12.8 C
Selfoss

Tilraunaverkefni með sorphirðu í Skaftárhreppi

Vinsælast

Ákveðið hefur verið að Skaftárhreppur fari í tilraunaverkefni um breytta sorphirðu í sveitarfélaginu. Tilraunaverkefnið er í samstarfi við Háskóla Íslands og ReSource International ehf. Tilraunaverkefnið mun felast í því að gera athugun á því hvaða sorphirðufyrirkomulag hentar best með tilliti til ánægju íbúa og með það að markmiði að auka flokkun og draga úr urðun. Búið er að skipta Skaftárhreppi upp í 6 tilraunahverfi sem hvert hefur sitt sorphirðukerfi. Þá kemur fram í tilkynningu að stuðst sé við nýjustu tæknilausnir og rannsóknir í sorphirðu við val á kerfunum. Í samtali við Ólaf Elvar Júlíusson, skipulags- og byggingarfulltrúa kemur fram að allt sé á fullu við undirbúning verkefnisins. „Það verður ítarleg kynning á fyrirkomulaginu fyrir íbúa í lok mánaðarins og við auglýsum það vel þegar þar að kemur.“ Eva Björk Harðardóttir, oddviti í Skaftárhreppi sagði að markmiðið með verkefninu væri að finna út það sorphirðukerfi sem væri efnahagslega og umhverfislega hagkvæmast fyrir sveitarfélagið. Verkefnið væri hugsað sem árs tilraunaverkefni. Þannig fengist reynsla á það hvaða kerfi hentaði íbúum í hreppnum best.

 

Nýjar fréttir