9.5 C
Selfoss

Það skiptir máli að sinna félagslífinu þegar maður eldist

Vinsælast

Starfsemi í Félagi eldri borgara á Selfossi er sannarlega blómleg. Í samtali við Guðfinnu Ólafsdóttur og Önnu Þóru Einarsdóttur, formann og varaformann félagsins kemur fram að markmiðið sé að hafa starfið fjölbreytt og þannig fram sett að fólk geti vel fundið eitthvað við sitt hæfi. „Innan vébanda félagsins eru um 700 einstaklingar. Fólk er á mismunandi aldri og með ýmis áhugamál. Þá er auðvitað stór hluti af starfseminni sá að fara út og hittast. Það skiptir svo miklu máli að sinna félagslífinu fyrir sálina,“ segja þær borsandi. Blaðamaður horfir dolfallinn á dagskrá vetrarins en það væri til að æra óstöðugan að telja allt framboðið upp.

Opnu húsin eru vinsæl

„Eitt af því vinsælla sem við erum með eru opnu húsin hjá okkur. Í síðustu viku var t.d. bóndinn og ljóðskáldið Harpa Rún Kristjánsdóttir, sem las fyrir okkur upp úr nýrri ljóðabók sinni. Guðrún Eva verður til dæmis næst hjá okkur og þá kemur Hjörtur Þórarinsson og segir frá Fjalla-Eyvindi.“ Það er óhætt að segja að dagskráin sé fjölbreytt og áhugaverð. Þegar talið verst að föstum námskeiðum félagsins segja þær nauðsynlegt að hafa hana sem fjölbreyttasta. Það sé liður í því að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Það er svo rétt að minna á það að framvegis verða opnu húsin kynnt í smáauglýsingadálkinum í hverri viku, þannig ætti enginn að missa af.

Stundaskráin ætti að vera uppi á ísskápnum

Stundaskráin er lykillinn að því að finna sér eitthvað við sitt hæfi, hvað sem það kann að vera. „Það er allt milli himins og jarðar. Frá handverki yfir í bridds, frá stólaleikfimi yfir í boccia og göngur. Þá er óátalið þær gæðastundir sem finna má í Hörpukórnum, en afmælisár kórsins er einmitt í ár, en hann verður þrítugur. Félagið sjálft verður svo fertugt á árinu og það verður eitthvað húllum hæ í kringum það á árinu.“ Við látum þetta verða lokaorðin í góðu spjalli okkar og hvetjum eldri borgara til að nýta sér það frábæra starf sem félagið hefur upp á að bjóða. -gpp

 

(FEB)

 

Nýjar fréttir