-0.9 C
Selfoss

Nytjamarkaðurinn á krossgötum

Vinsælast

Það er farið að þrengja um húsnæði hjá Nytjamarkaðnum á Selfossi en til stendur að rífa húsið á nýju ári samkvæmt heimildum blaðsins. Markaðurinn er ekki kominn með annað húsnæði og kemur því til með að verða á ákveðnum hrakhólum með starfsemi sína innan tíðar. Markaðurinn var settur á stofn 1. desember 2008 og hefur starfað óslitið síðan. Þó ekki alltaf á sama stað, en hann var til að mynda í Kjarnanum á Selfossi í upphafi. Við hittum Dagnýju Dögg Sigurðardóttur markaðsstjóra  og spurðum út í málefni Nytjamarkaðarins.

 Umhverfislegur ávinningur af starfseminni

„Þetta er rétt. Við erum komin í smávægileg húsnæðisvandræði. Við stefnum auðvitað á að leysa það og halda starfseminni áfram en það er ekki mikið um laust húsnæði sem hentar fyrir okkar starfsemi á Selfossi í dag . Það væri missir af þessu verkefni frá mörgum sjónarhornum,“ segir Dagný. Innt nánar eftir því hvað hún meini segir Dagný: „Nytjamarkaðurinn hefur í gegnum árin safnað fjármunum sem hafa farið í það aðstoða með ýmis góðgerðar málefni, bæði hér heimabyggð og erlendis. Svo má nefna að við stuðlum að endurnotkun þeirra muna sem koma inn til okkar og gefum þeim framhaldslíf í stað þess að þeim sé hent. Þannig drögum við verulega úr sóun í samfélaginu okkar. Þessa muni má svo fá fyrir mun lægra verð en gengur og gerist. Þannig komum við til móts við þá sem kjósa að kaupa notað og við getum á móti látið fjármuni af hendir rakna í ýmis góð samfélagsleg verkefni“.

Óska eftir húsnæði fyrir markaðinn

Þegar við spyrjum hvort komið sé að leikslokum með Nytjamarkaðinn segir Dagný svo ekki vera. „Nei, ég vil nú ekki vera svo svartsýn. Við auðvitað erum að leita að húsnæði sem við getum flutt í og haldið starfseminni áfram. Hjá okkur er  mikill vilji til þess að halda áfram og við finnum að það er mikill vilji hjá samfélaginu öllu að hafa svona starfsemi. Við finnum fyrir miklu þakklæti fyrir markaðinn og allt sem hann stendur fyrir.. Markaðurinn hefur víðtæk áhrif eins og ég nefndi áðan og það er mikilvægur hlekkur í samfélaginu að eiga svona markað. Bæði umhverfislega og svo þessi samfélagslegi ávinningur sem hlýst af þeim fjármunum sem við getum komið áfram til góðra verka.“ Við þökkum Dagnýju fyrir spjallið og vonum að Nytjamarkaðurinn haldi áfram á nýjum og góðum stað.

 

Random Image

Nýjar fréttir