9.5 C
Selfoss

Kortlagning smávirkjanakosta á Suðurlandi

Vinsælast

Í framhaldi af kortlagningu Vatnaskila á smávirkjanakostum á Vesturlandi, Vestfjörðum og Austurlandi hefur Orkustofnun látið gera samskonar greiningu á smávirkjanakostum á Suðurlandi. Skipting í landshluta er eins og sýnt er á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Eins og áður er leitað kosta með afl á bilinu 100 kWe – 10 MWe ásamt því að metnir eru möguleikar á dægurmiðlun við inntak og óvissa í afli þeirra virkjunarkosta sem finnast er metin gróflega. Smávirkjanakostir innan vatnasviða þar sem þegar eru virkjanir eða rannsóknir í gangi vegna virkjanahugmynda eru ekki metnir í þessu ferli.  Yfirlit yfir sveitarfélögin á Suðurlandi sem tekin eru til kortlagningar er sýnt á mynd 1 í skýrslunni.

Kortlagðir hafa verið 444 virkjanakostir í sveitarfélögum á Suðurlandi með heildarafl 648 MWe. Mögulegur fjöldi virkjanakosta og þ.a.l. heildarafl er þó lægra, þar sem nokkur fjöldi kosta sem dregnir hafa verið fram hafa áhrif á aðra virkjunarkosti í sama vatnsfalli. Val á milli kosta innan sama vatnasviðs og jafnvel bestun m.t.t. virkjana innan ákveðinna vatnasviða er verkefni sem mætti hugsa sér en forsendur verkefnisins nú gerðu ekki ráð fyrir slíku mati.

Einnig er ljóst að kostir sem dregnir hafa verið fram geta líka verið erfiðir í framkvæmd eða verið ógerlegir af öðrum ástæðum. Teknir hafa verið út kostir sem lenda með inntak eða úttak innan friðlýstra svæða. Þó nokkrir kostir hafa engu að síður vatnasvið sem falla innan friðlýstra svæða og svo eru örfáir kostir þar sem lón sem duga eiga til dægurmiðlunar lenda innan friðlýstra svæða. Ekki hafa heldur verið teknir út kostir þar sem unnið er að friðlýsingu. Því ber að hafa í huga að greiningin nú er byggð á ákveðnum forsendum og mögulegt að inni í greiningunni séu kostir sem munu sjálfkrafa falla út vegna friðlýsinga sem unnið er að.

Hafa ber í huga að tölum um orkugetu þarf að taka með fyrirvara, um algjöra frumathugun er að ræða sem hefur það að leiðarljósi að draga fram sem flesta kosti sem vert væri að kanna nánar.

Kortlagningin byggist á þeirri aðferð sem fjallað hefur verið um í 2. kafla, þar sem eingöngu er stuðst við hæðarlíkan og veðurfræðileg gögn ásamt einföldum forsendum um þvermál fallpípu og falltöp enekki er rýnt sérstaklega í staðhætti eða beinar rennslismælingar nýttar til samanburðar.

Því er ljóst að mat á orkugetu getur í einhverjum tilvikum verið ónákvæmt. Einnig er möguleiki á að einhverjir áhugaverðir kostir komi ekki fram. Að lokum er mögulegt að vatnaskil geti verið rangt ákvörðuð vegna ónákvæmni í hæðarlíkani og villur hljótist af því en mest hætta er á að þetta gerist þar sem land er flatt.

Frekari athugun á fýsileika kosta þyrfti að byggjast á rennslismælingum, staðháttum m.t.t. virkjunarstæðis og miðlunarmöguleika, sem og arðsemisútreikningi viðkomandi virkjunar. Fyrir vænlega kosti væri einnig mögulegt að reikna langæi rennslis líkt og Vatnaskil hafa áður gert fyrir Orkustofnun þar sem útbúin voru langæi rennslis fyrir valda virkjanakosti í Eyjafirði, Snæfellsnesi og á Vestfjörðum. Nánar má lesa sér til um skýrslurnar á orkustofnun.is.

 

Nýjar fréttir