10 C
Selfoss

Þetta er ekki áramótaheit

Vinsælast

Áramótheit eru á vissan hátt komin með neikvæða mynd. Um daginn heyrði ég á tal fólks sem var að spá í því hvort einhver væri búin að setja sér markmið fyrir árið. Einn sagði þá, “Já ég er búin að því. Þetta er sko ekki áramótaheit eða eitthvað svoleiðis, en …”

Þetta fékk mig til að hugsa. Af hverju þarf áramótaheit að vera neikvætt. Jú, eflaust vegna þess að svo margir hafa sett sér áramótaheit sem þeir hafa ekki staðið við. Trúið mér, ég hef verið í þeim hópi. Ég hef sett mér allskonar áramótaheit sem ég hef ekki staðið við. En áramótaheit eru í raun ekkert öðruvísi en markmið. Það er hægt að setja sér áramótaheit um áramótin. Það er hægt að setja sér markmið um áramótin en áramótaheit og markmið nást ekki ef maður hefur ekki skýra sýn, skýra ástæðu og vilja.

Þegar ég held námskeiðin Einfaldara líf – Betra líf þá hvet ég alla þátttakendur til að skoða af hverju þau vilja einfalda lífið, hvað kemur í veg fyrir það og hvað þarf að einblína á til þess að það nái að verða.

Það sama á við um áramótaheit og markmið. Mistökin sem fólk gerir oft er að setja sér markmið um áramót um að léttast og hætta að borða óhollt. Það er gott og gilt að vilja léttast eða borða hollari mat til að huga vel að heilsunni en það væri mun gáfulegra að hugsa frekar um heilsuna til þess að líða vel, til þess að hafa orku, til þess að geta gert hluti sem þú átt erfitt með í dag.

Ef við setjum þetta í samhengi við markmiðssetninguna sem fólk gerir í upphafi námskeiðsins Einfaldara líf – Betra líf er gott að hugsa það svona.

Af hverju vil ég “(tilgreina markmið)”?

Hver er ástæðan?

Hvað þarf ég að forðast?

Skrifa svo persónulega yfirlýsingu.

Dæmi:

Af hverju vil ég hafa góða heilsu?

Ég vil hafa góða heilsu til að hafa orku til að sinna börnunum mínum, geta auðveldlega gengið upp á fjöll, farið í langa göngutúra, , farið á skíði skíði, ferðast og liðið vel í eigin líkama.

Hvað þarf ég að forðast?

Ég þarf að forðast kyrrsetu, forðast afskanir sem vilja koma í kollinn minn, ég þarf að forðast næringarlausan mat, ég þarf að forðast að vera í kringum fólk sem hefur neikvæð áhrif á þetta markmið mitt.

Persónuleg yfirlýsing:

Ég vil hafa góða heilsu til þess að mér líði vel í eigin líkama, geti verið lengi til staðar fyrir fólkið mitt og sinnt þeim áhugamálum sem brenna á hjarta mínu.

Þetta er dæmi um það hvernig við getum gert áramótaheit/markmið að lífsstíl. Þegar við vitum hver rótin er á bak við markmið okkar þá er mun auðveldara að stefna þangað smám saman. Það er ekki til nein skyndilausn. Hvort sem það tengist andlegri eða líkamlegri heilsu, fjármálum, atvinnu eða námi.

Ef þú veist hver grunn ástæðan er á bak við markmiðið þitt þá er mun líklegra að þú veljir það sem gott er þegar þú stendur frammi fyrir ákvörðunum.

Nánari upplýsingar um námskeið og fleira má finna á Facebook (Einfaldara líf).

 

Gangi þér vel,

 

Gunna Stella

 

Nýjar fréttir