3 C
Selfoss

Kynóðir kúrekar, borgarskipulag og barnabækur

Vinsælast

Vigfús Þór Hróbjartsson er fæddur og uppalinn Vestur-Skaftfellingur, frá Brekkum 1 í Mýrdal en býr nú ásamt unnustu sinni Guðnýju Guðjónsdóttir þroskaþjálfa á Selfossi og eiga þau saman fjögur börn. Vigfús er húsasmiður að mennt en lauk B.A.- prófi í byggingarfræði að húsamíðanáminu loknu og vinnur nú að lokaritgerð sinni í skipulagsfræði á meistarastigi við LBHÍ. Hann tók nýverið við stöðu skipulagsfulltrúa umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs ásamt því að vera einn eigandi Smiðjunnar brugghús í Vík í Mýrdal.

 Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég vil byrja á því að taka það fram að ég er fremur lítill lestrarhestur og hefði í raun frekar átt von á því að komast í matgæðing vikunnar í Dagskránni en svona er nú lífið óútreiknanlegt. Þessi misserin, eins og flest önnur undanfarin ár, eru þær bækur sem ég les að mestu leyti náms- og eða fræðibækur sem tengjast náminu á einhvern hátt. Á náttborðinu hjá mér eru Sunnlenskar byggðir II – Flóinn úr einkasafni tengdaforeldra minna þar sem lokaverkefni mitt tekur til skipulagsmála á Stokkseyri auk bókar Jahn Gehl Life between buildings sem kom reyndar nýlega út í íslenskri þýðingu og fjallar á áhugaverðan hátt um leiðir til að ná auknum gæðum fram í byggðu umhverfi og nýta þau rými sem skapast á milli húsa fyrir fólk, mannlíf og menningu fremur en að nota það undir malbik og bílastæði. Aðrar bækur sem ég glugga reglulega í og eru á náttborðinu hjá mér eru Krakkarnir í Kátugötu sem hafa margt áhugavert fram að færa um umferðaröryggismál og Geiturnar þrjár sem mér finnst reyndar búa yfir vafasömum boðskap um ágæti ofbeldis til að ná fram sínum markmiðum. Kannski er tröllið myndlíking fyrir innra tröllið í okkur sem við þurfum að tækla en ég er ekki viss um að fimm ára sonur minn átti sig á því.

 

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Þegar ég les mér til skemmtunar utan námsbók er líklegast að það gerist í kringum jólin ef ég fæ bók í jólagjöf sem ég óska mér yfirleitt. Þá höfða góðar skáldsögur einna helst til mín en ég les að sjálfsögðu allt það sem ég fæ og hef gaman af. Ein jólin fékk ég til dæmis bókina BJÓR – umhverfis jörðina á 120 tegundum eftir Stefán Pálsson, Höskuld Sæmundsson og Rán Flygenring. Ég held að það sé óhætt að segja að sú bók sé að hluta til ástæða þess að Smiðjan Brugghús í Vík varð til í þeirri mynd sem hún er í dag. Eftir lestur bókarinnar hafði ég samband við núverandi rekstraraðila og meðeigendur þar sem þau bjuggu erlendis og viðraði þessa hugmynd við þau og nokkrum mánuðum síðar varð Smiðjan brugghús að veruleika.

Ég fékk Kokkál Dóra DNA í jólagjöf og hafði mjög gaman að henni. Það var erfitt að leggja hana frá sér og hún kláraðist fremur fljótt með konfektinu. Býst samt ekki við því að hún verði upphaf að neinum nýjum ævintýrum – eða ég vona ekki.

 

Ertu alinn upp við lestur bóka?

Það var bæði lesið fyrir mig og svo þegar ég náði tökum á lestri sjálfur las ég Andrésblöð og Syrpur í gríð og erg auk klassískra myndasögubóka eins og ævintýri Svals og Vals, Hin fjögur fræknu, Viggó Viðutan og Lukku Láka og bara hvað það sem til var á heimilinu. Bert bækurnar voru í miklu uppáhaldi á tímabili og þegar leið á unglingsárin fann ég bókaseríu á heimilinu um hinn gall harða kúreka Morgan Kane sem kom líklega frá einum eldri bræðra minna. Þetta voru ansi margar bækur ef ég man rétt. Eftir á að hyggja eru þetta líklega svona rauðu seríu bækur um kúreka, eitruða karlmennsku, óhóflegt ofbeldi og kynlíf og svo eru þær víst bara skrifaðar af einhverjum Norðmanni. En ég held að ég hafi bara sloppið ágætlega frá lestri þeirra samt sem áður.

 

En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Eins og ég hef sagt áður þá hafa lestrarvenjur mínar helgast mikið af því að „þurfa“ að lesa eitthvað síðustu misserin. Sem betur fer þá fara fáir í meistaranám í einhverju fagi nema hafa áhuga á efninu sem þeir eru að læra og get ég því sagt að margt að því sem ég les sé mér til skemmtunar líka. Helstu bækur sem ég get sagt að séu áhugaverðar og gott að glugga í eru til dæmis áðurnefnd bók Jahn Gehl, bækur Bjarna Reynarssonar um Borgir og borgarskipulag og Reykjavík á tímamótum ásamt hinni klassísku ULUP (urban land use planning) eftir Berk, Godschalk og Kaiser og fleiri góðar. Annars les ég að öðru leyti töluvert með og fyrir börnin mín og hef gaman af.

 

Áttu þér einhvern uppáhaldshöfund?

Ég get ekki sagt að ég eigi uppáhaldshöfund þar sem ég tel mig ekki vera nógu mikinn lestrarhest til að mynda mér skoðun á því. En ég lít svo á að nú þegar námi er að ljúka og börnin eldast geti ég farið að lesa um annað en kynóða kúreka, borgarskipulag eða barnabækur og nái þá hugsanlega að eignast uppáhalds höfund í kjölfarið á því.

 

Hefur bók rænt þig svefni?

Bækur sem erfitt er að leggja frá sér eru gjarnar á að ræna mann svefni. Síðast lenti ég í því við lestur Kokkáls um jólin að eiga erfitt með að hætta að lesa sem hentar mér ekki vel þar sem sambýliskona mín er B-týpa og börnin flest A-týpur eins og ég sem verður yfirleitt til þess að ég verð fremur vansvefta í kringum hátíðarnar og mjög hvítur í þokkabót sökum sólarleysis. Jólamyndirnar eru til að mynda ekki góðar af mér.

 

En að lokum Vigfús, hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Þetta er rosalega góð spurning sem fáir hafa líklega spurt sig. Líklega myndi ég skrifa þurrar fræðibækur um túlkun mína á skipulagslögum og tengdum reglugerðum eða hvernig einhæf landnotkun og of dreifð þéttbýlismyndun veldur aukinni umferð og minni almennri hreyfingu og hvernig það hefði áhrif á hugsanlega möguleika okkar til sálfræðilegrar endurheimtar í byggðu umhverfi. Eða kannski væri ég bara skrifa hressar unglingabækur um mjög vafasöm ævintýri táningskúreka á sléttum Arizona eða Mýrdalssands.

 

 

 

Lestrarhestur númer 91. Umsjónarmaður Jón Özur Snorrason.

 

Nýjar fréttir