1.7 C
Selfoss

Nokkur orð um réttindi og tennur

Vinsælast

Um tannlækningar gilda ýmis lög og reglur sem fæstir þekkja vel. Hér stikla ég á stóru yfir helstu réttindi sem gilda á Íslandi að hausti 2020. Samantektin er einfölduð og er ekki ætlað að vera tæmandi.

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ)
Til þess að njóta réttinda SÍ þarf viðkomandi að vera sjúkratryggður á Íslandi. Almennt heyra Íslendingar með lögheimili á Íslandi undir SÍ. Mikilvægt er fyrir þá sem flytja til landsins að huga vel að pappírsvinnu fyrir flutningana svo viðkomandi standi ekki utan sjúkratrygginga. Börn eru sjúkratryggð með foreldrum sínum.

Börn og SÍ
Sjúkratryggðir einstaklingar að 18 ára aldri falla undir samning frá 2013 um gjaldfrjálsar tannlækningar barna. Samningurinn nær yfir flestallar almennar tannlækningar, að tannréttingum undanskildum. Fyrir hvert barn greiðast 2.500 kr. í árlegt komugjald. Að öðru leyti fær barnið fríar skoðanir, myndatökur, viðgerðir og flest annað sem þarf að sinna.

Sérúrræði barna gagnvart SÍ
Einstaka atriði falla ekki undir barnasamninginn eða þarf að sækja sérstaklega um og fá þá samþykki SÍ fyrir. Um krónugerð, implönt og fjarlægingar endajaxla gildir t.d. að tannlæknir getur sótt um endurgreiðslu til SÍ fram að 23 ára aldri í ákveðnum tilfellum.

Börn utan SÍ
Ef barn dvelur á Íslandi en stendur utan SÍ gilda sérstakar reglur. Barnið getur t.d. verið hælisleitandi, óskráð „skuggabarn“ eða nýflutt til Íslands og ekki komið inn í kerfi SÍ vegna skriffinnsku. Engu barni má úthýsa eða neita um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, þó svo barnið sé ekki sjúkratryggt á Íslandi. Slíkt stríðir gegn barnaverndarlögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sé barn í brýnni neyð á barnaverndarnefnd þess sveitarfélags sem barnið dvelst í að grípa inn í. Flest sveitarfélög sinna þessu vel en því miður hef ég þurft að eiga við sveitarfélag sem sinnti ekki þessari skyldu sinni.

Tannréttingar og SÍ
Þátttaka SÍ í tannréttingum er í formi styrks. Fyrir föst tæki (spangir) í öðrum gómnum greiðir SÍ 100.000 kr. í styrk en 150.000 kr. fyrir báða góma, fram að 21 árs aldri. Heildarkostnaður er yfirleitt mun hærri. Þessar upphæðir hafa verið óbreyttar í um 18 ár og væru í dag um 210.000/320.000 kr. ef verðlagsþróun hefði verið fylgt.
Fyrir mjög alvarlegar skekkjur og vel skilgreind vandamál er hægt að sækja sérstaklega um til SÍ. Má þar helst nefna meðfædda tannvöntun þegar vantar 4 eða fleiri fullorðinstennur, alvarleg frávik í andlitsvexti og svo ef barn hefur skarð í gegnum tanngarð eða harða góminn. Alvarleg slys (sjaldgæf) eru einnig umsóknarhæf. Ef umsókn er samþykkt greiðir SÍ 95% af kostnaðinum.
SÍ getur veitt ferðastyrk vegna tannréttinga tvisvar á ári að undangenginni umsókn.

67+ ára, öryrkjar og SÍ
Haustið 2018 var samþykktur nýr samningur um þjónustu við öryrkja og 67 ára og eldri. Samningurinn felur í sér flestar almennar tannlækningar (t.d. skoðanir, hreinsanir, viðgerðir, rótfyllingar, tannfjarlægingar og tanngervi). Af þjónustuliðum samningsins greiðir viðkomandi 50% af raunkostnaðinum og SÍ greiðir 50% á móti. Í samninginn var sett ákvæði um að endurgreiðsluhlutfall SÍ ætti að hækka úr 50% upp í 75% haustið 2019. Það var ekki gert og er endurgreiðslan því enn 50%. Að framfylgja hækkuninni heyrir undir heilbrigðisráðherra.
Langsjúkir og aðilar á stofnunum geta átt rétt á 100% endurgreiðslu.

Sérúrræði 67+/öryrkja gagnvart SÍ
Af smíði úrtakanlegra tanngerva (heilgómar/„falskar“ og partar) greiðir SÍ 50% af kostnaði. SÍ greiðir hins vegar ekki 50% af föstum tanngervum (krónur/brýr/implönt). Fyrir föst tanngervi tenntra einstaklinga (t.d. krónur eða implantakrónur) greiðir SÍ 60.000 kr. í styrk árlega (80.000 kr. fyrir langveika/inniliggjandi). Umsamda 50% endurgreiðslan hækkar tvisvar á ári í takt við vísitölur en fasti styrkurinn hækkar ekkert (væri annars um 64.000/85.000 m.v. verðlagsþróun).
Undarlegt dæmi: Einstaklingur hefur tapað tönn. Kjósi hann að bæta fyrir tönnina með fastri brú eða implanti (ákjósanlegri „A-lausn“) greiðir SÍ fyrir hann 60.000 kr. Kjósi hann að bæta fyrir tönnina með úrtakanlegum stálgrindarparti/„gómi“ (hálfgerð „B-lausn“) greiðir SÍ hins vegar allt að 170-180.000. Stundum geta þessar „A“ og „B“ lausnir kostað álíka mikið, en engu að síður fær fólk mun hærri endurgreiðslu og þar með hvata í úrtakanlegu, „verri“ lausnina heldur en fasta lausn sem þjónar þó betur og flestir myndu gjarnan vilja.

Hælisleitendur og flóttafólk
Heyra ekki undir SÍ. Neyðarþjónustu er sinnt gagnvart hælisleitendum og flóttafólki. Valkvæðar aðgerðir eru alla jafna látnar bíða. Öðru máli gegnir um kvótaflóttafólk, það nýtur meiri réttinda og stuðnings. Þessi mál eru oft flókin og geta þurft aðkomu m.a. Útlendingastofnunar, heilbrigðisráðuneytis, Alþjóðadeildar SÍ og sveitarfélaga.

Önnur úrræði
– Sum stéttarfélög taka þátt í tannlæknakostnaði. Reglur þeirra eru mjög ólíkar, ráðfærðu þig við þitt félag.
– Ef um slys er að ræða getur verið að almennu tryggingafélögin taki þátt í kostnaðinum.
– Félagsþjónusta sveitarfélaga getur í ákveðnum tilvikum hlaupið undir bagga með aðkallandi inngrip.

 

Sverrir Örn Hlöðversson,
tannlæknir.

Nýjar fréttir