1.1 C
Selfoss

COVID og Suðurland

Vinsælast

Atvinnuleysi vex mjög hratt þessa dagana. Stærsta atvinnugreinin, ferðaþjónustan er í algjöru frosti og í raun hrunin út um allan heim. Hótelin tóm og flestir veitingarstaðir hafa skellt í lás. Tengd starfsemi lamast um leið. Hárgreiðslustofum, snyrtistofum, nuddstofum og líkamsræktarstöðvum hefur verðið gert að loka.

Uggur er í fólki og það er skiljanlegt. Við höfum fyrst og fremst áhyggjur af heilsufari okkar og okkar nánustu. Dagarnir eru teknir einn í einu. Áhyggjur af efnahag koma seinna. En stjórnvöld þurfa að reyna að sjá fram í tímann, meta áhrifin og grípa til aðgerða til að vinna gegn því að faraldur sem gengur yfir valdi skaða til lengri tíma. Skaða á samfélag og efnahag fólks, fyrirtæki, ríki og sveitarfélög.

Afleiðingar heimsfaraldursins skella þungt og með hraða á landsmönnum öllum. Sum svæði eru þó viðkvæmari en önnur. Nánast allir erlendir ferðamenn sem áður komu til landsins fóru um Suðurlandið og stór hluti tekna svæðisins hefur komið með ferðaþjónustunni og starfsemi henni tengdri. Einstök sveitarfélög, s.s. Skaftárhreppur og Mýrdalshreppur standa sérlega berskjölduð með ferðaþjónustuna sem lang stærstu atvinnugreinina.  Mikið álag hefur verið á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og á lögregluna í landshlutanum. Þær sömu stéttir og eru nú í framvarðarsveit almannavarna á meðan stormurinn sem faraldurinn veldur, gengur yfir.

Stormur og skjól

Stjórnvöld verða að koma með ákveðnum og kröftugum hætti til aðstoðar og styðja fólk og fyrirtæki á meðan að stormurinn fer yfir. Við þurfum öflugri Heilbrigðisstofnun Suðurlands, fjölbreyttari menntunartækifæri og árangursrík virkniúrræði fyrir atvinnulausa. Ríki og sveitarfélög verða það standa saman og skapa fleiri störf í boði fyrir atvinnuleitendur. Ekki bara fyrir karla með byggingaframkvæmdum, vegagerð og viðhaldsverkefnum sem eru sannarlega mikilvæg. Það verður líka að vinna gegn atvinnuleysi kvenna.

Enginn veit hve lengi áhrifanna af faraldrinum mun gæta né hve mikil og djúp efnahagslægð mun fylgja, en við verðum að búa okkur undir að það versta. Því er brýnna en nokkru sinni fyrr að horfa til tækifæra sem blasa við í aukinni grænmetisframleiðslu, matvælaiðnaði, listum og menningu svo eitthvað sé nefnt. Setja vinnu gegn loftlagsvá í forgang og styðja þau verkefni sem búa okkur betur undir tæknibyltinguna sem er nú þegar hafin. Styrkja vinabönd og viðskiptatengsl við nágrannaþjóðir.

Við stöndum í auga stormsins þessa dagana. Við verðum að standa saman, finna skjól og standa af okkur storminn. Ég skora á sveitarstjórnarmenn að standa þétt saman og sækja ákveðið þær bjargir sem ríkið getur veitt. Ríkisstjórnin og þingmenn Suðurkjördæmis verða að gera betur.

Ég vona að ykkur heilsist öllum vel og að þið virðið tilmæli Almannavarna og landlæknis. Takmarkanir eru nauðsynlegar um stund en lífið heldur áfram og við finnum okkar farveg aftur þegar faraldurinn er genginn yfir.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi

 

Nýjar fréttir