6.7 C
Selfoss

Samtök sunnlenskra Sveitarfélaga halda úti ráðgjafaþjónustu til fyrirtækja

Vinsælast

Á þeim sérstöku tímum sem nú ganga yfir samfélagið munu Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS), nú sem endranær, veita ráðgjöf til fyrirtækja og einstaklinga í rekstri. Í samtali við Bjarna Guðmundsson, framkvæmdastjóra SASS, kemur fram að þjónustan sé fjölbreytt og reynt sé að vinna með fyrirtækjum og einstaklingum í rekstri til að komast í gegnum skaflinn. „Ráðgjafarnir okkar veita fulla þjónustu, en þjónustan er gjaldfrjáls upp að vissu marki. Þessa dagana fer þjónustan fram í gegnum síma, tölvupóst og/eða með fjarfundarbúnaði.“

Heimasíða SASS miðlægur grunnur inn í aðgerðapakkann

Þegar svona stendur á er erfitt að átta sig á öllum þeim úrræðum sem standa til boða. Það getur verið frumskógur fyrir litla atvinnurekendur að kynna sér málin og finna leiðirnar. Á heimasíðu SASS (sass.is) er þessum leiðum haldið til haga, til einföldunar fyrir fólk. „Við vitum að fjöldi fyrirtækja er í óvissu með sinn rekstur. Stjórnvöld hafa kynnt úrræði til að reyna að koma til móts við fyrirtæki og einstaklinga. Eins og ég sagði eru ráðgjafarnir til þjónustu reiðubúnir. Svo munum við halda úti flipa á heimasíðunni þar sem finna má helstu upplýsingar sem tengjast aðgerðum ríkisstjórnarinnar og annarra til fyrirtækja og stofnana í tengslum við faraldurinn. Flipinn verður uppfærður reglulega í takt við þær breytingar á hverjum tíma,“ segir Bjarni.

Mikilvægt að heyra frá grasrótinni

Í samtali við Bjarna kemur fram að mikilvægt sé fyrir ráðgjafa á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga að heyra frá grasrótinni. „Við hvetjum aðila á okkar svæði að hafa samband. Hvort sem það er til að fá ráðgjöf, spyrjast fyrir eða segja okkur af stöðunni hjá sér. Það hjálpar okkur að miðla sem bestum upplýsingum til stjórnvalda á Suðurlandi hverju sinni“, segir Bjarni að lokum.

 

Nýjar fréttir