggju Ósvaldar og afkomenda hans þar sem húsið kúrði við Sogið. Árið 2004 verða eigendaskipti og Laxabakki kemst í eigu Lögheimtunnar ehf. Forsvarmenn þessa fyrirtækis vilja fljótlega nýta eign sína með eðlilegum hætti, en þá er komið annað hljóð í strokkinn. Minnugir aðferðafræðinnar og hvernig tókst að þvinga mörg hunduð hektara út úr gömlum manni, átti nú að leika sama leikinn gagnvart nýjum eigendum. Fulltrúar Landverndar, Héraðsnefndarinnar og Skógræktar ríkisins vildu nú ná til sín einum hektara í viðbót með góðu eða illu. Ekki fór mikið fyrir skilningi á þeim verðmætum sem í mannvirkjunum að Laxabakka fólust, enda menningararfur, byggingarlist og listsköpun lítið á dagskrá Alviðrunefndar.
Fremstur í flokki fór Snorri Baldursson sem þá var formaður Landverndar og hafði fljótlega í hótunum við nýja eigendur og fór fram á að „þessi umhverfisspjöll (sem húsin væru) yrðu fjarlægð tafarlaust“, og ef ekkert yrði aðhafst myndi Alviðrunefnd ganga í málið og senda svo reikninginn til eigenda, -og fara síðan fram á að þeir afhentu þeim landið. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri bar fyrir sig hlutleysi í málinu: „Mér er slétt sama hvort þessi kofakskrifli eru ofan jarðar eða neðan“. Þriðji maðurinn í Alviðunefndinni, Árni Eiríksson, oddviti og héraðs- og skiplagsnefndarmaður brást við hugmyndum um að eigendur Laxabakka hefðu aðgang að rafmagni, vatni og klósettaðstöðu með því að hafna öllu slíku en sagði fyrir hönd skipulagsnefndar: „Getiði ekki tekið með ykkur vatn á flöskum og hlandkoppana?“
Árin líða uns fallegasta hús á Íslandi vegur orðið salt á grafarbakkanum. Þá er boðað til fundar með útvöldum sérfræðingum um málið í því skyni að koma húsinu til bjargar. Á þessum fundi hóf þáverandi eigandi Laxabakka upp lestur bréfs sem málið varðaði frá fyrrverandi formanni Landverndar og þáverandi formanni Alviðrunefndar. Í miðjum lestri hrifsar Snorri Baldursson bréfið, sem var undiritað af honum sjálfum, úr hendi lögmannsins, lítur hratt yfir það og hendir því síðan aftur í hann með orðunum: „Þetta er falsað!“ Lögmaðurinn, eigandi Laxabakka, safnaði þá saman skjölum sínum í rólegheitum, stóð upp og yfirgaf fundinn; snéri sér við í dyrunum og beindi orðum sínum til okkar sem á fundinum voru: „Nú vitiði við hvers konar fólk við er að eiga.“
Íslenski bærinn ehf varð eigandi að þessum merka stað 2018 en innan vébanda þeirrar stofnunar er þekking, atgervi og tengslanet til að bjarga, endurbyggja og reka þá þjóðargersemi sem í Laxabakka felst. Virðingarleysi gagnvart þessum verðmætum og eign var nú orðin enn forhertari en áður. Á þessum árum höfðu skjólstæðingar Landverndar látið greipar sópa um verðmæti í húsunum.
Einar Bergmundur Arnbjörnsson, fyrrverandi stjórnarmaður Landverndar steig fram og viðurkenndi að hafa í heimildarleysi farið inn á einkalóð, brotist þar inn í hús, unnið skemmdarverk og staðið fyrir listaverkaþjófnaði. Þetta var gert með vitund og mögulega að frumkvæði hinnar svokölluðu Alviðrunefndar sem sá síðan um vörslu þýfisins. Á þeim árum sátu í nefndinni þeir Snorri Baldursson, Árni Eiríksson og Þröstur Eysteinsson. Síðar tók Tryggvi Felixsson sæti Snorra og Smári Kolbeinsson sæti Árna, virtist brotaviljinn við það verða enn sterkari. Þegar innbrotið og skemmdarverkin voru kærð komst Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Selfossi að þeirri niðurstöðu, án rannsóknar, að um björgunaraðgerð hefði verið að ræða. Oddur vísaði málinu frá og taldi að þýddi lítið að beina kærum vegna innbrots og listaverkaþjófnaðar til lögreglunnar á Selfossi, slíkt heyrði frekar undir ríkissaksóknara, þar sem málið er nú raunar statt.
Héraðsnefndar- og hreppsnefndarfólk í Grímsneshreppi með Aldísi Hafsteinsdóttur formann Sambands íslenskra sveitarfélaga með í för, gumaði af því að hafa farið óboðið í skoðunarferð að Laxabakka, vaðið þar í heimildarleysi inn á einkalóð, klöngrast inn í mannlaust hús, rupplað í munum og þóst síðan gefa út upplýstar yfirlýsingar um meint verðmæti í þessa einstaka mannvirki. Flestum í þessu föruneyti þótti lítið til koma en ágirnast þó þessa litlu lóð og hafa margir heitið því að standa gegn allri eðlilegri uppbygginu á svæðinu. Hér eru hæg heimatökin því héraðsnefndin sem gengst upp í því að hafa fengið nærliggjandi land, Önverðarnes II, að réttmætri gjöf, skipar jafnframt alla fulltrúa í Skipulagsnefnd uppsveita. Skipulagsnefndin leggst gegn öllum framkvæmdum á svæðinu á meðan Alviðrunefndin ágirnist þessa eign. Vigfús Þór Hróbjartsson, skipulagsfulltrúi, segist þó bera fullt traust til þessarar nefndar og ekki koma auga á neitt vanhæfi í þessu sambandi.
