7.3 C
Selfoss

Þegar hugmyndir fá vængi

Vinsælast

Ég elska þegar maðurinn minn segir við mig, “ég fékk hugmynd”. Það þýðir að hann hefur verið að spá og spekúlera og eitthvað skapandi og spennandi er í framkvæmd í huga hans. Hann hefur hæfileika til að sjá hluti fyrir sér áður en þeir verða og fyrr en varir er hann byrjaður. Byrjaður að breyta eldhúsinu, byrjaður að breyta skrifstofunni, búin að bæta við auka herbergi og svo framvegis. Ég fæ líka hugmyndir en ekki endilega eins og hann. Mínar hugmyndir tengjast því oftar en ekki hvernig hægt er að gera fjölskylduna samrýmdari, vinna að vexti og þroska fjölskyldumeðlima og annarra einstaklinga. Ég hef þörf fyrir að koma þeim hugmyndum sem ég fæ í orð og ég hef þörf til að fá annað fólk með mér í vegferð sem leiðir mig og aðra á betri stað.

Í dag var ég að hugsa umhversu mikilvægt er að leyfa hugmyndunum að fá vængi. Leyfa þeim að fá rými í huga okkar. Í huga mér kom myndlíkingin af lítilli lirfu sem þarf að vera í þögn og einveru þangað til einn daginn hún breytist í fallegt fiðrildi.. Þegar ég vel að taka mér tíma í þögn þá streyma hugmyndirnar fram og sumar þeirra fá vængi. Rétt eins og lirfan fær vængi eftir ákveðin tíma.

Í nútíma samfélagi grípum við oftar en ekki í símann ef okkur leiðist. Við kveikjum á sjónvarpinu eða útvarpinu og gefum okkur ekki tækifæri til að dvelja í þögninni. Það eru magnaðir hlutir sem geta gerst í þögn. Hugsanir koma upp á yfirborðið, hugmyndir fæðast og líf okkar getur breyst.

Eina nóttina vaknaði ég við það að ég fékk hugmynd. Hugmynd af netnámskeiði sem hafði mikil áhrif á starfsferil minn og vinnu. Námskeiðið fæddist þessa nótt og hugmyndin hélt fyrir mér vöku. En það er ekki gott að missa of mikin svefn. Því er nauðsynlegt fyrir okkur að gefa þögninni rými að degi til, til þess að hugmyndir og hugsanir fái að fæðast.

Hér koma nokkur dæmi um það hvernig þú getur leyft “þögn” að verða hluti af lífi þínu.

  1. Farðu í göngutúr án þess að hafa heyrnatól í eyrunum
  2. Vaknaðu á undan öðrum fjölskyldumeðlimum og sestu í uppáhalds stólinn þinn í nokkrar mínútur
  3. Slökktu reglulega á samfélagsmiðlum og öðru sem veldur þér áreiti. Mér finnst gott að gera þetta í 24 klst á viku. Ég kalla það 24:1
  4. Svæfðu símann þinn áður en þú ferð að sofa (leggðu hann frá þér og gerðu aðra hluti en að skoða símann fyrir svefninn).
  5. Farðu í gufubað úti í sundlaug, lokaðu augunum og dveldu í þögninni.

 

Það eru til ýmsar leiðir til að dvelja í þögn. Ég hvet þig til að gefa þér tíma til þess þó svo það sé ekki nema í nokkrar mínútur á dag. Áreitið er mikið í samfélaginu og því er nauðsynlegt fyrir okkur að taka okkur tíma til þess reglulega. Það er oft gott að byrja á nokkrum mínútum og bæta svo smám saman við.

Þagnarkveðja,

Gunna Stella

 

 

Nýjar fréttir