8.9 C
Selfoss

Fræðslumoli um prentiðnað og pappír

Vinsælast

Pappírs og prentiðnaður er umhverfisvænn iðnaður, en Prentmet Oddi, eigandi Dagskrárinnar er vottuð með umhverfismerki Svansins, sem og blaðið sjálft. Okkur langar í allri umræðunni um umhverfismál að skoða pappírs og prentiðnaðinn á Íslandi og áhrif hans á umhverfi sitt. Fyrir svörum situr Kristjana Guðbrandsdóttir, sviðsstjóri prent- og miðlunarsviðs hjá Iðunni fræðslusetri.

Oft þegar umræðan fer af stað með pappír og prentgripi grípur fólk á lofti að pappír hafi neikvæð áhrif á skóga, eyði skógum og jafnvel regnskógum. Er þetta rétt?

„Nei, þetta er alrangt. Enginn pappír er framleiddur úr regnskógum. Eyðing regnskóganna er alls ekki af völdum pappírsiðnaðar.
Pappírinn sem við notum er framleiddur úr sjálfbærum nytjaskógum á norðurhveli jarðar. Hringrás gróðursetningar, ræktunar og skógarhöggs er vel stýrt og nytjaskógarnir vaxa gríðarlega á ári hverju. Vöxturinn hefur verið reiknaður í skemmtilega og lýsandi staðreynd svo fólk geti gert sér hann í hugarlund. Eða sem nemur vexti á stærð við 1500 fótboltavelli á hverju ári. Þetta er mikilvæg staðreynd því skógar eru okkur dýrmætir í baráttunni við loftlagsbreytingar.“

Stundum hefur verið talað um að pappírsnotkun feli í sér mikla sóun. Hvernig er þessu háttað í raun?

„Nei, pappír er mest endurunna vara heims. Hér á landi er endurvinnsluhlutfall á pappír mjög hátt, eða um 84%. Til samanburðar þá er endurvinnsla á plasti rétt um 30%. Það á að hvetja til aukinnar notkunar pappírs í staðinn fyrir til dæmis plast, til dæmis í umbúðum og merkingum.

 Er pappír sjálfbær? Og hvað með loftslagsáhrif af notkun pappírs?

„Já pappírs og prentiðnaður er ábyrgur og sjálfbær hátækni -og þjónustuiðnaður. Við eigum að styðja við slíkan iðnað. Það hefur orðið mikil þróun síðustu áratugi í þessum iðnaði hvað varðar umhverfisvernd. Með því að nota pappír stuðlum við að ræktun nytjaskóga. Eins og ég nefndi áðan þá eru skógar okkur dýrmætir, þeir veita okkur ánægju, en þeir binda líka kolefni og vega upp á móti loftlagsáhrifum. Vissulega kostar sitthvað að endurvinna pappír, en það er óábyrgt að mæla á móti pappírsnotkun.“

 Nú er mikið talað um rafræn samskipti í stað pappírs. Er það raunverulega svo að rafræn samskipti séu endilega betri?

„Það er mjög mikið hagræði af stafrænni tækni og við ættum ekki að horfa á þetta sem andstæður. Stafræn tækni kemur alls ekki að öllu leyti í stað fyrir notkun pappírs. Mjög gott dæmi um þetta eru vörubæklingar sem eru gefnir út ár eftir ár. Af hverju? Af því þeir skila árangri í markaðsstarfi. Svo getum við heldur ekki litið framhjá rafrænum úrgangi, kolefnisspori netnotkunar og ágangi á auðlindir heims svo við getum haldið uppi stafrænni neyslu okkar. Við erum skammt á veg komin hvað þau mál varðar. Við erum mörg alin upp við þá sleggjudóma að pappírsnotkun feli í sér sóun og internetið sé kraftaverkalausn. Þvílík fjarstæða!“

Hvernig er þessu háttað hér á Íslandi með tilliti til endurvinnslu, innkaupa og prentiðnaðarins sem heildar? Stuðlum við að umhverfisvænni framleiðslu?

„Íslensk prentfyrirtæki eru brautryðjendur í umhverfismálum, nota virt vottunarkerfi sem ná til allrar aðfangakeðjunnar og stuðla að umhverfisvænni framleiðslu. Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Íslensk prentfyrirtæki gegna mikilvægu hlutverki hvað það varðar. Nú eru nýir tímar þar sem við þurfum að gæta að hverju skrefi. Það gildir ekki lengur að framleiða hluti eftir ódýrustu leiðum og skilja eftir sig stórt kolefnisspor. Við þurfum að hugsa þetta upp á nýtt. Við verðum að leggja þyngri áherslu á að framleiða hlutina hér heima og velja sjálfbæran iðnað. Þótt það sé dýrara vegna smæðar okkar þá margborgar það sig. Fyrir umhverfið, fyrir atvinnulífið og okkur sjálf.“

Nýjar fréttir