0.6 C
Selfoss

Uppáhaldsbækurnar mínar verða oft ástvinir mínir

Vinsælast

Anna S. Árnadóttir er fædd og uppalin á Selfossi en býr nú í Garðabæ. Hún hefur lokið kennaraprófi frá KHÍ og framhaldsnámi í spænsku við Háskóla Íslands Hún á tvær dætur og sjö barnabörn og helstu áhugamál hennar eru fjölskyldan, ferðalög og skemmtilegt fólk.

Hvað bók ertu að lesa núna?

Ég er að ljúka við að lesa Uppskriftabók föður míns eftir franska rithöfundinn Jacky Durand en hún kom út í fyrra. Mjög skemmtileg bók um dreng sem elst upp í franskri sveit og á sér þann draum að feta í fótspor föðursins sem er listakokkur en ekki að sama skapi geðprúður og hefur ekki sömu hugmyndir og sonurinn um framtíðina. Bókin fjallar um samband þeirra feðga og byrjar við banabeð föðursins, ilmar af frönskum sveitamat sem er eldaður mest af hjartans list og bragðlaukarnir leika stóra rullu. Verst að ég verð oft að taka mér hlé til að búa til eitthvað gott með lestrinum. Önnur bók sem ég var rétt að ljúka við á undan þessari er Tilfinningabyltingin eftir Auði Jónsdóttur og það þótti mér mjög áhugaverð bók, hreinskilin og skemmtilega opin reynslusaga konu sem deilir með okkur hinum á einlægan hátt. Listræn og lifandi og mikið sem hún á skemmtilegar vinkonur. Tilvitnun úr fyrri bókinni sem ég nefndi áður á ágætlega við hér: „Ævi mín er uppskrift sem fylgt er frá degi til dags með misjöfnum árangri.” Svo er ég með nokkrar góðar á náttborðinu sem ég glugga í mér til andlegrar uppbyggingar. Þar má nefna bók Eileen Caddy Ég er innra með þér, Living on Purpose eftir Dan Millman, The Hearth of Buddha Teaching eftir Tich Nhat Than og Yogabókina.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Alls konar bækur og ég veit fátt betra en að eiga alein stund með bók. Ég les mikið ferðabækur, ljóðabækur og alls konar uppbyggjandi bækur og svo hef ég líka mikinn áhuga á fornbílum. Ég les um trúmál, lífsgátuna, siðfræði, fræðibækur, ævisögur og ástarsögur en þó kannski minna í seinni tíð um það síðasttalda en Guðrún frá Lundi lítur þó reglulega við. Best þykir mér ef bókin skilur eitthvað eftir og að ég sé mjög leið yfir því að lestri hennar skuli vera lokið. Uppáhaldsbækur mínar verða oft ástvinir mínir. Ég lifi mig inn í þær og gleymi stund og stað.

Ertu alin upp við bóklestur?

Það var lesið fyrir mig sem barn en oftar voru okkur systkinum þó sagðar sögur. Pabbi lét mig oft lesa upphátt og við lásum ljóð hvert fyrir annað. Við lásum líka saman inn á snældur fyrir gamalt fólk sem hann þekkti og var farið að tapa sjón. Ég held ég verði að segja að uppáhaldsbækurnar mínar í bernsku hafi verið um Pollýönnu og bækur Astrid Lindgren og Enid Blyton. Mamma mín er mikill lestrahestur og við notuðum bókasafnið á Selfossi mikið. Ég fékk oft að velja fyrir hana bækur og alltaf þegar mér tókst að velja áhugaverða bók náði ég ekki sambandi við hana á meðan hún las hana. Ég er svo heppin að hafa erft þessa eiginleika frá henni, að geta einbeitt mér að bóklestri.

Hvað einkennir lestrarvenjur þínar?

Ég les alltaf á morgnana áður en ég fer á fætur í bók Eileen Caddy sem ég nefndi hér áður, dagleg heilræði sem gott er að hafa með sér inn í daginn. Yfirleitt les ég ekki mikið á daginn nema dagblöðin og einhverjar greinar sem tengjast vinnunni en alltaf áður en ég fer að sofa lít ég í bók. Ég er frekar gamaldags, vil frekar lesa bók en hlusta eða lesa af lesbretti.

Áttu þér einhverja uppáhaldshöfunda?

Já ég á nokkuð marga uppáhalds. Alexander McCall Smith og Precious Ramotswe kvenspæjari nr.1 í Botswana eru í miklu uppáhaldi og við lestur þeirra bóka lærði ég að drekka rauðrunnate. Ævintýrabækur Michael Ende get ég lesið endalaust og alltaf þykir mér gaman að lesa bækurnar hans Henning Mankell. Þá er Alkemistinn og skáldsögur Paulo Coelho ómetanlegar. Svo eru ótal margir íslenskir höfundar í uppáhaldi, Laxness auðvitað, Páll Skúlason, Árni Þórarinsson, Þórarinn Eldjárn svo ég nefni einhverja.

Hefur bók rænt þig svefni?

Já það er alvanalegt enda nógur tíminn til að sofa þegar maður getur ekkert annað.

En að lokum Anna, hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Ef ég gæti fókuserað á það væri ég örugglega alltaf að skrifa. Ég skrifaði reyndar eina barnabók í kennaraháskólanum með vinkonum mínum sem lokaverkefni um áhrif ævintýra á börn út frá kenningum Bruno Bettelheim sem var gefin út 1989 ef ég man rétt. Aldrei að vita hvað gerist þegar tíminn hægir á sér.

_____________________________________

Lestrarhestur númer 87. Umsjónarmaður hans er Jón Özur Snorrason.

Nýjar fréttir