8.4 C
Selfoss

Jötunvélar opna á ný og Aflvélar flytja á Selfoss

Vinsælast

Það bárust jákvæðar fréttir í eyru blaðamanns á dögunum. Til stendur að reisa við Jötunvélar sem lokuðu óvænt dyrum sínum fyrir fáeinum misserum. Það er fyrirtækið Aflvélar í Garðabæ sem stendur að baki kaupum á félaginu Jötunvélum. Á móti blaðamanni tóku félagarnir Friðrik Ingi Friðriksson, forstjóri Aflvéla og Ægir Sævarsson, þjónustustjóri Aflvéla og sögðu frá því sem stendur fyrir dyrum.

Jötunvélar reistar við og Aflvélar flytja austur

„Það er búið að ráða marga starfsmenn sem hér voru áður. Markmiðið er að halda rekstri Jötunvéla á Selfossi áfram. Svo í framhaldinu að koma með annan rekstur Aflvéla á svæðið innan eins árs,“ segir Friðrik Ingi. Aðspurður um hvers vegna Selfoss varð fyrir valinu segir Friðrik Ingi: „Ægir átti nú stóran hlut í því, að styrkja sitt nærumhverfi. Svo er bara gott viðmót hjá bæjaryfirvöldum og við eigum marga góða viðskiptavini hér á svæðinu og Suðurlandi öllu.“

Í samtali við Gísla Halldór Halldórsson, bæjarstjóra Árborgar um fréttirnar kom fram að það væri ánægjulegt að sjá að Jötunvélar yrðu reistar við. Það væri mikilvægur hluti af þjónustu í samfélaginu. Þær fréttir væru einnig afar jákvæðar að jafn öflugt og gott fyrirtæki eins og Aflvélar ætli sér að flytja starfsemina í sveitarfélagið Árborg. „Þetta eflir þjónustustigið í sveitarfélaginu og er okkur öllum gleðiefni.“

Samhentur hópur og engir veggir

Aflvélar er meðal annars með breytingaverkstæði sem breytir vörubílum í snjóruðningstæki og sérsmíðar bíla til ákveðinna þjónustuhlutverka. Ægir segir aðspurður um þjónustuna hjá Jötunvélum að þjónustan verði eins og með sama merki og verið hefur. Það eina sem á eftir að gerast til lengri tíma litið er að það koma fleiri vörur hér inn og það fer að sjást í Aflvélamerkið í tengslum við það,“ segir Ægir. Þeir félagar koma til með að standa í brúnni á verkefninu og vinna allt saman ásamt sínu starfsfólki. „Við erum svona þannig fyrirtæki, fjölskyldufyrirtæki. Vinnum saman að öllum verkefnum. Við erum ekki með marga veggi innan fyrirtækisins og þetta er ein stór fjölskylda sem keyrir þetta áfram,“ segja Friðrik Ingi og Ægir að lokum.

 

 

 

Nýjar fréttir