7.3 C
Selfoss

Samið um byggingu hjúkrunarheimilis í Hveragerði

Vinsælast

Húsnæði hjúkrunarheimilisins Áss í Hveragerði verður stækkað með nýrri byggingu með 22 hjúkrunarrýmum til að bæta aðstöðu heimilisfólks í Ási og útrýma tvíbýlum. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri undirrituðu nýlega samning um samstarf bæjarfélagsins og heilbrigðisráðuneytisins um framkvæmdina. Miðað er við að þær hefjist fyrir lok þessa árs og að heimilið verði tilbúið til  notkunar fyrri hluta árs 2023.

Þörf á endurbótum á gamla hjúkrunarheimilinu í Ási er orðin brýn, m.a. þar sem meiri hluti hjúkrunarrýmanna eru tvíbýli, alls 17 talsins. Í viðmiðum um skipulag hjúkrunarheimila er m.a. gerð sú krafa að allir íbúar hjúkrunarheimila eigi kost á einbýli með einkabaðherbergi.  Nýbyggingin verður um 1.430 fermetrar að stærð og rís á lóðinni við Hverahlíð 21 og 23, gegnt gamla heimilinu. Áætlaður byggingarkostnaður er rúmur 1 milljarður króna og skiptist þannig að 85% greiðast úr ríkissjóði en Hveragerðisbær greiðir 15%.

Framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarheimila til ársins 2024 snýr bæði að því að fjölga hjúkrunarrýmum og að bæta aðstöðu á eldri heimilum þar sem þess gerist þörf í samræmi við viðmið um skipulag hjúkrunarheimila. Aðstæður á hjúkrunarheimilum skulu líkjast eins og kostur er húsnæði, skipulagi og aðstæðum á einkaheimilum fólks. Árið 2018 var hlutfall einbýla á hjúkrunarheimilum á landsvísu 86% á móti 14% fjölbýla. Fyrirhugaðar framkvæmdir í Ási eru því mikilvægur liður í endurbótum á eldri hjúkrunarheimilum sem ekki standast kröfur nútímans hvað þetta varðar.

Endurbætur á eldra húsnæði og fjölgun hjúkrunarrýma um 4

Í kjölfar nýframkvæmdanna mun sjálfseignarstofnunin Ás ráðast í endurbætur á gamla hjúkrunarheimilinu sem verður fært til nútímalegs horfs. Við úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra fyrr á þessu ári var Ási veitt 100 milljóna króna framlag til endurbóta. Stoðþjónusta eins og framreiðslueldhús og skrifstofuaðstaða fyrir stjórnendur verður samnýtt fyrir bæði húsin. Hjúkrunarrýmum í Ási fjölgar um 4 með þessum framkvæmdum.

 

Nýjar fréttir