-1.6 C
Selfoss

Framkvæmdir við hreinsistöð hefjast vonandi 2021

Vinsælast

Þann 29. janúar sl. var kynningarfundur vegna frummatsskýrslu hreinsistöðvar fráveitu í Árborg haldinn í Tryggvaskála. Þar gátu íbúar og hagsmunaaðilar kynnt sér skýrsluna og spurt þá sem komið hafa að verkefninu spurninga, en fundurinn var opinn frá 16 – 19. Þeir sem ekki komust á fundinn geta enn kynnt sér efni skýrslunnar, en hana er m.a. að finna á vef Skipulagsstofnunar og á Bókasafni Árborgar, hvar hún liggur frammi.

Dagskráin ræddi við Tómas Ellert Tómasson um framvindu málsins. „Það er fagnaðarefni að það sé komið að þessari stund og komið sé að því að auglýsa frummatsskýrsluna sem verður grunnurinn að hinni eiginlegu umhverfismatsskýrslu sem framkvæmdaleyfi hreinsistöðvarinnar byggir á. Björninn er samt ekki unninn þó að frummatsskýrslan fari í gegn snurðulaust því að umhverfismatið er í raun sjö fasar og þegar þessum fasa er lokið erum við búin með þrjá af sjö þangað til framkvæmdir geta hafist.“ Þá standa vonir til að umhverfismatsferlinu ljúki í haust og í framhaldinu verður hægt að klára hönnunina alla og hefja framkvæmdir á næsta ári, 2021.

Mikið hefur verið rætt um kostnaðinn og þátttöku ríkisins. „Við bindum vonir við að Alþingi komi fram með frumvarp ekki síðar en á næsta haustþingi, þar sem lagt er til að virðisaukaskattur verði afnuminn af fráveituframkvæmdum. Það er gríðarlega mikilvægt atriði, ekki bara fyrir okkur, heldur öll sveitarfélög á landinu og þá sérstaklega þau minni, því að frárennslismálin eru því miður, víða í ólestri. Hreinsun skolps er nefnilega eitt mikilvægasta umhverfismálið þar sem aðgerða er þörf strax í dag og það skýtur svo sannarlega skökku við að ríkið sé að hafa tekjur af slíkum framkvæmdum.“ Aðspurður um stöðu umhverfismála almennt segir Tómas að grátlegt sé að horfa upp á afneitunina sem er í gangi hjá ríkjandi öflum hvað varðar umhverfisvandann í nærumhverfinu. „Ráðherra umhverfismála og aðrir afneitunarsinnar á umhverfisvandann í nærumhverfinu eru allt of mikið í því að eyða tíma og orku í að þvaðra og blaðra um málefni sem eru að mestu í góðu lagi hjá okkur sem þjóð, en ræða ekki um og grípa til aðgerða í þeim málum sem eru áþreifanlega í ólagi hjá okkur. Tökum til heima hjá okkur, klárum fráveituna og sorpmálin með sóma þannig að málflutningur okkar og gjörðir hvað varðar umgengi um jörðina okkar sé trúverðugur á alþjóðavísu, annað er bara lélegt leikrit,“ segir Tómas að lokum.

Random Image

Nýjar fréttir