-1.6 C
Selfoss

Allt sem er fjar, fjar, finnst mér vera fallegt, fyrir vin minn…

Vinsælast

Það er ekki hægt að láta deigan síga eða fella niður lykkju þótt umhverfi fyrir nána hittinga eins og vinkonuhópa sé ekki eins og best verður á kosið. Sei, sei nei. Allavega fréttum við af dugmiklum konum sem ákváðu að skella saman í „fjarsaumaklúbb“. Já, þið lásuð það fyrst í Dagskránni, Fjarsaumaklúbbur. Spjallið, prjónaskapurinn og jahh snakkið þarf ekki að vera langt undan þótt einhverjir kílómetrar skilji að. Sædís Ósk Harðardóttir spjallaði við blaðamann með fjartækninni og við fræddumst um málið. „Við bjuggum á tímabili allar á Eyrarbakka. Nú erum við dreifðar og búum á Eyrarbakka, Selfossi, Reykjavík Mosfellsbæ og Borgarnesi,“ segir Sædís aðspurð um meðlimi vinkonuhópsins.

Langaði að heyra betur í hver annarri „læf“

Tæknivætt skal það vera, en enginn ógjörningur. Hvernig datt ykkur til hugar að vera með svona klúbb á netinu? „Hugmyndin að Covid-klúbb eða fjarsaumaklúbbnum kom upp á spjalli okkar á milli á Facebook. Við erum allar mis mikið heima og í vinnu, sem og í alls konar aðstæðum vegna Covid-19, eins og gengur og gerist á meðal almennings og okkur langaði að heyra betur hver í annarri „læf“ til að heyra hvernig lífið væri hjá hinum. Auðvitað er hægt að spjalla í textaskilaboðum, eins og við erum duglegar að gera, en þegar „læf“ samskipti eru orðin fátíðari þá er þörfin meiri fyrir alvöru spjall. Ein okkar hafði nýverið verið á fundi á Zoom og datt þess vegna í hug þessi snilldar hugmynd – hvort við ættum ekki bara að henda í Zoom saumaklúbb! Allar vorum við meira en til í það,“ segir Sædís.

Tæknimálin þurfa ekki að vera flókin

Eruð þið tæknitröll eða er þetta ekkert mál? „Ein okkar hafði nýverið verið á fundi á Zoom og datt þess vegna í hug þessi snilldar hugmynd – hvort við ættum ekki bara að henda í Zoom saumaklúbb! Allar vorum við meira en til í það, þótt þekking okkar á forritinu væri nú ekki mikil, og önnur stakk upp á kvöldi og tímasetningu og þar með var þetta ákveðið. Miðað við allt og alla þá gekk þetta mjög vel og allar náðu að tengjast inn og langt er síðan við vorum ALLAR mættar í klúbb. Það er kannski líka rétt að benda á það að ein úr hópnum skildi nú ekki hvaða vesen þetta væri með að hringjast á í gegnum Zoom og opnaði myndskilaboðin á spjallinu okkar (á FB) og þar með færðist fundurinn okkar þangað og það er náttúrulega lang auðveldasta leiðin,“ segir Sædís.

Hefbundið saumaklúbbstilbehør á sínum stað

Nú hefur maður orðið þess áskynja í gegnum þykka veggi sem umlykja gjarna saumaklúbbana að þar sé lykilatriði að vera með eitthvað á boðstólum til að maula. Hvernig fór það? „Margar okkar höfðu undirbúið sig og voru með eitthvað gott að nasla eða drykk í glasi og kertaljós sáust víða. Við mælum svo sannarlega með þessu fyrir aðra klúbba og hvers kyns félagsskap. Heilræðið er kannski að hafa fundarstjóra.“ Og er þetta til eftirbreytni eða nýbreytni öllu heldur? „Upplifunin var a.m.k. mjög góð og gott að geta átt notalega stund saman þrátt fyrir erfiðar aðstæður í samfélaginu.“

Nýjar fréttir