10 C
Selfoss

Sunnulækjarskóli fær 100 þús. í inneign í Altis

Vinsælast

Ólympíuhlaup ÍSÍ  hefur farið fram í grunnskólum landsins undanfarnar vikur, en verkefnið hófst formlega þann 8. september sl. Með hlaupinu er leitast við að hvetja nemendur í grunnskólum landsins til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Nemendur geta valið um þrjár vegalengdir, þ.e. 2,5 km, 5 km og 10 km. Hver skóli sem tekur þátt í Ólympíuhlaupi ÍSÍ fær viðurkenningu þar sem fram kemur hversu margir nemendur tóku þátt og heildarfjöldi kílómetra sem nemendur lögðu að baki. Þátttakan í ár er mjög góð, en nú þegar hafa 76 skólar skilað inn niðurstöðum og hafa 16.521 nemendur hlaupið 67.178 kílómetra. Átta skólar á sambandssvæði HSK hafa tilkynnt þátttöku þegar þetta er skrifað.

Líkt  og undanfarin ár voru þrír skólar dregnir út sem höfðu lokið hlaupinu og skilað inn upplýsingum til ÍSÍ fyrir 10. október sl. Skólarnir 76 voru með í pottinum í ár, en þeir þrír skólar sem voru dregnir út eru Sunnulækjarskóli á Selfossi, Grunnskóli Snæfellsbæjar og Foldaskóli í Reykjavík. Hver þessara þriggja skóla fær 100.000 króna inneign í Altis, en Altis selur vörur til íþróttaiðkunar sem nýtast nemendum á skólalóðinni eða í íþróttahúsinu.

Bent er á að enn er hægt að hlaupa og fá viðurkenningarskjal þó að búið sé að draga út vinningana.

Samstarfsaðilar Ólympíuhlaups ÍSÍ eru Mjólkursamsalan sem hefur styrkt útgáfu viðurkenningarskjala frá upphafi, og Íþrótta- og heilsufræðingafélag Íslands.

 

 

Nýjar fréttir