8.9 C
Selfoss

Hittumst á gámavellinum

Vinsælast

Skaftárhreppur mun næsta árið taka þátt í tilraunaverkefni um breytta sorphirðu í samstarfi við Háskóla Íslands og ReSource International ehf. Þetta er gert til að mæta auknum kröfum stjornvalda um flokkun úrgangs.

Tilraunaverkefnið verður þannig að hreppnum er skipt upp í svæði og á hverju svæði verður mismunandi sorphirða. Á tveimur svæðum er engin sorphirða heim á heimilin og íbúar beðnir að koma með allt sitt sorp á gámasvæði. Á öðrum svæðum verður sótt heim á heimilin en mismunandi oft. Allir í Skaftárhreppi verða hvattir til að moltugera lífrænan heimilisúrgang og vonandi skilar það sér í enn fallegri görðum og gróðri en nú er.

Undirbúningur hefur staðið í nokkra mánuði þar sem aðilar frá Skaftárhreppi, Háskóla Íslands og ReSource International ehf. hafa rætt málin og velt upp hugmyndum. Sorphirðan breytist frá og með febrúar 2020 og var ákveðið var að halda íbúafund 29. janúar og kynna breytingarnar.

Var íbúafundurinn mjög vel sóttur, yfir 90 íbúar. Eva Björk Harðardóttir setti fundinn og hvatti fólk til að taka þátt í verkefninu með jákvæðum huga. Kostnaður við sorphirðu og sorpförgun væri mjög mikil og það væri til mikils að vinna að geta lækkað þann kostnað. Heimamenn munu alfarið sjá um umsjón sorpmála þetta ár, ekkert verður boðið út fyrr en búið er að finna út hvaða leið er heppilegust.

Karl Edvaldsson frá ReSource International ehf. fór yfir hugmyndirnar og svaraði spurningum. Karl kom með auga gestsins á fundinn og nefndi vegalengdir í Skaftárhreppi þar sem er jafn langt frá Álftaveri og austur í Fljótshverfi eins og er að skreppa frá Keflavík til  Hveragerðis. Þá eru ótaldir kílómetrarnir sem eru í Meðallandið og Skaftártunguna. Það er því til mikils að vinna að finna annað sorphirðukerfi en það að sækja heim á hvern bæ.

Ólafur Júlíusson, byggingarfulltrúi, Skaftárhrepps kemur til með að sjá um framkvæmd verkefnisins í hreppnum. Það þarf að ráða fólk, leigja bíla, kaupa gáma og tunnur og margt fleira. Þetta tekur tíma og verkefnið stendur og fellur með því að allir sýni ákveðna þolinmæði og láti vita þegar eitthvað vantar til að bæta úr því sem miður fer.

Og eins og einn fundargesta sagði þá verður þetta allt svo skemmtilegt þegar við förum að spjalla saman á gámavellinum og það verða til litlar félagsmiðstöðvar í hverju hverfi þar sem fólk hittist þegar það fer með sorpið á flokkunarbarinn.

Lilja Magnúsdóttir, kynningarfulltrúi Skaftárhrepps.

 

Nýjar fréttir