8.4 C
Selfoss

Það vorar á ný

Vinsælast

Gangur samfélags okkar hefur raskast mjög á síðustu vikum. Frá sjónarhóli okkar sem stöndum að handboltastarfinu þá áttum við von á annasömum vikum, vikum átaka og uppskeru. Kvennaliðið okkar er að berjast um sæti í úrvalsdeild og karlarnir í einu af efstu sætunum í Olísdeildinni. Við minnumst viknanna fyrir ári þegar Selfossbær allur var vínrauður og stuðningurinn ómetanlegur. Börnin okkar ættu að vera að uppskera eftir vetrarstarfið, mótin og leikirnir framundan, gleði og sorg, foreldrar og aðstandendur að þátttakendur í ánægju og leikgleði barnanna.

Nú er staðan önnur, við lifum óvissutíma, æfingar fallnar niður, leikjum og mótum frest-að og ekki er vitað hvernig framhaldið verður. Við vonum að þegar vorar náum við að ljúka mótum vetrarins en það er enn óljóst. 

Áhrifin koma víða fram, börnin fá ekki útrás fyrir hreyfiþörfina með sama hætti og áður, taktur lífsins og samfélagsins er annar. Við svona aðstæður verðum við öll að sameinast í að verja þá sem veikir eru fyrir, fylgja ráðum og fyrirskipunum. Við þurfum líka að finna aðrar leiðir til að börnin okkar fái útrás og sem betur fer eru mörg tækifæri til þess bæði innan- og utanhúss. Þjálfarar, kennarar og við sem eldri erum þurfum að leggja okkar af mörkum og koma með dæmi, ráð og kennslu fyrir börnin.

Vandamál fylgja þessari stöðu, til dæmis stöndum við í handboltanum nú frammi fyrir því að tekjustreymi okkar af mótahaldi er horfið og þar með stór hluti af þeirri innkomu sem við þurfum á að halda til að reka starfið okkar. Þegar leikir og mót eru ekki haldin, hverfa líka tekjurnar. Við höldum ótrauð áfram og þurfum að leggja meira í fjáraflanir á næstunni. Dæmi um það er sala á klósettpappír og eldhúsrúllum sem nú stendur yfir ásamt árlegu vorhappdrætti okkar í apríl.

Þegar þessi óáran verður afstaðin getum við vonandi sem flest tekið með okkur minningar um samveru og góðar stundir. Vonandi getum við flest fundið eitthvað jákvætt við þessa erfiðu reynslu, sagan sýnir að við Íslendingar erum góðir í að þjappa okkur saman þegar á reynir. Þegar vorar á ný kemst samfélagið vonandi aftur í nýjan og betri takt, börn og fullorðnir fá útrás í heilbrigðri hreyfingu, íþróttastarfið blómstrar og sigrar vinnast. Vonandi sjáumst við þá sem flest í íþróttahúsunum og á völlunum, í hreyfingu, að hvetja börnin okkar og búa til nýjar, góðar minningar. 

Þórir Haraldsson,
formaður handknattleiksdeildar Umf. Selfoss.

Nýjar fréttir