1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Það er nánast vandræðalegt hversu stefnulaus ég er í bókavali

Það er nánast vandræðalegt hversu stefnulaus ég er í bókavali

0
Það er nánast vandræðalegt hversu stefnulaus ég er í bókavali

Helga Sighvatsdóttir er uppalin í Biskupstungum, bjó um tíma í Reykjavík, en flutti á Selfoss 1995. Hún er gift Björgvini E. Björgvinssyni áfangastjóra við FSu og eiga þau einn son. Helga lauk blokkflautukennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1986 og hefur starfað sem blokkflautukennari æ síðan – fyrst við Tónmenntaskóla Reykjavíkur og svo við Tónlistarskóla Árnesinga. Helga varð aðstoðarskólastjóri TÁ árið 2000 og tók við sem skólastjóri fyrir tveimur árum. Áhugamálin eru fjölmörg svo sem útivist og gönguferðir, listir af öllum toga og lestur góðra bóka.

 Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er að byrja á bók Páls G. Jónssonar um Flateyjardalsheiði. Páll var bóndi í Garði í Fnjóskadal, kennari og landpóstur á fyrri hluta 20. aldar. Hann þekkti Flateyjardalsheiði manna best og skrifaði bókina árið 1944 en þá var öll byggð á Heiðinni farin í eyði.

Tvær ástæður eru helstar fyrir bókarvalinu og spurning hvora skuli nefna á undan. Það sem ýtti lestrinum af stað var áhugi fyrir gönguferðum um þessar slóðir. Í tengslum við það las ég fyrir nokkrum árum bók Theodór Friðrikssonar, Í verum, þar sem Theodór segir frá lífshlaupi sínu í Fjörðum og á Flateyjardal. Í framhaldi af lestrinum fór gönguhópurinn minn í dásamlega gönguferð um Fjörður. Hin ástæðan eru fjölskyldutengsl mín við Fnjóskadalinn, en afi minn og amma, Arnór Sigurjónsson og Helga Kristjánsdóttir voru bændur á bænum Þverá í Fnjóskadal á árunum 1942 – 1951. Pabbi var 16 ára þegar fjölskyldan flutti í Þverá. Þar heillaðist hann af búskapnum og þótti alltaf vænt um eyðibyggðirnar og fjöllin norður af Þverá. Og þangað kom mamma frá Þýskalandi 1949. Ég hef því lengi haft augun opin fyrir lesefni sem tengist þessum slóðum.

En hvers konar bækur höfða helst til þín?

Alls konar bækur, úr öllum áttum. Það er nánast vandræðalegt hvað ég er stefnulaus í bókavali. Sem sýnishorn af því sem þar hefur runnið í gegn síðasta árið má nefna bækur um náttúru og náttúruvernd (Húsið okkar brennur um Gretu Tunberg, Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ og Flóru Íslands eftir Hörð, Jón Baldur og Þóru Ellen), nokkrar ljóðabækur (síðast Öld fíflsins eftir Gunnar Dal), bók um hreyfingu sem ég fékk í kaupbæti við önnur bókakaup (Allra meina bót eftir Hansson og Sundberg), íslenskar skáldsögur (s.s. Afleggjarann, Ör og Rigningu í nóvember eftir Auði Övu og Innflytjandann eftir Ólaf Jóhann), ævisögur (Die Trapp-Familie – Die wahre Geschichte hinter dem Welterfolg (Hin sanna saga á bak við heimsfrægð) eftir Jelinek og Moser-Schuöcker og Heiðu – fjalldalabóndann eftir Steinunni Sigurðardóttur), enskar kiljur (A Secret Garden eftir Fforde og No Place Like Home eftir Macomber), þýskar kiljur (Diebwies eftir Diwiak og Herz über Kopf eftir Platt) og ítalska kennslubók (La casa sulla scogliera eftir Cinzia Medaglia). Sem sagt fullkomin óreiða.

Ertu alin upp við bóklestur?

Já, ég var alin upp við lestur og allskonar bækur fylltu bókahillur. Pabbi las mjög mikið og það var eiginlega sama hvað fyrir honum varð, því áhuginn lá víða. Má nefna þjóðlegan fróðleik, sagnfræði, skáldsögur, myndlist, náttúrufræði, vísindi, íþróttir og fréttir. Þetta var því allt að finna í hillunum heima. Mamma var líka óþreytandi að lesa fyrir okkur börnin og þar sem fjöldi barna var oft nokkur yfir sumarmánuðina var hlustað á kvöldlestur langt fram á unglingsár. Sum systkina minna voru mun meiri lestrarhestar en ég og gleyptu í sig heilu doðrantana á meðan ég fór hægar yfir.

Áttu þér einhverja uppáhaldsbók?

Ég á ekki eina uppáhaldsbók frá uppvextinum en hafði gaman af ævintýrabókum Enid Blyton og Grimmsævintýrum. Bækurnar um Hildu eftir Sandwall-Bergström las ég oftar en einu sinni og svo þegar ég lærði þýsku 12 ára, heillaðist ég af bókum Erich Kästner. Þetta voru Das doppelte Lottchen (Tvöfalda Lotta) sem fjallar um tvíburasystur sem finna hvor aðra og Das fliegende Klassenzimmer (Fljúgandi skólastofa). En það má kannski nefna eina bók sem ég ólst upp við og glugga í flest kvöld enn þann dag í dag. Það er ótrúlega fallega myndskreytt nótnabók sem heitir Frohes Singen, frohes Klingen (Gleðisöngur, gleðihljómur), með þýskum þjóðlögum og jólalögum. Vatnslitamyndirnar sem prýða bókina eru eftir Janusz Grabianski. Mamma spilaði reglulega á píanó upp úr bókinni og myndirnar skoðaði ég mikið, enda var bókin alveg komin úr bandinu. Ég fékk nýtt eintak af bókinni í afmælisgjöf fyrir nokkrum árum og spila upp úr henni flest kvöld. Þessi bók er algert gull.

En hvað einkennir lestrarvenjur þínar?

Þær eru mjög einfaldar. Ég les alltaf fyrir svefninn, og á ferðalögum eru bækur ómissandi. Það fylgir því sérstök sælutilfinning að byrja nýja bók í upphafi ferðar.

Hefur bók rænt þig svefni?

Já, það hefur komið fyrir. Man eftir þegar ég las ævisögu Mariu von Trapp, Die Trapp-Familie, sem er fyrirmynd kvikmyndarinnar The Sound of Music. Ég var illa sofin í skólanum daginn eftir.

En að lokum Helga, hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Ég hef aldrei leitt hugann að bókaskrifum, en mér dettur helst í hug barnabækur. Ekki þá í gegnum skriftir, heldur frekar í gegnum teikningar eða klippimyndir. Þar væri ég þá á sömu slóðum og áður, en ég myndskreytti bæði blokkflautukennslubókarina Ómblíða flautan og barnabókina Snillingar í Snotraskógi.

 

_____________________________________

Lestrarhestur númer 88. Umsjónarmaður Jón Özur Snorrason.