4.4 C
Selfoss

Blómasmekkur

Vinsælast

Alberte er einkar fallegt lífrænt bómullargarn frá Permin sem mjög gaman er að vinna úr. Uppskrift vikunnar er af smekk sem er heklaður í hring og minnir á blóm. Garnið er drjúgt og ein dokka ætti að nægja í 4 smekki. Garnið fæst í fjölda fallegra lita og vel má útfæra smekkinn í tveimur eða fleiri litum.

 

Efni: 1 dokka Alberte lifræn bómull, heklunál no 2,5, ein tala.

Skammstafanir: ll – loftlykkja, kl – keðjulykkja, fl – fastalykkja, st – stuðull.

Uppskrift.

1.umf.   Heklið 6 ll og tengið í hring með 1 kl.

2.umf.   Heklið 14 fl um loftlykkjuhringinn

3.umf.   Heklið 1 st í hverja fl fyrri umferðar og 1 ll á milli stuðla, endurtakið allan hringinn.

4.umf.   Heklið 2 st í hvern loftlykkjuboga og 3 ll á milli, endurtakið allan hringinn.

5.umf.   Heklið 3 fl í hvern loftlykkjuboga allan hringinn.

6.umf.   Heklið tvískipta stuðla í 1. og 3. fl fyrri umferðar, 2 ll á milli, fyrri hluti næsta tvískipta stuðuls stingst í sömu l og seinni hluti fyrri tvískipta stuðuls. Endurtakið allan hringinn. Þá eiga að vera 21 tvöföld stuðlapör í hringnum.

7.umf.   Heklið 3 fl í hvern ll boga.

8.umf.   Heklið 1 st í hverja fl, alls 51 stuðul. Athugið að ekki er heklað allan hringinn.

9.umf.   Nú er snúið við og heklað fram og til baka. Heklið 1 st í fyrsta st, 2 st í næsta, 1 st í næstu 3 st, og áfram 2 st í 4. hvern stuðul fyrri umferðar. Alls 62 stuðlar.

10.umf. Snúið við og heklið eins og í 9. umf. Fyrsta útaukning er í 5. stuðli og nú eru 4 st á milli útaukninga. Alls 73 stuðlar

12.umf. Snúið við og heklið tungur, 7 st í 3. st frá nálinni, hoppið yfir 2 st og heklið 1 kl í næsta st, endurtakið út umferðina. Heklið 42 ll, snúið við og heklið 1 st í hverja ll. Endið á 1 kl í st fyrri umferðar.

13.umf. Snúið við og heklið 1 fl í hvern stuðul, alls 31sinnum, heklið 3 ll, hoppið yfir 3 st, 4 fl í næstu 4 st, 3 ll, hoppið yfir 3 st, 2 fl.

14.umf. Snúið við og heklið 1 st í hvern stuðul og hverja ll.

 

Klippið garnið frá, gangið frá endum, festið eina fallega tölu gegnt hálsólinni, skolið úr mildu sápuvatni og færið litlum slefara að gjöf.

 

Uppskrift: Þóra Þórarinsdóttir.

 

 

 

 

Nýjar fréttir