6.1 C
Selfoss

Framkvæmdir í nýja miðbænum á fullri ferð

Vinsælast

Framkvæmdum í nýja miðbænum miðar nú vel áfram þrátt fyrir erfitt veðurfar undanfarnar vikur. Tvö hús eru risin og er þar unnið innandyra að frágangi sex íbúða á annarri og þriðju hæð og atvinnuhúsnæði á jarðhæðum.

Þá er búið að steypa upp jarðhæð undir fjögur sambyggð hús sem standa saman vestan við hið nýja Brúarstræti skilja það frá aðaltorginu. Í þessari neðstu hæð, sem sést á myndinni, og snýr út að lægri hluta torgsins, svokölluðu veitingatorgi, verða tveir veitingastaðir og fyrir liggur að annar þeirra verður sjávarréttastaður sem bera mun keim af Tjöruhúsinu á Ísafirði. Á hæðinni fyrir ofan, sem snýr út að Brúarstræti, verða fjögur verslunar- og þjónusturými og sex íbúðir á þriðju hæð.

Þá er unnið að uppsteypu stærsta hússins í fyrri áfanga, sem er endurgerð hins upprunalega Mjólkurbús Flóamanna í formi menningarhúss þar sem verða stór sýning um íslenska skyrið, verslanir og veitingar.

Fjöldi manns á vegum verktakanna Jáverks og Borgarverks vinnur við uppbygginguna og undirbúning framkvæmda við önnur hús fyrri áfanga. Þá er umhverfishönnun miðbæjarins að ljúka en samkvæmt upplýsingum frá Sigtúni Þróunarfélagi eru grænar áherslur í fyrirrúmi til aukinnar skjólmyndunnar með trjám og öðrum gróðri.

 

Nýjar fréttir