12.3 C
Selfoss

Lifðu lífinu lifandi

Vinsælast

Þegar mamma mín var lítil stelpa lærði hún á píanó. Eitthvað gekk brösuglega fyrir mömmu að læra á píanóið eins og píanókennarinn reyndi að kenna henni. Kennarinn vildi að hún lærði að lesa nótur og spilaði eftir þeim. Mömmu fannst hinsvegar mun betra að spila eftir eyranu og hafði mikið og gott tóneyra. Einn daginn fékk kennarinn nóg og sagði við hana „Þú ert bara með hafragraut í hausnum á þér“. Þetta sat lengi í mömmu sem tók auðvitað mark á orðum kennarans og árum saman stóð hún í þeirri trú að hún gæti ekki lært. Ekki bara á hljóðfæri heldur einnig í almennu námi. Orð geta haft mjög mikil áhrif á líf fólks. Jákvæð orð eru dásamleg og góð að heyra en neikvæð orð er oft erfitt að losa úr huga sínum, jafnvel árum saman. Eflaust hafa þessi orð haft mótandi áhrif á mömmu mína sem gekk í gegnum súrt og sætt á sínum unglings- og fullorðinsárum. Mamma er hinsvegar mögnuð kona og hefur í gegnum tíðina ekki látið orð annarra brjóta sig þannig niður að hún hafi ekki staðið upp aftur. Mamma notaði tónlistina sem hún átti ekki að kunna „samkvæmt“ kennaranum sem leið til að tjá tilfinningar sínar og vinna sig út úr sorg, gremju og óþægilegum tilfinningum en ekki síður til að tjá gleði sína. Um það leiti sem mamma fór á eftirlaun ákvað hún að láta draum sinn rætast og gaf út geisladiskinn „Lítið blóm“. Þetta var draumur sem hún hafði lengi talað um. Við fjölskylda hennar og vinir höfum örugglega ekki alltaf verið mestu klappstýrurnar en ekki gafst hún upp. Hún hélt ótrauð áfram þangað til einn daginn að hún var komin með fullbúin disk í hendurnar. Lögin
eru sungin af frábærum söngvurum og tónlistin útsett á fallegan hátt. Sumir hefðu gefist
upp en ekki frú Vigdís móðir mín. Mamma vildi skilja lögin eftir sig, fullbúin. Því þau segja sögu. Mikilvæga sögu.

Nú er í gangi verkefni á landsvísu sem heitir Til fyrirmyndar sem er hvatningarátak
tileinkað frú Vigdísi Finnbogadóttur og íslensku þjóðinni. Mamma er fyrirmyndin mín að svo mörgu leyti. Hún hefur sýnt mér það að sama hvað gengur á í lífinu þá getur maður staðið upp aftur og oftar en ekki er maður sterkari í seinni hálfleik lífsins. Lærdómur minn af mömmu er þessi. Ekki láta orð annarra brjóta þig niður í mél, stattu upp og láttu drauma þína rætast og þegar þú lendir í stormi lífsins skaltu muna að leggjast ekki í kör heldur taka því sem verkefni sem þú tekst á við einn dag í einu. Þessa dagana er mamma mín að takast á við stórt þannig verkefni sem hefur áhrif á allt hennar líf. En áfram heldur hún. Mín hvatning til þín kæri lesandi er að þú lifir lífinu lifandi. Njóttu lífsins, syngdu, dansaðu, finndu ilminn af nýslegnu grasi, skrifaðu bréfið, sæktu um námið og/eða skiptu um vinnuna. Gerðu það sem þú þarft að gera til að láta drauma þína rætast. Það er nefnilega ekki of seint.

ÁFRAM ÞÚ!
Kærleikskveðja,
Gunna Stella

Nýjar fréttir