1.7 C
Selfoss

Bækur um sult, seyru og almenna eymd höfða helst til mín

Vinsælast

Valur Örn Gíslason pípulagninga- og vélvirkjameistari er fæddur í Reykjavík, ólst upp í Breiðholti og hinum ýmsu sveitabæjum í öllum landsfjórðungum. Núna er hann búsettur í Árbæjarhverfi í Ölfusi, giftur, fjögra barna faðir og verðandi sex barna afi. Valur er hesta- og jeppamaður, göngugarpur, grúskari, lestrarhestur og lífskúnstner.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég var að byrja á skáldsögunni Þrúgur reiðinnar eftir nóbelskáldið John Steinbeck í þýðingu Stefáns Bjarmans. En ég á það til að lesa margar bækur á sama tíma og það vill leiða til þess að hver lestur tekur lengri tíma en ella. Á náttborðinu er ég með stafla af bókum og svo vel ég bók eftir skapi eða veðri. Þar er vert að nefna bækurnar Maðurinn sem elskaði Ísland eftir Árna Snævarr og Hrakningar á heiðarvegum frásagnir ritaðar af Pálma Hannessyni og Jóni Eyþórssyni.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Við hjónin grínumst stundum með það að bókmenntir sem fjalla um sult, seyru og almenna eymd séu þær sem höfða helst til mín. En ég er mjög hrifinn af sögulegum skáldsögum og sagnfræðiritum sem oftar en ekki fjalla um lífsbaráttu kynslóðanna og segja frá veruleika fólks hverju sinni.

Lastu mikið sem barn?
Nei, ég las fyrstu bókina mína þegar ég var níu eða tíu ára gamall og þó að ég muni ekki eftir hvernig bókin var þá situr titill hennar alltaf í mér: Kári litli í sveit. Það var svo ekki fyrr en upp úr tvítugu sem ég fór að lesa af alvöru og ég les enn tiltölulega hægt og þarf að vanda til verks ef ég á að halda einbeitingu.

Hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Ég les á kvöldin áður en ég fer að sofa, ef ég hef úthald í það þann daginn, en þó oftast lítið í einu. Þó getur það komið fyrir að ég setjist niður með bók í lengri tíma. Ég á það til að fá óslökkvandi áhuga á málefnum sem jaðra við þráhyggjuköst og þá sit ég með heilu bókastaflana um sama efni í marga daga ef ekki vikur. Má þar nefna Sturlungu og bækur Einars Kárasonar: Óvinafögnuð, Skálmöld, Skáld og Ofsa og fleiri bækur í sama dúr. Einar er listilegt skáld og hef ég lesið flest allt sem hann skrifar. Bækur sænska rithöfundarins Wilhelm Moberg um Vesturfarana eru annað dæmi um bókmenntir sem ég hef fengið á heilann og afrekssaga þeirra sem fóru vestur um haf í leit að betra lífi, bæði Íslendinga og annarra. Ég nýt þess einnig að hella mér í sagnfræði og þá er í miklu uppáhaldi frásagnir af seinni heimstyrjöldinni og þar stendur Antony Beevor sagnfræðingur öðrum framar. Böðvar Guðmundsson og sagnaheimur hans í skáldsögunum Híbýli vindanna og Lífsins tré sátu lengi í mér og síðast en ekki síst vil ég nefna sunnlenska skáldið Bjarna Harðarson með bækur sínar um hinn rammíslenska veruleika.

Áttu þér einhvern uppáhaldshöfund?
Uppáhalds höfundur minn er og verður Halldór Laxness. Það eru fáir eða engir sem hafa á sama hátt tekist að setja fram ljóðrænu í frásögn sinni þó svo að margir hafi reynt það og jafnvel farið fram úr sér í þeim tilraunum. Nóbelskáldið okkar skrifar á þann hátt að það er alltaf eins og maður sé á staðnum og lýsingarnar með þeim hætti að maður getur fundið lyktina af umhverfinu. Þó er engu ofaukið. Að geta sagt frá örlögum og afdrifum Íslendinga á þennan hátt er einstakt. Smásagan Nýja Ísland er í miklu uppáhaldi en þar segir hann einmitt frá örlögum Íslendinga í Vesturheimi.

Hefur bók rænt þig svefni?
Já, þegar ég las Leitina að svarta víkingnum eftir Bergsvein Birgisson átti ég erfitt með að gera nokkuð annað. Á sama tíma las ég bókina Árdagar Íslendinga eftir Guðmund G. Þórarinsson, þar sem hann veltir upp kenningum um landnámið og uppruna okkar Íslendinga sem Bergsveinn svarar svo snilldarlega í sinni frásögn og kemur með raunhæfa mynd af því hvernig þetta hefur allt saman farið fram. Atburðirnir á Illugastöðum hafa að sama skapi oft haldið fyrir mér vöku og hef ég grúskað helling í þeim hörmungum og lesið nánast allt sem um það er að finna.

En að lokum Valur, hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Samhengislausar víðhyglisfrásagnir af hinu og þessu. Eða ef ég á að svara þessu á einfaldari máta, þá efast ég um að ég komi nokkurn tímann frá mér ritaðri bók. Áhugasviðin eru svo mörg og dreifð að ég ætti erfitt að festa mig við eitt efni.

 

Nýjar fréttir