-6.1 C
Selfoss

Ég er alltaf að reyna að virkja fólk til að sækja menningarviðburði

Vinsælast

Í Stokk Art Gallery á Stokkseyri er listamaðurinn Alda Rose Cartwright með sýningu sem hún kallar Misseri. Síðasti dagar sýningarinnar verður næstu helgi í Stokk Art Gallery á Stokkseyri þann 29. febrúar nk. Þá mun Alda, samhliða því að sýna verk sín, sýna fólki hvernig hún vinnur þau milli kl. 15 og 18. „Það er dálítið flókið að útskýra það fyrir fólki hvernig ég vinn, en einfaldara að sjá það. Ég hvet alla til að koma og sjá hvernig þetta er gert. Þetta er mjög gaman.“ Við kíktum í kaffi til Öldu og ræddum um listina og lífið.

Rauður þráður í verkunum

Aðspurð um verkin segir Alda þau séu grafíkverk sem hún hafi gert yfir langt tímabil. Verkin spanni í raun hennar feril frá því að hún fór í nám. „Ég mála líka með olíu og vatnslitum en ég ákvað að hafa sýningu eingöngu á grafíkverkunum mínum í þetta sinn. Það er dálítið gaman fyrir mig að sjá hvernig upphafið var og hvernig þetta hefur breyst og þróast í gegnum tíðina. Sýnir svolítið hvað ég hef verið að pæla á hverjum tíma. Þá kom mér smá á óvart að mér hefur alltaf fundist ég vera dálítið úti um allt sem listamaður með hugmyndir en þegar ég sé öll verkin saman þá er einhver heild yfir þeim þó þau séu gerð á ólíkan hátt,“ segir Alda.

Bandaríkin, Reykjavík og Stokkseyri

Alda segir að hún sé fædd í Bandaríkjunum og hafi búið þar til fimm ára aldurs. Þá hafi hún flutt heim til Íslands. Hún fór þó aftur til San Fransico í listaháskóla og lærði grafík og málun. Eftir heimkomuna fór hún í nám listgreinakennslu og útskrifaðist með leyfi upp á það árið 2012. Alda bjó í Reykjavík, en eins og margir, flúði hátt húsnæðisverð í borginni. Þau hjónin fóru oft austur fyrir fjall í bíltúra og þá gjarna í bæina við ströndina. Það varð úr að þau fundu sér húsnæði sem þeim leist á og tóku ákvörðun um að flytja sig frá borginni út á land. Á Stokkseyri líður þeim vel og þykir umhverfið, fólkið og náttúran heillandi. Við ræddum við Öldu muninn á því að vera listamaður í borg eða úti á landi.

Á landsbyggðinni er þetta öðruvísi

Aðspurð segir Alda finna ákveðinn mun. „Já, það er munur. Í Reykjavík er auðveldara að nálgast listina. Maður fer oftar á söfn og sýningar og nær auðveldlega til annarra listamanna. Þá er auðveldara að vera með námskeið eða verkefni á stærri markaði, svona eins og silkiþrykknámkeið. Hér er það kannski dálítið erfiðara og maður þarf dálítið að hafa fyrir verkefnunum sínum. Kosturinn er sá að ég er kominn með gott rými til að vinna í og ég hef meiri sveigjanleika til að vinna í listinni því það er ekki jafn mikið hark hérna. Ég get unnið í skertu starfshlutfalli við annað og sinnt listinni meðfram því sem dæmi.“

Nauðsynlegt að gera listina aðgengilega

Þegar við spjöllum áfram ómar sú hugmynd að fá fólkið út úr húsum sínum. Líkt og gjarna er talað um með ákveðinni fortíðarþrá þegar þurfti að fara í bankann, búðina og fleira og fólk var á ferðinni og hittist. Það eru margir að tala um að gamli bæjarbragurinn sé horfinn. Við erum sammála um að hún megi gjarna koma aftur. Öldu langar að virkja fólkið í gegnum listina, til að koma, eiga spjall eða bara hittast. „Mig langar til að listin sé aðgengilegri en hún er hér á Suðurlandi. Listin er fyrir alla. Það eiga allir að geta komið og notið listarinnar, eða ekki og haft skoðun á henni, eða ekki. Ég er alltaf að reyna að virkja fólk til að sækja menningarviðburði. Það er svo frábært þegar fólk kemur, bara til að kíkja eða skoða eitthvað sem það er ekki vant að upplifa dagsdaglega.  Eina sem þarf er opinn hugur og löngun til að kíkja út og skoða eitthvað nýtt,“ segir Alda að lokum.

Nýjar fréttir