Aðferðafræði, meint kænskubrögð og sjálfbirgingslegur yfirgangur brautryðjendanna og lærifeðranna í Landvernd, þeirra Hákons Guðmundssonar og Hauks Hafstað, fékk heldur betur endurnýjaðan hljómgrunn þegar mannaskipti urðu í þeim félagsskap og þeir Snorri Baldursson og Guðmundur Guðbrandsson hurfu til annarra starfa. Nú voru mætt til leiks þau Tryggvi Felixson í hlutverk Hákons og Auður Magnúsdóttir sem ígildi Hauks. Þau vildu umsvifalaust leysa hið svokallaða Laxabakkamál sem staðið hafði með hléum í 15 ár.
Nú lögðu þau Tryggvi og Auður til að lausn málsins myndi felast í því að Íslenski bærinn ehf afsalaði sér öllum eignarheimildum á Laxabakka til Landverndar og Héraðsnefndarinnar, en Alviðunefndin myndi síðan leigja Íslenska bænum eignina fyrir nokkur hundruð þúsund á ári. Auk leigunnar kæmi það þó áfram í hlut Íslenska bæjarins að greiða fasteignagjöld og önnur gjöld af hinni afsöluðu eign. Tryggvi og Auður sendu síðan skjal til undirritunar sem lýsti þessum málatilbúnaði, dæmalausa hrákasmíð. Til þess að fá upplýsingar um frekari útfærslu þessarar hugmyndar átti fulltrúi Íslenska bæjarins langt samtal við Smára Kolbeinsson, hreppsnefndarmann í Grímsneshreppi, sem einnig er fulltrúi Héraðsnefndar í hinni alræmdu Alviðrunefnd ásamt Tryggva Felixsyni eftir að þeir Snorri og Árni hurfu þaðan af braut. Smári upplýsti að í hugmyndinni fælist að Íslenski bærinn myndi útbúa gjafabréf þar sem eignin Laxabakki ásamt tilheyrandi lóð yrði færð Landvernd og Héraðsnefndinni að gjöf. Íslenski bærinn myndi sjá um að þinglýsa þessu skjali á eigin kostnað, jafnframt yrði Íslenska bænum að engu bættur útlagður kostnaður vegna björgunaraðgerða, né upphaflegt kaupverð eignarinnar. Smári sagðist hins vegar vera talsmaður þess að Íslenski bærinn myndi síðan geta leigt þessa lóð á hóflegu verði af Alviðrunefndinni. Eitt skilyrði væri þó fyrir hendi; að nýting lóðarinnar, aðferðafræði og útfærslur uppbyggingar á þessum friðlýstu húsum yrði að bera undir þau Tryggva í Alviðrunefdinni og Auði Magnúsdóttir framkvæmdastjóra Landverndar.
Tilkynnt var formlega um friðlýsingu Laxabakka ásamt tilheyrandi eins hektara lóð, enda mannvirkið og lóðin hluti af órofa heild, þann 4. júní, 2020. Þetta þótti mörgum stór áfangi í baráttuni fyrir björgun einstakra verðmæta. Nágrannar Laxabakka, meintir eigendur aðliggjandi lóðar, Landvernd og Héraðsnefnd Árnesinga, brugðust hins vegar við þessum tíðindum með litlum fögnuði. Í sömu vikunni og þessi tilkynning barst í byrjun júní hafði Tryggvi Felixson samband við lögfræðistofuna Lögmál í Reykjavík og talaði síðan Héraðsnefndina inn í það að höfða mál gegn Sýslumanninum á Suðurlandi í því skyni að fá þinglýst skjöl sem staðfesta eignarhald Íslenska bæjarins á Laxabakka dæmd ógild. Málið kraumaði í bakherbergjum embættismanna mánuðum saman og fulltrúar Íslenska bæjarins fengu ekki að vita af þessum málatilbúnaði fyrr en föstudeginum áður en málið var þingfest í Héraðsdómi Suðurlands mánudaginn 14. desember, 2020. Málið verður síðan dómtekið 12. janúar, 2020 og er dóms að vænta í lok janúar.
Sem viðbragð við þessum málatilbúnaði lýsti Árni Eiríksson oddviti því yfir við fulltrúa Íslenska bæjarins að Héraðsnefnd Árnesinga myndi hlýta þessum dómi. Ef dómur félli þannig að lögmæti skjalanna yrði staðfest, og þá um leið óumdeilt eignarhald Íslenska bæjarins á Laxabakka ásamt tilheyrandi lóð, féllist Héraðsnefndin á þann úrskurð án frekari málareksturs. Í kjölfar þess myndi umsátrinu um Laxabakka ljúka. Skipulagsnefndin myndi falla frá tillögum um að eigendur skuli fjarlægja asbest án tilskilinna leyfa eða nauðsynlegur vélbúnaðar verði hafður um hönd, hlandkoppum og vatnsflöskum yrði skipt út fyrir salerni, rotþró og rennandi vatn; fagmenn Minjastofnunar og Íslenska bæjarins fengju vinnufrið til að bjarga, byggja upp og reka friðlýsta eign, almenningi til ánægju og afnota.

Hannes Lárusson

 

Að baki sérhverjum gerningi, góðverkum jafnt sem hryðjuverkum,
er að finna einstaklinga sem bera nöfn og hafa þekkjanleg andlit.

Nýjar fréttir