3.9 C
Selfoss

Hvaða úlf ætlar þú að fóðra?

Vinsælast

Ég er þakklát fyrir að vera Íslendingur. Þessa dagana er ég þó líklega stoltari en nokkru sinni fyrr. Það er magnað að sjá hvernig lítil þjóð vinnur saman á tímum sem víða erlendis er kallaður pandemic en á íslensku heimsfaraldur. Ég er þakklát fyrir Víði, Þórhall, Ölmu og alla þá sem sitja blaðamannafund dag eftir dag til þess að koma réttum og skýrum upplýsingum til okkar (almennings). Þetta er ekki öfundsverð staða sem þau eru í og sem aldrei fyrr þurfa þau á hvatningu okkar að halda. Góðum kveðjum, þakklæti og bæn.

Í þessum aðstæðum er ég mjög hugsi. Mig langar til þess að hvetja alla sem glíma við ótta að takast á við aðstæður af æðruleysi og skynsemi. Mig langar til þess að hvetja foreldra, kennara og alla þá sem koma að því að annast börn að vanda orðaval sitt, brosa og halda ró sinni. Ég veit að langflestir gera það en ég veit líka að úti í samfélaginu okkar er fullt af fólki sem bregst við í ótta og kvíða. Þegar við upplifum ótta koma líkamleg einkenni sem geta gert það að verkum að við bregðumst við aðstæðum á rangan hátt. Það hefur til dæmis sést í því hversu margir hafa verið að hamstra klósettpappír. Það er ekkert rökrétt í því að hamstra klósettpappír í þessum aðstæðum. Eins og einn vinur minn skrifaði á Facebook, “Ef þið teljið ykkur þurfa 100 klósettpappírs rúllur fyrir 2. vikna einangrun þá er þetta eitthvað annað en Corona vírus”.

Ég er ekki að gera lítið úr óttanum. Ég hef oft upplifað ótta í lífi mínu. Ég hef oft upplifað hann svo sterkt að ég fær verk í magann, hjartað pumpar hraðar og mig langar að flýja. Mitt í óttanum vill stjórnsemi oft taka völd af því að okkur getur liðið illa þegar að við höfum ekki stjórn á aðstæðum. Þess vegna fylgir oft ótti óvissuástandi. Kórónavírusinn er hér og þú ert á varðbergi. Það eru allskonar kemísk efni sem streyma í gegnum líkama þinn og þú flýtir þér í búðina til kaupa klósettpappír. Stoppaðu! Hugsaðu! Ekki bregðast strax við óttanum. Gefðu þér 90 sekúndur. Þú getur fundið fyrir óttanum, horfst í augu við hann og svo finna hvernig hann hverfur. Ef hann hverfur ekki þá er mikilvægt að þú reynir að greina hugsanir þínar. Hugsanir hafa ótrúlegt vald yfir líkama okkar og viðbrögðum okkar.  Það besta sem þú getur gert til að takast á við óttann þessa dagana er að greina hugsannir okkar og taka stjórn á þeim. Byrjaðu á því að fylgjast með viðbrögðum þínum þegar næsta COVID 19 fréttatilkynning kemur eða næsta samfélagsmiðla umfjöllun. Fylgstu með og hugsaðu um tilfinningaleg og líkamleg viðvörunarmerki sem þú ert að upplifa. Veldu síðan beina huganum að því sem þú getur verið þakklát/ur fyrir. Að hugsa rökrétt. Að viðurkenna óttann.  Þú getur haft stjórn á hugsunum þínum. En þú þarft að vera bregðast við á meðvitaðan hátt.

Við “fullorðna” fólkið þurfum að halda ró okkar. Við þurfum að vera skynsemisröddin, rödd jafnvægis, rödd æðruleysis og rödd kærleikans. Ég hef fulla trú á því að við sem þjóð munum koma sterkari út úr þessum heimsfaraldri ef við höldum áfram að standa saman, iðka þakklæti og hlýða  þeim fyrirmælum sem okkur eru gefin.

Að lokum við ég enda á þessari frábæru sögu sem passar svo vel við á tímum sem þessum.

Einu sinni var gamall maður sem var að kenna barnabarninu sínu á lífið. Hann sagði við barnabarnið “Það er bardagi í gangi innra með mérr,“. „Þetta er hræðileg barátta og hún er á milli tveggja úlfa. Einn er vondur – hann er reiði, öfund, sorg, eftirsjá, ótti, græðgi, hroki, sjálfsvorkunn, sektarkennd, gremja, minnimáttarkennd, lygar, falskt stolt og eigingirni. “ Hann hélt áfram, „Hinn er góður – hann er gleði, friður, kærleikur, von, æðruleysi, auðmýkt, góðvild, velvilji, hluttekning, örlæti, sannleikur, samúð og trú. Sami bardagi er að gerast inni í þér – og inni í hverri einustu manneskju. “ Barnabarnið hugsaði um það sem afi gamli hafði sagt í eina mínútu og spurði afa sinn síðan: „Hvaða úlfur mun vinna?“

Þá sagði gamli maðurinn : „Sá sem þú fóðrar.

Hvaða úlf ætlar þú að fóðra í gegnum þennan heimsfaraldur?

Til þess að fóðra góða úlfinn getur þú sýnt öðrum kærleika, talað uppörvandi orð inn í líf annarra. Þú getur lesið uppbyggjandi efni, æft þig í djúpöndun (anda inn á fimm, halda andanum inni á fimm og anda út með munninum á fimm), horft á skemmtilega kvikmynd, farið í göngutúr, stundað líkamsrækt, iðkað bænalíf (æðruleysibænin er mögnuð), hugleitt, spjallað við vini og ættingja, hlustað á uppbyggjandi hlaðvörp, dvalið í þögn, dansað (mæli með body groove á youtube) og skrifað niður þrennt sem þú ert þakklát/ur fyrir á hverjum degi.

Ég hvet þig til þess að fylgjast með einstaklingum á samfélagsmiðlum sem eru að koma jákvæðum skilaboðum til almennings. Einstaklingum sem vilja ekki ala á ótta heldur fóðra góða úlfinn. Ef þú vilt fylgja mér á samfélagsmiðlum þá held ég úti facebook síðunni Einfaldara líf og Instagram reikningnum gunnastella.

Kærleiks „blikk“
Gunna Stella

 

 

 

Nýjar fréttir