7.8 C
Selfoss

Í átt að betri þjónustu

Vinsælast

Stórt og langþráð skref í átt að bættri þjónustu við þá fjölmörgu sem sækja Ölfusdal heim hefur verið stigið af bæjarstjórn Hveragerðisbæjar.   Á fundi bæjarráðs þann 18 júní var samþykktur samningur við Reykjadalsfélagið sem byggir nú þjónustuhús á Árhólmum en lóðir þar voru auglýstar til úthlutunar með forsendum um byggingu þjónustuhúss árið 2016.

Þessi staður er vinsælt upphaf að göngu inn í Reykjadal þar sem heitur baðlækurinn hefur mikið aðdráttarafl.  Fyrir liggur að gestafjöldi á svæðinu hefur stóraukist á undanförnum árum og er nú vel á annað hundrað þúsund árlega.

Starfshópur um uppbyggingu í Reykjadal í góðri samvinnu við Framkvæmdasjóð ferðamannastaða hefur unnið gott og mikilvægt starf við uppbyggingu göngustíga inn Reykjadal og við uppbyggingu aðstöðu við baðlækinn.  Þrátt fyrir það er enn engin boðleg salernisaðstaða á svæðinu fyrir þennan stóra hóp, ekkert afdrep og lítil sem engin upplýsingagjöf. Hveragerðisbær hefur þar til í sumar greitt fyrir kamra og borgað allar rekstrarvörur salerna við bílastæði á Árhólmum án þess að nokkrar tekjur hafi komið á móti. Einnig hefur bæjarfélagið borið allan kostnað af sorpi, hirðu þess og förgun frá sama stað.

Allir bæjarfulltrúar Hveragerðisbæjar samþykktu við gerð fjárhagsáætlunar uppbyggingu bílastæðis á Árhólmum og að gjaldtaka muni þar eiga sér stað til að fjármagna þjónustu og uppbyggingu.  Bæjarstjórn hefur nú samþykkt að greiða Reykjadalsfélaginu rétt tæplega kr.  50.000,- á dag (1.450.000,- á mánuði) fyrir aðstöðu og þjónustu.  Fyrir þá upphæð mun félagið m.a. útvega fjölda salerna, sjá um þrif þeirra, innkaup á rekstrarvörum, alla meðhöndlun sorps, upplýsingagjöf og umhirðu á svæðinu.   Mun gjaldið verða fjármagnað af bílastæðagjöldum en þar munu jafnframt skapast tekjur sem nýst geta í önnur þörf uppbyggingarverkefni á svæðinu.

Það er ljóst að gjaldtaka er forsenda uppbyggingar en ekki er eðlilegt að almennar tekjur Hveragerðisbæjar haldi áfram að greiða fyrir þessa þjónustu án þess að tekjur komi á móti.

Allra mikilvægast er þó að gestir geti notið þjónustu eins og aðgengi að boðlegum salernum og að séð verði til þess að þjónusta og umhverfi bílastæða og á Árhólmum almennt sé öllum til sóma.

Það er trú okkar að með þessum samningi sé stigið gott skref í átt að enn betra umhverfi og að uppbygging á Árhólmum komist nú á þann skrið sem við öll höfum lengi óskað eftir.

Fh. meirihluta D-listans:

Eyþór H.  Ólafsson
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
Friðrik Sigurbjörnsson
Aldís Hafsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir