1.1 C
Selfoss

Veðramót á Vetrarbraut

Vinsælast

Slegnar verða tvær flugur í einu höggi þegar nýr norðurljósagangur sem fengið hefur nafngiftina Vetrarbrautin og myndlistarsýning Hrafnhildar Ingu Sigurðardóttur Veðramót verður opnuð með pompi og prakt á Stracta hótel Hellu nk. föstudag 21.febrúar kl. 17:00 – 19:00.

Hreiðar Hermannsson eigandi Stracta hótels hefur lengi vel verið með norðurljósaganginn á teikniborðinu og fagnar því að nú hefur hann loksins litið dagsins ljós. En gangurinn mun auka mjög á gæði og þjónustu við gesti hótelsins.

Sunnan við Stracta hótel hafa tveir herbergisgangar risið á síðastliðnum árum sem hingað til hafa ekki verið tengdir aðalbyggingunni og gegnir gangurinn því stóru hlutverki fyrir heildarmynd Stracta þorpsins sem smá saman hefur verið að stækka síðan hótelið var opnað 2014.

Vetrarbrautin er hönnuð úr gleri og var hugmyndin sú að gestir hótelsins geti setið undir stjörnubjörtum himni og notið norðurljósanna innandyra án þess að standa úti á köldum vetrarnáttum. En einnig verður hægt að njóta kvöldhressingar, setjast til borðs með snarl eða tylla sér á gluggasillur gangsins sem hannaðar eru sem setubekkir.

Við gerð gangsins myndaðist rými sem tilvalið er sem sýningarými fyrir myndlistarmenn en heimamaðurinn Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir mun vígja rýmið með sýningunni Veðramót en hún er þekkt fyrir ótrúlega áhrifaríkar veðurfarsmyndir. Sýningin er sölusýning og mun verða opin gestum og gangandi fram í júní.

Hrafnhildur Inga er fædd og uppalin í Fljótshlíðinni þar sem hún eyðir löngum stundum og sækir því myndefnið mikið í veðurtilbrigði sem blasa við henni meðfram suðurströnd landsins. Móðir náttúra er viðfangsefnið og birtist oft á tíðum í sinni ógnvekjandi mynd þar sem jörð og haf mætast með sínum mikilfenglega krafti sem engin fær við ráðið. Málverk Hrafnhildar Ingu sýna hamslaust sjólag og dularfullar skýjamyndanir en draga mann samt að sér með ljósi og mýkt eins og á góðum dögum þegar móðir náttúra sínir okkur vægð og hlýju með geislum sínum.

Nýjar fréttir