8.9 C
Selfoss

Gullspretturinn utanvega hlaup ársins 2019

Vinsælast

Gullspretturinn, hlaup í kringum Laugarvatn, var valinn besta utanvegahlaupið af hlaup.is og lesendum vefjarins annað árið í röð. Verðlaunin fyrir árið 2019 voru veitt nú á dögunum. Í flokki utanveghlaupa hafnaði Vesturgatan í öðru sæti og Laugavegshlaupið í því þriðja.

Gullspretturinn er ólíkur öðrum hlaupum að því leyti að þátttakendur þurfa að vaða ár, hlaupa úti í vatninu, gegnum mýri og eftir flóum. Hlauparar geta átt von á að mæta nautum og hrossum á leiðinni, jafnvel að verjast árás kríunnar á stöku stað. En skipuleggjendur stika leiðina daginn áður og passa sérstaklega upp á að verja hreiður, fuglabyggð og viðkvæma bakka. Einstök veðurblíða hefur fylgt Gullsprettinum og þá getur mýið látið á sér kræla. Keppendur koma þó skælbrosandi  í mark eftir þessa skemmtilegu þolraun og ekki fer brosið af þeim þegar uppgötva veitingarnar sem í boði eru. Nýbakað og ylvolgt hverarúgbrauð með smjöri og reyktum silungi frá Útey, skolað niður með Egils Gulli. Rúsínan í pysluendanum er svo bað í Fontana en aðgangur að heilsulindinni er innifalinn í keppnisgjaldi hlaupsins. Fyrirtæki úr héraði hafa  styrkt hlaupið með veglegum verðlaunum.

Mikil gleði og stemning hefur skapast í kringum Gullsprettinn. Undirbúningur, framkvæmd og frágangur eftir hlaupið er í höndum sjálfboðaliða og hjálpast þeir að við að gera alla umgjörð sem besta og heimilislegasta. Númerin sem hlauparar nota eru handskrifuð á léreft og eru notuð aftur og aftur. Undafarin ár hefur fjöldi þátttakenda verið takmarkaður við 300 manns og komast færri að en vilja.  Félagar í í Björgunarsveitinni Ingunni hafa verið okkur til halds og traust frá upphafi og fylgja hlaupurunum eftir á bát úti á vatninu. Eins eru alltaf nokkrir sprækir eftirfarar sem reka lestina.

Allur ágóði af hlaupinu hefur farið til góðgerðarmála eða annarra samfélagslegra verkefna. Björgunarsveitin Ingunn  hefur fengið fjárstyrki árlega, göngustígar við vatnsbakka Laugarvatns hafa verið lagfærðir, börn  – og unglingar hafa fengið styrki til íþrótta-  og læknisferða erlendis.

Ágóði af Gullspretti 2019 fór í að byggja bryggju við vatnið sem mikið var notuð í veðurblíðunni  í sumar.  Ferðalangar hafa hvílt lúin bein í stólnum á bryggjusproðinum og ekki sparað myndatökur. Stóllinn og bryggjan nú Instagram stjörnur …þessar stjörnur fóru að vísu illa í storminum 14. febrúar síðastliðinn en aðstandendur Gullsprettsins munu að sjálfsögðu endurreisa þær.

Gullspretturinn verður haldinn í sextánda skipti  13. júní næstkomandi og mun skráning fara fram á hlaup.is. Dagsetning skráningar veður auglýst á facebook-síðu Gullsprettsins og þar má sjá margar skemmtilegar myndir frá liðnum sprettum. Hlökkum til að sjá ykkur!

Fyrir hönd skipuleggjanda Gullsprettsins

Gríma Guðmundsdóttir

 

Nýjar fréttir