6.1 C
Selfoss

Kóngsins Köben

Vinsælast

Hópur af krökkum í dönsku áfanga úr FSu fór á dögunum í ferðalag til Kaupmannahafnar. Um var að ræða 32 nemendur ásamt þremur kennurum og stóð ferðin yfir í fimm daga. Nemendurnir skipulögðu ferðina á eigin spýtur frá byrjun til enda, við fengum tvær kennslustundir í hverri viku og kom á óvart hvað þetta var mikil vinna. Í kennslustundunum voru ákveðin flug, valið hótel, búið til reglur og svo margt annað sem þarf að ákveða þegar farið er í svona hópferð. Það var ekki alltaf auðvelt að komast að sameiginlegri ákvörðun en allir í hópnum fengu að segja sína skoðun. Það er allavega hægt að segja að margbreytileiki hópsins lét oft ljós sitt skína, sem betur fer komumst við alltaf að lokum að niðurstöðu.

COVID-19 hafði auðvitað áhrif á ferðina okkar eins og líf okkar allra. Faraldurinn var tiltölulega nýkominn til Íslands þegar við voru að leggja af stað í ferðina. Það voru efasemdir um hvort skynsamlegt væri að halda út og þurfti til dæmis að sannfæra skólameistara okkar sem fannst hugmyndin vægast sagt vafasöm. Það var á endanum tekin ákvörðun um að fara og einkenndu handþvottar og sprittlykt einkum ferðina. Allir héldu þó ró sinni úti og við létum þetta lítið á okkur fá á meðan ferðinni stóð. Hótelið okkar lokaði þó einungis 10 dögum eftir að við fórum þaðan, þannig allir voru himinlifandi að þetta skildi allt hafa sloppið svona líka djöfull vel.

Þegar út var komið á fimmtudeginum var ýmislegt gert og margir mismunandi staðir skoðaðir strax. Við byrjuðum á að kaupa okkur öll okkar eigið „Rejsekort“ og gátum því ferðast óhindrað með almenningssamgöngum þegar okkur langaði til. Eitt af verkefnum ferðarinnar var að þjálfast í að komast og rata um Kaupmannahöfn á eigin spýtur. Hostelið var staðsett hjá Kongens Nytorv í hjarta miðborgarinnar og var stutt rölt í almenningssamgöngur. Við tókum mikið af myndum og myndskeiðum enda annað verkefni að búa til lítið myndband um ferðina þegar heim var komið.
Föstudagurinn var tekinn snemma og fór hópurinn í lestarferð til Gerlev Idræthøjskole sem er rétt hjá Slagelse. Þar fengum við að skoða skólann hátt og lágt og kynnast hvernig lífið er í íþróttalýðháskóla. Þegar heim var komið eyddum við tímanum ýmist í að versla, ferðast um borgina, skoða kennileiti eða einfaldlega að njóta. Nemendur skiptust á að taka manntal á kvöldin og haldnir voru umræðufundir daglega þar sem fyrirfram ákveðið dagskipulag var endurskoðað.

Á laugardaginn skoðuðum við Nyhavn og löbbuðum yfir til Christianiu sem er fríríki innan Danmerkur og fundu margir fyrir miklu menningarsjokki við að koma þangað. Næst var ferðinni heitið á Carlsbergs Glyptotek sem er stórt menningarsafn í Kaupmannahöfn. Safnið inniheldur ýmsa listmuni frá margskonar menningarheimum og löndum.
Það var frjáls tími á sunnudaginn og skipti hópurinn sér svolítið upp. Einn hópur skoðaði Litlu Hafmeyjuna og Amalíuborg, heimili drottningarinnar. Aðrir tóku lest og fóru í verslunarmiðstöð á meðan enn aðrir fóru á söfn eða útsýnisstaði. Um kvöldið fór svo allur hópurinn saman út að borða. Mánudagurinn var heimferðardagur og hópurinn naut síðustu stundanna saman í Köben en þó voru flestir spenntir að komast heim til Íslands.
Við tókum öll ýmislegt með okkur úr þessari ferð, sem var bæði skemmtileg og gefandi á ýmsu vegu. Margir hafa nefnt hversu veraldarvanir þeir eru orðnir og einn af kennurunum, hann Sverrir Geir okkar, sagði með bros á vör að hann taldi sig orðið rata betur þar en í Reykjavík. Þetta var dásamleg ferð og allir skemmtu sér konunglega í Kóngsins Köben.

 

Nýjar fréttir