0.6 C
Selfoss

Heimboð til Félags eldri borgara í Hveragerði

Vinsælast

Á dögunum barst okkur heimboð í Félag eldri borgara í Hveragerði. Markmiðið var að kynnast starfi félagsins. Það er óhætt að segja að þar sé afar blómlegt og öflugt starf, hvar allir geta fundið sér eitthvað við sitt hæfi. Á móti okkur tók formaður félagsins, Kristín Dagbjartsdóttir sem fræddi okkur um starfsemina og gildi þess að taka þátt í starfinu með hvaða hætti sem það er. Andinn í húsinu er góður og ljóst að ákveðinn fjölskyldubragur er á starfinu og hlýlegt viðmót innandyra.

Fyrst og fremst afþreyingarfélag

Þegar blaðamann bar að garði voru félagsmenn niðursokknir í Boccia og spjalli um daginn og veginn. Á borði í aðstöðunni var búið að koma fyrir útskornum hlutum eftir eldri borgara sem nýta sér útskurðaraðstöðuna í handverkshúsinu. Enginn skortur er á listfengi í þeim munum sem þar voru til sýnis. Á þessu tvennu má sjá að mikið er um að vera og starfið fjölbreytt.

Frá stofnu félagsins hefur stefnan verið sú að félagið sé fyrst og fremst afþreyingarfélag. Að sögn Kristínar skipti það sér ekkert af pólitíkinni. Það þýðir að öll áherslan er lögð á það að hafa gott og öflugt afþreyingarstarf og við spyrjum Kristínu út í það. Kristín telur upp fjölda atriða sem eru í gangi hjá félaginu: „Boccia, stólaleikfimi, pútt uppi í Hamarshöllinni, línudans og sundleikfimi í Heilsustofnuninni. Þá erum við með aðgang að handavinnuhúsi bæjarins fyrir handverk eins og tálgun og útskurð.“ Eitt af því sem Kristín talar um sem mikilvæga afþreyingu er gönguhópurinn sem heldur til á veturna í Hamarhöllinni fjarri hálku og kulda. Þegar betur viðrar fer hópurinn svo út. Það þýðir að ekki þarf að setja veðrið fyrir sig þegar gengið er sér til heilsubótar. Þá eru fastir fyrirlestradagar t.d. næringarfræðingar sem koma þar og ræða við fólk. Leikhúsferðir, vorferðir og í raun allt sem hugurinn girnist. Það er því af nógu af taka fyrir þá sem vilja fara örlítið úr viðjum vanans og kynnast fólki.

Hér er tækifæri til að kynnast öðrum

Ég spyr Kristínu hvers vegna mikilvægt sé fyrir fólk að taka þátt í félaginu og starfinu. „Í stað þess að sitja heima. Þá kemur þú hér og kynnist fólki. Þá er alltaf eitthvað sem þú getur valið um að gera hér hjá okkur í stað þess að sitja einn heima.“ Í félaginu nú eru um 245 meðlimir. Yfir vikuna eru svona 100 til 120 sem mæta í hina ýmsu hópa.

Við tölum aðeins um einangrun og gildi þess að stíga út úr því. Kristín nefnir í því samhengi að það séu til dæmis fjölmargir aðilar sem eru að flytja annarsstaðar frá og hafa ekki búið hér fyrir austan. „Það er mikið af nýju fólki hér í Hveragerði og eins á Selfossi. Það fólk kemur svo hingað í >FEBH því að hér er kannski tækifæri til  að kynnast öðrum. Þetta er líka félagsmiðstöð má segja. Nýbúar eru margir á þessum svæðum og þetta fólk þekkir kannski engan,“ segir Kristín.

Mikilvægt að sporna við og hreyfa sig

Það er áhersla á hreyfingu hjá félaginu eins og sjá má á gönguhópnum og samstarfi FEBH við Hveragerðisbæ. Á dögunum fór gönguhópurinn í 8 vikna námskeið undir stjórn þjálfara. Námskeiðið er undir flaggi Heilsueflandi samfélags og var þátttakendum að kostnaðarlausu en það var ætlað 60+. Aðspurð um þetta segir Kristín: „Við erum á þessu þriðja aldursskeiði og það er svo mikilvægt að hreyfa sig og vera með rétta næringu til þess að sporna við. Það verður hægfara vöðvarýrnun eftir því sem við  eldumst. Það má koma í veg fyrir það með réttu mataræði og hreyfingu,“ segir Kristín að lokum. Það er óhætt að hvetja eldri borgara í Hveragerði til þess að kynna sér starfið. Af nægu er að taka. Þó ekki væri nema til að fá sér eins og einn kaffibolla og spjalla um daginn og veginn!

Nýjar fréttir