7.3 C
Selfoss

Þakklátir listamenn í Gullkistunni á Laugarvatni

Vinsælast

Meginmarkmið Gullkistunnar á Laugarvatni er að vera heimili og vinnuaðstaða fyrir skapandi fólk úr öllum greinum og frá öllum löndum. Starfsemin nær ellefu ár aftur í tímann og núna hafa um 500 listamenn dvalið þar. Gullkistan gefur fólki hvaðanæva að úr heiminum tækifæri til að koma inn í íslenskt samfélag, vinna að verkefnum sínum í fallegu og gefandi umhverfi Laugarvatns. Eða eins og einn gestur Gullkistunnar sagði við blaðamann: „Þegar ég er fastur í ljóðagerðinni og finn ekki réttu orðin þarf ég ekki annað en að líta upp og út um gluggann. Hér blasir við einstaklega fallegt útsýni og styrkur staðarins er einmitt þessi. Gluggar út í náttúruna og Hekla sem vakir yfir okkur við ljóðagerðina.“ DAGSKRÁIN leit við í Gullkistunni í vikunni og kynntist sex Ameríkönum og einum Spánverja sem dvelja þar fullir þakklætis til utanríkisþjónustunnar sem greiddi götu þeirra á þessum viðsjárverðu tímum.

Ég er boðinn velkominn inn í notalegt andrúmsloftið í Gullkistunni. Fyrir innan er fólk niðursokkið í vinnu sína sem er af ólíkum toga. Fljótlega standa allir upp og benda mér á stórt hringborð þar sem auðvelt reynist að halda tveggja metra fjarlægð. Við byrjum á því að ræða veðurfarið, umhverfið og stöðuna í heiminum áður en að við færum okkur burt frá angri heimsins og inn í notalega tilveru staðarins sem snýst þegar öllu er á botninn hvolft um það að rækta andans mál, listsköpun og frjóar hugmyndir. Þetta eru þau Marc Merrill, rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður, Jesús Garcia Alfonso, verkfræðingur, Jennifer Marquardt, rithöfundur og prófessor, Stan Galloway, prófessor, ritstjóri og ljóðskáld, Emily Ann Hoffmann, teiknari, kvikmyndagerðarkona, rithöfundur og sjónlistakona, Matthew Puccini, kvikmyndagerðarmaður og Nicole Yurcaba, prófessor og ljóðskáld.

Þakklæti til utanríkisþjónustunnar

Í samtali okkar ber fyrst á góma hvernig það hafi gengið að koma til Íslands frá Bandaríkjunum í því ástandi sem ferðatakmarkanir setja ferðalöngum. „Við áttum alls ekki von á því að fá að koma til landsins. Það er bannað að ferðast. Við sendum þó inn fyrirspurn til íslenska utanríkisráðuneytisins en áttum ekkert endilega von á því að fá svar. Það kom þó eftir nokkra daga. Okkur var heimilað að koma gegn ströngum skilyrðum sem við að sjálfsögðu vorum tilbúin í. Okkur langar að þakka alla þá aðstoð sem ráðuneytið veitti okkur sem var mjög persónuleg og allir vildu hjálpa okkur til þess að við gætum komið hingað og sinnt verkefnum og hugðarefnum okkar eins og til stóð. Við hlökkuðum mikið til.“ Það er á listamönnunum að heyra að hér á Laugarvatni geti þeir upplifað frelsi sem ekki er fyrir hendi í heimalandi þeirra vegna kórónuveirunnar. Það sé gott að geta farið út í náttúruna og gengið frjáls og örugg um án mikilla takmarkana.

Innblásturinn blómstrar á svona stað

Hópurinn þekkist ekki náið innbyrðis en þau koma þó flest frá Bandaríkjunum. Aðspurð um hvernig það sé að vera í sama rými með stærri hóp þar sem hægt er að spegla vinnu sína fyrir öðrum segja þau það ákaflega gott að fá lánuð augu og eyru annarra og ræða verk sín. Þá sé mikill innblástur af því að vera með öðru fólki sem er að vinna að sköpun sinni og móta verkefni. Einnig sé tengslanet annarra mikilvægt ef svo ber undir og gott að hafa aðgang að því.

Þau segja svo öll að Ísland og þau gæði sem landið hafi upp á að bjóða sé vissulega stór þáttur í dvölinni. Náttúran, ljósið, litirnir, umhverfið og fólkið verði til þess að næra sköpunarkraftinn. „Innblásturinn blómstar á svona stað“. Emily Ann sagðist mála talsvert og hún hefði ekki getað ímyndað sér hversu litríkt þetta land væri og býr sér til lista með litum sem hún sér í umhverfinu til þess að vinna með í framhaldinu. Þá sé það einkar hentugt hve seint sólin gengur til viðar „því þegar við höfum lokið dagsverkinu og líða tekur að kvöldi, þá er ennþá bjart og við getum ferðast um eða farið í gönguferðir. Það er öðruvísi tilfinning en þegar sólin sest með hraði og manni finnst að dagurinn sé búinn”. Ljóðskáldin Stan og Nicole vinna að útgáfu sameiginlegrar ljóðabókar sinnar á Laugarvatni þar sem þau sækja efniviðinn meðal annars í heim norrænnar goðafræði og upplifun af íslenskri náttúru. Þau halda reglulega ljóðahátíð í Bandaríkjunum sem kallast Bridgewater International Poetry Festival og langar gjarnan að flytja hana til Laugarvatns.

Þegar ég kveð þessa áhugaverðu gesti og listamenn taka þeir enn og aftur fram hversu þakklát þau eru að fá að dvelja á svona stað, fyrir næðið, kyrrðina og gestrisnina. Íslendingar taka vel á móti gestum sínum og umhverfið hérna og aðstæður eru frábærar. Vinnustofurnar og híbýlin eru fyrsta flokks. Þau benda jafnframt á hvílík Gullkista það er að geta komið hingað og sinna vinnu sinni og sköpun í samfélaginu á Laugarvatni með náttúruna á alla kanta, fjallið á bak við þau, vatnið fyrir framan og Hekluna við sjóndeildarhring. Sjá: gullkistan.is

 

 

 

Nýjar fréttir