8.9 C
Selfoss

Menningarsalur Suðurlands kominn á skrið

Vinsælast

Loksins, loksins! Eftir þrotlausan barning í ár og áratugi, þar sem íbúar, bæjarfulltrúar og aðrir stjórnmálamenn hafa haldið málum vakandi, hefur loks árangur náðst. Undirbúningsvinna við Menningarsal Suðurlands er nú komin á svo gott skrið að loksins sést til lands.

Á árinu 2020 lagði ríkisvaldið fram fimm milljónir og Sveitarfélagið Árborg sömu upphæð á móti til að hefja undirbúning. Í kjölfarið ákvað bæjarstjórn að stofna starfshóp, með aðkomu mennta- og menningarmálaráðuneytisins, til að vinna menningarsalnum framgang og halda uppi fullum þrýstingi á að hann raungerðist. Svo fast hefur málinu verið fylgt eftir að nú liggur fyrir Alþingi til afgreiðslu fjárlagafrumvarp sem tryggir verkefninu 280 milljóna framlag frá ríkinu á næstu tveim árum. Bæjarstjórn mun að sjálfsögðu tryggja mótframlag og hefur áður ályktað í þá veru.

Í lok sumars skipaði bæjarstjórn formlega byggingarnefnd um verkefnið og sendi með því skýr skilaboð um að verkið skyldi komast í framkvæmd sem allra fyrst. Byggingarnefndin hóf störf í ágúst síðastliðinn. Nefndina skipa, frá Sveitarfélaginu Árborg Guðbjörg Jónsdóttir, formaður, Kjartan Björnsson og Tómas Ellert Tómasson og frá mennta – og menningarmálaráðuneytinu Baldur Þórir Guðmundsson. Auk þess starfa með nefndinni Bragi Bjarnason og Atli Marel Vokes, starfsmenn sveitarfélagsins. Samið hefur verið við Verkfræðistofuna Verkís um að Ari Guðmundsson, verkfræðingur leiði undirbúningsferlið.

Vinna við þarfagreiningu og undirbúning komandi framkvæmda stendur nú yfir á vegum byggingarnefndarinnar. Í dag samanstendur menningarsalurinn af stóru sviði, kjallara og sal fyrir um 300 sæti. Mikilvægt er að þarfgreiningin nái til allra hagaðila svo öll sjónarmið komist á framfæri og salurinn fullnægi kröfum mismunandi notenda. Til að tryggja aðkomu sem flestra hefur byggingarnefndin auglýst eftir að hagsmunaaðilar bjóði sig fram til samstarfs. Þeir eru hvattir til að koma að þessu mikilvæga verkefni sem leggja mun grunninn að hönnun og útfærslu menningarsalarins.

Menningarsalurinn er mjög sértækt verkefni og þarf að huga að mörgum þáttum. Taka þarf tillit til reglugerðabreytinga, viðbygginga og breytinga sem gerðar hafa verið á húsnæði hótelsins á þeim áratugum sem salurinn hefur staðið óhreyfður og falinn inn í miðju hótelsins. Við hönnun salarins þarf að taka tillit til þess að flest stoðrými eru staðsett í hótelinu og því verður verkefnið unnið náið með öðrum eigendum húsnæðisins. Viljayfirlýsing um mikilvægi þess samstarfs var gerð milli allra eigenda hússins á haustdögum.

Það er von okkar í byggingarnefndinni að gott samstarf verði við Sunnlendinga allstaðar að á landinu um að láta langþráðan draum rætast, sem var fjarlægur en er nú að verða að veruleika. Með tilkomu Menningarsals Suðurlands verður hægt að hlúa betur að lista- og menningarmálum, en gert er í dag. Við viljum einnig koma á framfæri þökkum til fjárlaganefndar Alþingis fyrir þeirra stuðning og hvetjum hana um leið til að tryggja að verkefnið verði fest í komandi fjárlög.

Byggingarnefnd Menningarsalar Suðurlands

Guðbjörg Jónsdóttir,

Kjartan Björnsson,

Tómas Ellert Tómasson

 

Nýjar fréttir