7.3 C
Selfoss

Pistill frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Vinsælast

Við stöndum öll frammi fyrir vægast sagt sérstöku ástandi í þjóðfélaginu. Samkomubann hefur staðið yfir síðan 15. mars og mun það vara a.m.k. til 4. maí n.k.  Þetta er áhrifarík leið til að hefta útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Ástandið sem við glímum við reynir á allt samfélagið og við sjáum ekki alveg fyrir okkur hvenær við náum yfirhöndinni í baráttunni við þennan vágest.

Á þessum tímum hafa miklar breytingar á þjónustunni átt sér stað innan Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) og við stöndum frammi fyrir nýjum áskorunum á degi hverjum. Megin hlutverk okkar á HSU í baráttunni við COVID-19 er að tryggja að veiran valdi sem minnstum skaða með því að hefta útbreiðslu hennar og sérstaklega að tryggja öryggi elstu og veikustu einstaklinganna sem eru viðkvæmastir fyrir sýkingunni. Við reynum einnig eftir fremsta megni að varna því að heilbrigðisstarfsfólk HSU veikist  og komast þannig hjá þjónusturofi.

Í dag fer stór hluti þjónustunnar innan HSU fram með símtölum og komum inn á allar heilsugæslustöðvar Suðurlandsumdæmisins hefur fækkað umtalsvert. Fjöldi starfsmanna hefur tileinkað sér nýjan samskiptamáta, starfsaðferðir og tækni. Samhliða nýju vinnulagi rekur HSU áfram hluta af hefðbundinni starfsemi eins og kostur er. Allir starfsmenn innan HSU hafa lagt sitt af mörkum til þess að aðlagast þessum tímum sem við búum við í dag.

Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á húsnæði HSU á Selfossi á faraldurstímabilinu til að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Göngudeildin var færð til innan húsnæðisins í þeim tilgangi að tryggja öryggi viðkvæmra sjúklingahópa sem eru m.a. að koma í krabbameinslyfjagjafir og blóðskilun. Breytingarnar hafa tekist vel og er ekki annað að sjá en að vel fari um sjúklinga og starfsmenn á nýja staðnum. Þá var einnig opnuð sérstök deild fyrir Covid-19 starfsemi á Selfossi. Deildin er lokuð af frá annarri starfsemi og þar er möguleiki á að leggja inn sjúklinga ef með þarf. Eftirlit með COVID-19 smituðum einstaklingum á Suðurlandi er á höndum COVID teymisins á Landspítalanum. Læknar innan HSU eru í nánu samstarfi við teymið og vinna að greiningum smitaðra. Sýnatökur fara nú fram á Selfossi, Vestmannaeyjum, Vík í Mýrdal, Kirkjubæjarklaustri og Höfn.

Á heildina litið gengur vel á öllum starfseiningum innan HSU. Í Vestmannaeyjum hefur reynt verulega á starfsmenn þar sem hlutfallslega mörg smit hafa greinst í Eyjum. Stór hópur starfsmanna hefur verið í sóttkví og liðsauki var sendur til þeirra til að tryggja þjónustuna á staðnum. Það er aðdáunarvert að sjá hvernig starfsmenn innan HSU í Vestmannaeyjum hafa með jákvæðni látið hlutina ganga sem allra best. Í síðustu viku fór Íslensk erfðagreining af stað með skimun fyrir Covid-19  í Vestmannaeyjum í samvinnu við HSU og Vestmannaeyjabæ. Skimunin gekk vel en tekin voru um 1500 sýni á tveimur dögum. Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um frekari skimanir á Suðurlandi á vegum ÍE.

Fljótlega í faraldursferlinu var lokað á heimsóknir á legu- og hjúkrunardeildum bæði á Selfossi og í Vestmannaeyjum. Þessar ráðstafanir voru gerðar til að vernda sjúklinga og heimilisfólk eins og kostur er. Vissulega hafa þessar takmarkanir áhrif á þennan hóp og veldur það okkur áhyggjum. Það er mikil lífsgæðaskerðing að geta ekki notið samvistar með ættingjum og vinum.

Á þessum sérstökum tímum finnum við fyrir miklum stuðningi og velvilja í okkar garð. Fjöldinn allur af félagasamtökum og fyrirtækjum hafa sent okkur fallegar hugsanir og gjafir bæði til starfsmanna og sjúklinga. Ég er orðlaus yfir þessum sendingum og manni hlýnar um hjartarætur að finna svona góða strauma. Ég sendi öllum þeim sem hafa lagt okkur lið mínar dýpstu þakkir.

Það er ánægjulegt að greina frá því að formleg sameining allra heilbrigðisstofnana á víðfeðmasta heilbrigðisumdæmi landsins er nú að ljúka. Heilbrigðisstofnun Suðurlands var stofnuð þann 1. október 2014 þegar heilbrigðisstofnanir í Suðurlandsumdæminu voru sameinaðar. Formleg sameining tók gildi 1. janúar 2015, en Sveitarfélagi Hornafjarðar var þó falið að reka áfram heilbrigðisþjónustuna á Höfn í samvinnu við HSU. Samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra í lok ársins 2019 var HSU falið að taka við ábyrgð og rekstri af allri heilbrigðisþjónustu á Höfn í Hornafirði, að hjúkrunar- og dvalarrýmum undanskildum. Við fögnum því að heilbrigðisþjónustan á Höfn er nú formlega orðin hluti af HSU og það er ánægjulegt að fá starfsfólkið á Höfn í okkar raðir.  Framkvæmdastjórn HSU ætlar að ná árangri í að bæta þjónustu við íbúana og sér tækifæri í að bæta reksturinn með samlegðaráhrifum og samvinnu stórrar einingar. Við erum bjartsýn á að þessar breytingar eigi eftir að styrkja heilbrigðisþjónustuna á Höfn í Hornafirði.

Núna erum við í aðstæðum sem við höfum aldrei verið í áður og lærum vonandi eitthvað nýtt af þeim. Á skömmum tíma var þjónustunni innan HSU umturnað og gjörbreytt frá því sem við áður þekktum. Ljóst er að af öllum áskorunum og vandamálum má draga lærdóm og vænta má að útkoman leiði jafnvel til nýrra lausna og tækifæra. Ég er gríðarlega þakklát og stolt af okkar sterka starfsmannahópi innan HSU og er sannfærð um að við verðum öflugri þegar þetta veður allt yfirstaðið.

Ég vil að lokum þakka heilbrigðisstarfsmönnum og íbúum fyrir að fylgja þeim leiðbeiningum sem okkur eru settar af heilbrigðisyfirvöldum, sem er afar mikilvægt þangað til við vinnum bug á vágestinum sem við glímum við í dag. Við höfum fulla ástæðu til að ætla að þeir erfiðleikar sem við glímum við sem samfélag séu einungis tímabundnir og viðráðanlegir.

 

Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU.

 

 

 

 

Nýjar fréttir