6.7 C
Selfoss

Varðveislugildi gróðurhúsa í Hveragerði metið

Vinsælast

Unnin hefur verið skýrsla um varðveislugildi gróðurhúsa í Hveragerði. Tilgangur verkefnisins var að skrá helstu gerðir gróðurhúsa sem finna má í bæjarfélaginu en ylræktar- og garðyrkjustöðvar eru mikilvægur hluti af sögu bæjarins og hafa verið áberandi þáttur í því að móta svipmót byggðarinnar. Þróun undanfarinna ára hefur verið með þeim hætti að rekstur þessara stöðva er í mörgum tilvikum á undanhaldi og því samþykkti bæjarstjórn að láta gera skráningu og úttekt á gróðurhúsum í samvinnu við Minjastofnun í því skyni að kanna stöðu þeirra og gildi fyrir bæjarmyndina.

Þrjár gróðurhúsaþyrpingar hafa mest varðveislugildi

Í skýrslunni er að finna áhugavert yfirlit yfir núverandi garðyrkjustöðvar Hveragerðisbæjar með myndum, teikningum og lýsingu á gróðurhúsunum ásamt samantekt um sögu hverrar stöðvar.  Lagt er mat á menningarsögulegt gildi, umhverfisgildi og byggingarlag gróðurhúsanna.  Skýrslan er bæði fróðleg en líka skemmtileg aflestrar.

Niðurstaða skýrsluhöfunda er að þrjár gróðurhúsaþyrpingar hafa mest varðveislugildi: 1) Við Fagrahvamm og Reykjamörk 22 sem vitnisburður um fágætt byggingarlag.  2) Við Heiðmörk 32-36 þar sem finna má vel varðveitt sýnishorn að nær öllum gerðum gróðurhúsa sem tengjast rekstri garðyrkjustöðvar Dvalarheimilisins Áss.  3) Þelamörk 29-35 þar sem sambyggð gróðurhús setja einkennandi og sérstakan svip á götumyndina.

Skýrsluhöfundum þakkað fyrir vel unnin störf

Á fundi bæjarstjórnar var þakkað fyrir greinargóða yfirferð Svanhildar Gunnlaugdóttur yfir helstu atriði skýrslunnar á fundinum en hún ásamt Oddi Hermannssyni á heiðurinn af þeirri vinnu sem  lögð var fram. Pétri Ármannssyni hjá Minjavernd var þakkað fyrir góða aðstoð og ráðleggingar og Arnari Dór Ólafssyni var þakkað hans framlag til skýrslunnar en hann tók allar myndirnar.

Það er ljóst að samantektin er góður grunnur til að hafa til hliðsjónar þegar taka þarf ákvarðanir um frekari þróun byggðar í Hveragerði en einnig er hún góð heimild til framtíðar um sögu gróðurhúsa og garðyrkju í bæjarfélaginu. Skýrsluna má finna á heimasíðu Hveragerðisbæjar.

 

Nýjar fréttir